10.01.1952
Neðri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

158. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. flytur þetta frv. eftir tilmælum hæstv. landbrh. Það fjallar um tvö atriði í gildandi l. til varnar því, að gin- og klaufaveiki berist til landsins. Hið fyrra ákvæði, sem er í 1. gr. þessa frv., hljóðar um það að hækka verulega sektir fyrir brot á þeim þýðingarmiklu l., sem hér er um að ræða, og er það að sjálfsögðu með tilliti til þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa síðan þau l. voru sett. — Síðara ákvæðið, sem felst í 2. gr. þessa frv., er um það að rýmka heimild ríkisstj. eða landbrh. til þess að setja ákvæði í reglugerð um það að verjast þeirri hættu, sem hér er um að ræða, og bæta úr ríkissjóði það tjón, sem af því kann að hljótast, að til þeirra ráða verður að grípa að farga í skyndi meira eða minna af bústofni einstakra manna eða einstakra búa. — Landbn. lítur svo á, að það sé sjálfsagt að samþ. þetta frv., og væntir þess, að það fái greiðan gang gegnum hv. d. En í sambandi við þetta mál vil ég auk þess taka fram, að ég hef lengi litið svo á, að það væri í sjálfu sér tilviljun að kalla má, að við skulum ekki vera búnir að fá þessa veiki inn í landið og aðrar hættulegar pestir, og meðfram fyrir það, hve oft hefur af ríkisstj. verið veitt undanþága frá þeim lögum og ákvæðum, sem í gildi eru varðandi þetta efni, með því að flytja inn alls konar skepnur, hunda, fugla, smádýr og síðast nú í vetur var flutt inn fyrir nokkurn tíma margt af villidýrum, sem maður getur ekkert um sagt, hvort hafi getað borið með sér veiki. Allar slíkar undanþágur álít ég að eigi að forðast mjög, því að í l. eins og þau eru er að finna mjög ströng ákvæði gegn því að flytja inn nokkur erlend dýr. Landbn. hefur ekki tekið neitt til athugunar að herða á þessu, því að í sjálfu sér eru ákvæðin nógu hörð, en það eru undanþágurnar, sem á undanförnum árum hafa verið veittar, sem hafa gert l. áhrifaminni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál fyrir hönd landbn., en vænti þess, að málið fái greiðan gang gegnum hv. deild.