18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

145. mál, vegalög

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Þessu máli var frestað við 2. umr. vegna brtt., sem fyrir lágu og fram hafa komið, eftir að frv. var samþ. í Nd. Eins og um var rætt, þá var óskað eftir því, að málinu yrði frestað, til þess að samvn. samgm. gæti látið álit sitt í ljós um þessar fram komnu till. Samvn. hélt fund í morgun um þetta mál og ræddi brtt., og í fljótu máli sagt var það samþ. í n. að mæla með því, að þessar till. yrðu allar felldar. Það var ágreiningslaust álit n. að mæla á móti brtt. 463, sömuleiðis brtt. 464,1–2, en það var ekki einróma samþ. í n. að mæla á móti 3. lið brtt. 464. Ég skal fara örfáum orðum um hverja þessa till. um sig.

Það er fyrst brtt. 463,a, að í stað orðanna „að Hábæ í Þykkvabæ“ komi: um Miðkot að Unhól í Þykkvabæ. Það var upplýst við fyrri umr., að þessi vegur væri að nokkru leyti gerður og nú í fjárl. væri veitt til hans fé, en þó væri hann ekki í vegal. Þó að þetta sé svona, þá sá n. ekki ástæðu til þess að fara að breyta l. vegna þess, þar sem þetta hefur enga þýðingu að því leyti, úr því að vegurinn er kominn, og væri því ekki ástæða til að setja frv. í hættu þess vegna. Þetta er vegur um plássið sjálft, Þykkvabæinn, að mestu leyti. Ég vil taka það fram, að vegamálastjóri var mættur á þessum fundi og var þar allan tímann, sem n. var að ræða um þessar till.

Þá er b-liður, að í stað orðanna „að Reykholtsdalsvegi“ komi: á Borgarfjarðarbraut í Reykholtsdal. Þetta yrði ekki nema orðabreyt., en engin efnisbreyt. Vegamálastjóri upplýsti, að þetta væri víða svona í vegal., að þar sem vegur lægi t.d. um önnur héruð og fleiri héruð en eitt, þá héldi hann nafni sínu, þó að hann kæmi í annað pláss, — hann hafði þau orð, að það hefði ekki neina praktíska þýðingu að taka inn þessa brtt.

Þá er c-liður, Kaldrananesvegur: Af Reykjarfjarðarvegi í Bjarnarfirði að Kaldrananesi. Það er sama um hann að segja og hina vegina.

Þá er d-liður, að í stað orðanna „að Ríp“ komi: um Ríp að Eyhildarholti. Þetta er lenging um 3–4 km, eftir því sem hv. flm. hefur upplýst, og kom ekki til greina í n. að fara að taka nýja vegi upp á þessu stigi.

E-liður er um það, að í stað „Ólafsfjarðar“ komi: Ólafsfjarðarkaupstaður. Þetta skýrði flm. svoleiðis, að þetta væri ekki nógu skýrt, þar sem svona er tekið til, t.d. þar sem sagt er ..til Ólafsfjarðar“ í staðinn fyrir að segja „til Ólafsfjarðarkaupstaðar“. En vegamálastjóri benti á, að þetta væri víða svona í vegal., t.d. Hnífsdals- og Bolungavíkurvegar frá Ísafirði, en ekki frá Ísafjarðarkaupstað, o.s.frv., og hann telur óþarft að fara að taka þetta inn.

Þá er f-liður, að á eftir D.7. komi nýr liður, er orðist svo: „Jökuldalsvegar eystri: Af Austurlandsvegi á Jökuldal, yfir brú á Jökulsá hjá Hjarðarhaga út Jökuldal að austan og á Austurlandsveg hjá Þrívörðum í Heiðarenda.“ Þetta er eina upptekningin á vegi, sem búið var að fella úr till. flm. í Nd.

Niðurstaða n. var að leggja til, að þessar brtt. yrðu allar felldar.

Þá er brtt. 464. Það er fyrst, að í stað orðanna „Frá Ísafirði“ komi: Frá Engjavegi, Ísafirði. Þetta er alveg í takmörkum kaupstaðarlóðarinnar á Ísafirði, en í 3. gr. vegalaganna segir svo: „Þar, sem þjóðvegur liggur um kaupstað eða kauptún, telst þjóðvegurinn að mörkum kaupstaðarlóðar eða verzlunarlóðar.“ Þetta ætti að vera hægt að halda sér við, án þess að það sé tekið fram nákvæmlega.

Þá kemur 2. liður á þskj., og má segja, að það sé prentvilla, það er fyrir „Fjarðarvegur“ komi: Fjarðavegur.

Svo kemur 3. liður: „Arnarfjarðarvegur: Af Barðastrandarvegi á Þingmannaheiði norður til Arnarfjarðar í samband við Þingeyrarveg.“ Það voru ýmsir menn í n., sem vildu taka þennan veg inn, og meira að segja komst til tals, hvort vegamálastjóri væri ekki á því, ef það kæmi í ljós, að þarna væri gott vegarstæði, að fé yrði veitt til hans á einhvern annan hátt. En eftir allmiklar bollaleggingar var ákveðið í n. að leggja til, að hann yrði ekki tekinn fyrir nú á þessu stigi málsins, þar sem vegal. eru komin þetta langt, til þess að fyrirbyggja þá hættu, sem væri í því fólgin að fara að hreyfa frv. eins og það liggur fyrir og samþ. brtt. nú við 2. umr., og fyrirbyggja þá hættu, að allt færi úr reipunum og margir kæmu með brtt. aftur við 3. umr.