17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér ógnar að heyra, er jafnvei skyni borinn maður og 5. landsk. er að tala um þessi efni. Þetta eru allt blekkingar, og hann veit það vel sjálfur. Þetta sýnir aðeins þær blekkingar, sem sósíalistar reyna að þyrla upp í þessu máli, því að þeir hafa einhverja sérstaka löngun til að eyðileggja eða koma í veg fyrir framgang þess. Þessi þvættingur þeirra um þrefaldan áburð er aðeins til að hindra framgang málsins, því að þeir vita, að málið gæti aldrei komizt í framkvæmd á þann hátt. Þegar hv. þm. er að tala um, að áburðurinn innihaldi 1/3 köfnunarefnis, þá vita allir bændur, að það er ekki nóg, því að það þarf bæði fosfat og kalí. Þetta eru því aðeins blekkingar. Þetta fara þessir menn með, þó að þeir viti, að þetta er tóm vitleysa. — Hitt er svo óþarfi, að vera að ræða hér um framleiðsluaðstöðu fyrir annan áburð, því að það vita allir, að þessi áburður hefur reynzt vel, enda er búið að nota hann hér í 10 ár. Hitt er líka vitað, þó að þessi áburðarverksmiðja sé miðuð við sérstaka tegund köfnunarefni,áburðar, að þá er hægt að framleiða blandaðan áburð með lítilli breytingu, en við höfum ekki hráefni hér til þess að vinna slíkan áburð. —

Það er þó ekki útilokað, að þessi verksmiðja geti framleitt blandaðan áburð. — Ég hef aldrei heyrt fyrr en nú, að verksmiðjan hafi verið byggð til framleiðslu nitrofosfats, enda óskynsamlegt, af því að þær áburðartegundir eru ekki fyrir hendi hjá okkur, en hér er hægt að nota annan áburð eins heppilegan. Hitt er svo kostur að hafa blandaðan áburð með, og er ég hv. þm. sammála um það.

Ég gat ekki látið hjá líða að geta um þetta, því að mér ofbjóða þær blekkingar, sem skynsamir menn reyna að þyrla upp til þess að hindra málið.