17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

145. mál, vegalög

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa frv. í þessari hv. d., þá afgr. samvinnun. samgöngumála störf sín þannig, að hugsunin var að leggja frv. ekki fram, fyrr en búið væri að fá samkomulag við hv. þingmenn, sem brtt. höfðu flutt við það.

Nú eru hér komnar fram brtt. frá tveimur hv. þm. Ég ætla ekki mikið að ræða um þær nú. Ég vil geta þess, að þessar brtt. á þskj. 464, a.m.k. tvær af þeim, lágu fyrir n. og hv. flm. þeirra, 6. landsk. þm., átti tal við n. Og er ekki hægt að segja, að þær væru ekki athugaðar, meðan n. var að starfa að þessu máli. (HV: Aldrei í þessu formi.) Nei, ekki með Glámuveginn. Þó kom það aðeins til orða á síðasta fundi n. að taka þetta einhvern veginn, án þess þó að væri ákveðið um staðinn. En vegamálastjóri var búinn í byrjun að skýra frá því, að þessi leið væri ekki svo fullrannsökuð, að hægt væri að segja um það upp á víst, hvar vegurinn skyldi liggja.

Þá eru brtt. á þskj. 463. Þær eru að nokkru leyti leiðréttingar á orðalagi og að nokkru leyti lengingar á vegum. Eftir því sem hv. flm. sagði, gæti það verið svona um 28 km lenging alls, lengingin á báðum þessum vegum. Nú var það svo, að enginn af hv. þm., sem fluttu brtt. við frv., fékk alla sína vegi upp tekna í till. n., og urðu allir að slá af, og varð samkomulag um það, eftir því sem möguleikar voru til. En ef ég man rétt, þá hefur hv. 1. þm. N-M, ekki flutt þetta áður á þessu þingi, meðan n. sat að störfum, en það hefur líklega verið flutt af hv. samþingismanni hans í Nd., og þá liggur það nú ljóst fyrir, að sú till. hefur verið athuguð, en n. ekki séð sér fært að taka þetta upp. En nú kemur hv. 1. þm. N-M. hér aftur í þessari hv. d. með þetta. Og þetta eru 24 km, og var nú horft í minna, þegar verið var að raða þessu niður. — En það, sem ég vildi fara fram á við þessa hv. þm., sem standa að þessum brtt. tveimur, sem hér liggja fyrir, er, að þeir taki þær aftur til 3. umr., því að ég vil gjarnan, að a.m.k. samgmn. þessarar hv. d. athugi þessar brtt. og e.t.v. samvinnunefndinni gefist færi á að athuga þessar till. í heild. Og það væri þá hægt með því að taka þessar brtt. aftur til 3. umr., ef hv. flm. eru fáanlegir til þess. (PZ: Ég skal gera það.)