17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Þ. minntist á það áðan, að sér fyndist of mikið fé lánað úr mótvirðissjóði í fá en stór fyrirtæki. Það er augljóst, að ef koma á þessum fyrirtækjum á fót, þá þarf til þess mikinn hluta mótvirðissjóðsins. Hv. þm. spyr, hvort þetta sé rétt. Ég held nú, að ekki hefði verið hægt að fá þetta fé með öðru móti. Það hefur þó verið reynt að fá hlutafé í verksmiðjuna, en það hefur gengið erfiðlega. Það hefur verið þannig með rekstur rafveitnanna við Laxá og Sog, að þær hafa átt afar lítið af handbæru fé. Þá var spurning um að fá lánsfé innanlands, og stjórnin krafðist þess, að það yrði reynt. Hefur það verið gert svikalaust og hafður uppi mikill áróður í því skyni. Þá er spurning, hvort einhverjar leiðir væru ónotaðar til þess að ná fé til þessara fyrirtækja, en það er ekki auðvelt að sjá þær. Svo er það, að enn vantar mikið fé til þess, að þessa heimild yrði hægt að nota, þótt hún yrði veitt, en ófært er með öllu, að þingið skilji svo við þetta mál, að heimildin verði ekki veitt.

Þá er að rifja upp, af hverju ráðizt var í þessar nýju virkjanir, þrátt fyrir það að til voru stór orkuver bæði við Laxá og Sogið. Það var vegna þess, hve rafmagnsskorturinn var orðinn mikill á orkusvæðum þessara rafveitna. Áttu hér hlut að máli hvað Sogsvirkjunina snertir auk Reykjavíkur margir bæir eða kaupstaðir svo og sveitirnar austanfjalls, og möguleikar fyrir rafmagni til Suðurnesja voru undir nýrri virkjun komnir, svo að hér var um hagsmuni meiri hluta þjóðarinnar að ræða. Sömu sögu er að segja að norðan um Laxárvirkjunina. Þetta hljótum við þm. að viðurkenna, ef við lítum almennt á málið. Þessar ástæður voru til þess, að stjórnarflokkarnir völdu þessa leið, þótt vitað væri, að margar framkvæmdir yrðu að sitja á hakanum. Þetta veldur að sjálfsögðu engri sérstakri gleði t.d. á Austur- eða Vesturlandi. En ég hygg, að þeir menn, er þannig líta á málið, ættu að gera sér betur ljóst, í hverju verið er að standa, og líta á málið í heild. Það er ekki hægt að gera allt samtímis. og hér er um hagsmuni meiri hluta þjóðarinnar að tefla. Þetta kom m.a. fram í ræðu hv. þm. N-Þ., að honum blöskraði upphæðin, sem færi til þessa. Þetta vildi ég taka fram út af þeirri ræðu. — Ég mun ekki munnhöggvast við þm. kommúnista frekar um þetta mál.

Varðandi það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði, þá held ég, að hann ætti að fá um þetta upplýsingar hjá landbrn., sem hefur um þetta öll gögn. Hv. þm. spurði, hvers vegna hlutaféð hefði ekki getað verið meira. Það var ekki hægt að fá fram lagt meira hlutafé, nema þá frá ríkinu. (GÞG: Það átti auðvitað að gera.) Það var ekki ætlunin, að þetta yrði gert að neinu stórgróðafyrirtæki. Eða hvernig dettur hv. þm. það í hug, þar sem ríkið á meiri hl. hlutafjárins og S.Í.S. helming hins hlutans, að ausið verði í hluthafa 40–50% af ágóðanum? Þetta kemur ekki til mála, heldur verður verðið lækkað. Það mun verða rekin sú pólitík að halda verðinu sem lægstu, en ekki að græða á framleiðslunni.