07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

134. mál, girðingalög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls var málið reifað og gerð grein fyrir því. Er því óþarfi að taka það hér upp aftur.

Landbn. athugaði þetta frv., en því var vísað til hennar. Sumir nm. höfðu áður fjallað um það, en samt þótti ekki ástæða til að láta það fara óbreytt úr n. Voru gerðar á frv. nokkrar breyt., að vísu ekki stórvægilegar, en þær eru alls 6 talsins. — Um 1. brtt. er það að segja, að hún er ekki nema til þess að stytta mál greinarinnar og gera það skýrara. Er þar ekki tekið fram, að vísað sé til ábúðarl. í heild, heldur til sérstakrar gr. í ábúðarl. Þessi breyting er því aðallega til skýringar, og eins má segja um 2. brtt., þar sem bætt er við í 3. gr. orðunum „frá meðeigendum“, svo að ekki sé um að villast, hver það er, sem á að greiða það matsverð, sem um er rætt.

Þá er 3. brtt., við 8. gr. frv. Í þeirri gr. er talað um girðingar til varnar útbreiðslu búfjársjúkdóma. Eru þær frábrugðnar öðrum girðingum, og vildum við ekki láta það standa óbreytt í frv., að sömu reglur giltu um greiðslur á andvirði þeirra og viðhald og um aðrar girðingar, heldur vildum við bæta inn í, að þetta gilti aðeins eftir því, sem við ætti í hvert skipti. Það getur verið svo margbreytilegt, hvað við á um þessar girðingar, að það er ekki hægt að hafa einn og sama mælikvarðann.

Meginbreytingin, sem gerð var á þessu frv., er við 9. gr. þess. Það hefur verið lagður svo þungur baggi á ríkissjóð, að við töldum, að það gæti orðið til þess að hamla einstöku vegagerðum, ef ákvæði frv. næðu fram að ganga. Gæti það orðið til þess, að híkað yrði við að leggja veg á góðum stað gegnum ræktað land vegna girðingakostnaðar. Þess vegna vildum við ekki, að greitt væri nema fyrir það, ef vegur væri lagður gegnum samfelld engjalönd eða gegnum tún og ræktunarland. Ræktunarland er land, sem búið er að taka til ræktunar, m.a. með skurðgrefti og uppþurrkun, þó að enn sé ekki hægt að kalla það slægjuland eða töðuvöll. Viða er það þannig, að þar eru til töðuvellir, þó að þeir teljist ekki tún. Það er þess háttar ræktunarland, sem við eigum við í þessari brtt. Þó skal það tekið fram, að viðhald þessara girðinga lendir á landeigandanum eða ábúandanum, eftir því sem þeir skipta því á milli sín, en ekki á ríkissjóði, sem á að annast viðhald veganna og gera það á sinn kostnað. Þá er hér enn ein breyting, sem er aðallega miðuð við sumarbústaði. Þar er eigendum vega heimilt að girða meðfram vegum sínum. Skal vegeiganda þó skylt að setja hlið á slíka girðingu, ef þörf er á að dómi matsmanna. — Þó að mönnum dytti í hug að girða beitilönd sín, þyrfti ríkissjóður ekki að taka þátt í kostnaði þeirrar girðingar, en ef vegur er lagður gegnum beitiland, sem er þegar girt, þá kemur til mála, að það þurfi að girða meðfram honum eða setja hlið á girðinguna, sem þar var áður.

Svo eru frekari reglur um það, hvernig á að fara að með girðingu yfir vegi, sem þegar eru komnir, og hlið á vegi. Má enginn gera girðingu með hliði yfir þjóðveg eða fjallveg nema með leyfi vegamálastjóra, ekki yfir sýsluveg nema með leyfi sýslunefndar og ekki yfir aðra vegi nema með leyfi hreppsnefndar. Þar sem til eru vegir aðrir en þjóðvegir, fjallvegir og sýsluvegir, vildum við, að þeir kæmu einnig undir þessi lög, og þess vegna höfum við sett inn, að um þessa „aðra vegi“ skyldi hreppsnefnd ákveða, hvernig fara ætti með girðingar og hlið á þeim vegum. — Þetta er meginbreytingin, sem við gerðum á þessu frv. Því miður hefur okkur sézt yfir að leita álits vegamálastjóra á þessum breytingum og biðja hann að bera þetta saman við vegalögin. En í morgun mundi ég eftir þessu og sendi vegamálastjóra frv. þetta upp á mitt eindæmi og bað hann um að láta mig vita í fyrramálið, ef hann teldi einhverja vankanta á þessum brtt. Má þá alltaf gera breytingar á frv. við 3. umr., ef af þessu hljótast einhverjir árekstrar. Sé ég því ekki ástæðu til annars en hv. d. samþ. þessar brtt. við þessa umr.