18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég er fylgjandi þessu frv. Eins og kemur fram í grg., þá bar ég þetta mál fram á sínum tíma í öðru formi, en meginkjarni málsins hefur jafnan verið að fá þetta fé sem fastan tekjustofn til að standa undir þeim kostnaði, sem er því samfara að framfleyta fólki, sem er komið á elliár og hefur slitið sér út á störfum fyrir þjóðfélagið, og jafnframt hinn, sem af einhverjum ástæðum hefur orðið fyrir þeim erfiðleikum að verða öryrkjar, án þess að það stafi frá ellilasleika. Þess vegna er ég viss um, að með þessu frv. er stigið ákaflega stórt og merkilegt spor í heilbrigðis- og félagsmálum þjóðarinnar, þar sem þessir menn hafa aðstöðu til þess að framfleyta sjálfum sér, þegar þeir þurfa á að halda. — Ég er þakklátur hv. heilbr.- og félmn. fyrir að taka þetta mál upp, og ég er einnig þakklátur hæstv. fjmrh., sem féllst á, að málið næði fram að ganga á þann hátt, sem það liggur fyrir, og vil vænta þess, að hv. d. vilji samþ. frv. óbreytt.