06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

96. mál, menntaskólar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það liggur hér fyrir nál. frá menntmn. um frv. það um menntaskóla, sem ég hef borið hér fram ásamt öðrum hv. þingmönnum. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, en minni hl. leggur til, að frv. verði fellt. Varðandi till. meiri hl. vildi ég segja það, að frá mínu sjónarmiði og frá sjónarmiði flestra flm., svo sem hv. þm. N-Þ. gat um, er aðalatriði þessa frv. um menntaskólann á Akureyri, og það er fyrst og fremst vegna hans, sem þetta mál er komið hér inn á Alþingi. Hins vegar skal ég taka það fram, að ég er í bili þeirrar skoðunar, að það sé rétt, að heimild til þessa náms sé veitt báðum menntaskólunum, vegna þess að ég álít það vera svo, að menntaskólarnir eigi að hafa heimild til þess að hafa miðskóladeildir, ef óskað er eftir því. En menntaskólinn í Reykjavík mun ekki geta bætt við miðskóladeildum vegna aðstæðna sinna. Ég hefði því talið æskilegra, að þessi heimild hefði verið í frv. eins og það var upphaflega, að það næði til beggja skólanna. Ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. gegn brtt. meiri hl. n., enda þótt það breyti ekki kjarna málsins og afstöðu minni til málsins í heild. Ég vænti líka, að hv. 3. landsk. muni ekki snúast gegn þessu máli, hvernig sem fer með þessa brtt. meiri hl. menntmn. Ég get lýst því yfir hvað mig snertir, að ef menntaskólinn í Reykjavík hefði aðstöðu til þess að hafa miðskóladeild, en menntaskóli Akureyrar hefði hana ekki, mundi ég fylgja þeirri till., að menntaskólinn í Reykjavík fengi miðskóladeild.

Ég rakti í fyrri ræðum mínum þetta mál í einstökum atriðum og hélt mig við mál þeirra skóla, sem hér um ræðir, og gerði grein fyrir þeim meginástæðum, sem réttlæta, að skólunum yrði veitt þessi heimild. Ég rek það ekki aftur núna, sem ég sagði þá, en vík að ræðu hv. þm. A-Sk., frsm. minni hl. menntmn. Hann vék hér almennt að fræðslukerfinu í landinn í heild og hvernig það var sett eftir vandlega íhugun og taldi, að það væri því mjög heppilegt kerfi í alla staði og því mætti ekki breyta gegn því. En hér á Alþ. hefur nú komið fram þáltill. þess efnis að endurskoða fræðslulöggjöfina og stytta námstímann, og það eru ekki lítil rök gegn því skólakerfi, sem við búum við. Það mun hins vegar vera almennari skoðun, að ég hygg, að því fari fjarri, að full reynsla sé fengin fyrir því, hvort þetta fræðslukerfi er heppilegt eða ekki.

Hv. þm. sagði, að ef það kæmi í ljós, að heppilegt væri að breyta kerfinu, þá mætti athuga með það að láta menntaskólana hafa miðskóladeildir, ef það reyndist heppilegra. Í þessu er misskilningur fólginn, því að allt fram til síðasta vors hafa miðskóladeildir starfað við menntaskólann á Akureyri, og svo mikil aðsókn hefur verið að þeim skóla, að nú eru þrjátíu nemendur í sérstökum námsflokki, sem kennarar skólans kenna, og verða nemendur í þessari deild að greiða sérstakt kennslugjald til þess að njóta síðar kennslu í menntaskólanum. Það, sem hér er um að ræða, er að lögfesta heimild um, að halda megi þessari kennslu áfram, að menntaskólinn á Akureyri fái framvegis sem hingað til að hafa miðskóladeild. Það er því ekki verið hér að breyta neitt kerfi því, sem skólinn hefur byggt á. Það er líka mikilsvert fyrir skólann að fá þessa miðskóladeild til þess að halda þeim kennslukröftum, sem hann hefur á að skipa, og mun þessi deild taka til starfa, þegar lög um hana hafa verið samþykkt á Alþ.

Mér virðist það því út af fyrir sig fjarstæða að heyra það, að svipta eigi menntaskólann á Akureyri miðskóladeild sinni, þegar allt er í óvissu um það, hvort skólakerfi það, sem nú er, verður óbreytt eða ekki. Það, sem hér er um að ræða, er, hvort leggja á niður skóladeild, sem hefur starfað undanfarið í sambandi við menntaskólann. — Hv. þm. sagði enn fremur, að reynsla og þekking hefðu ráðið mestu, þegar hið nýja skólakerfi var sett, og þar hafi allt verið vel athugað og margir menn unnið að undirbúningi nýju fræðslulaganna og þess vegna væri óráðlegt að taka upp miðskóladeildir við menntaskólana. En ég vil vitna til þess manns, sem almennt mun hafa verið viðurkenndur sem einn mesti skólamaður landsins, Sigurðar Guðmundssonar skólameistara, þess manns, sem um langan tíma veitti menntaskóla Akureyrar forstöðu. Hann hafði alla tíð lagt gegn því, að þessu fyrirkomulagi við skólann yrði breytt, og enda þótt lög kæmu um þetta, þá var það honum að þakka, að þessu var þá ekki breytt.

Það er margt, sem ástæða væri til að rekja í sambandi við þetta mál, en fundartíma er nú að verða lokið, og ætla ég ekki að fara öllu lengra út í þetta mál. Ég vil aðeins minnast á eitt atriði, sem hv. frsm. minni hl. talaði um, þ.e., að það sé óráðlegt að hafa landspróf eftir tvo vetur, og hann vitnaði í ýmsa skólamenn því til sönnunar. Hins vegar segist hann viðurkenna, að margir nemendur séu færir um að ljúka þessu námi á tveim vetrum, en það séa þá úrvals nemendur. Þarna er vitnað í kjarna þessa máls og það, sem mestu máli skiptir í sambandi við gagnrýnina á nýju fræðslulöggjöfina, þ.e., að margir bera kviðboga fyrir því, að þetta fræðslukerfi sé að gera meðalmennskuna að sínu aðaleinkenni, og ég hygg, að margir geti bent á dæmi því til sönnunar, að margir nemendur hafi tekið tvö bekki skólanna á einum vetri. Ég hygg, að það sé almenn skoðun, að ekki sé heppilegt, að allir skólar séu jafnlangir, heldur séu til skólar fyrir beztu nemendur, og þannig er einmitt fundin enn ein röksemdin fyrir því að leyfa menntaskólanum á Akureyri að hafa þessa miðskóladeild. Hv. þm. taldi, að gagnfræðaskólanum væri þetta þyrnir í augum, því að meginandstaðan hefði komið frá þeim skóla, því að hann teldi, að hann missti sína beztu nemendur. hað má til sanns vegar færa, vegna þess að beztu nemendurnir fara í þann skóla, þar sem þeir geta lært meira. — Ég ætla svo ekki að lengja mál mitt, þar sem fundartíminn er á enda, og mun ekki taka aftur til máls, nema tilefni gefist til. — [Fundarhlé.]