21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Meiri hl. allshn. leggur til, að frv. þetta verði samþ., en minni hl. er frv. andvígur. Aðalefni þessa máls er ágreiningur milli kvikmyndahúseigenda í Reykjavík og bæjarstj. um það, hvort henni sé heimilt að innheimta sætagjald af kvikmyndahúsum. Þetta var tekið upp 1943, en síðan hefur verið samkomulag um málið milli eigenda kvikmyndahúsanna og bæjarstj. Á síðastliðnu ári grundvallaðist þetta samkomulag á því, að bæjarsjóður fengi sömu tekjur og verið hafa af kvikmyndahúsunum. Þetta þýddi það, að bæjarsjóður fékk 9% af seldum aðgangseyri, en síðastliðið ár 8%, því að þá hafði bætzt við eitt kvikmyndahús, og var heildartalan þá orðin meiri. Þessu sögðu kvikmyndahúsin upp á s.l. ári og hafa reyndar ekki greitt þessi gjöld nema að nokkru leyti. Nú er svo komið, að þau ganga á það lagið, að bæjarsjóður hafi ekki fast undir fótum með að innheimta þessi gjöld, en eins og hv. þm. er kunnugt, er brýn nauðsyn þess, að bæjarsjóður missi ekki spón úr sínum aski. Forsvarsmenn bæjarsjóðs telja því ekki efnilegt að missa þarna 450 þús. kr. Þess vegna er þessi heimild borin upp, að bæjarsjóði verði heimilað að innheimta allt að 10% sætagjald af sýningum kvikmyndahúsanna. Heildartekjur kvikmyndahúseigenda minnka, ef þetta er gert, en ef gjaldið verður eitthvað hækkað, aukast tekjur bæjarsjóðs, ef hann notar heimildina að fullu. Fyrir bæjarsjóði vakir að hafa af þessu sömu tekjur, og á fjárhagsáætlun þessa árs eru þær áætlaðar 450 þús. kr. — Á fundi í allshn. mættu fulltrúar frá bæjarstjórn Reykjavíkur og kvikmyndahúsunum. Þeir töldu sig ekki geta greitt þetta gjald, en það ber að þeim brunni, og er illt við að una, að það komi fyrst og fremst niður á bæjarsjóði, ef boginn brestur. Þetta frv. var því flutt til að koma í veg fyrir þetta, og mælti meiri hl. n. með því, að það væri samþ. — Mér skilst, að það séu fjórir aðilar, sem hér eiga hlut að máli: bæjarsjóður, ríkissjóður, sem fyrir utan tekju- og eignarskatt tekur skemmtanaskatt, síðan almenningur, sem greiðir aðgangseyrinn, og eigendur kvikmyndahúsanna. Hver á nú að víkja? Er það bæjarsjóður eða ríkissjóður eða borgararnir með hækkuðum aðgangseyri — en gjaldþol er ekki fyrir hendi — eða eigendur húsanna? Allt þetta kemur til álita, og vil ég ekki vefengja, að það sé rétt hjá eigendum kvikmyndahúsanna, að gjöldin séu of há til að greiða þau að óbreyttum aðgangseyri. Og vissulega er það mikils virði, að aðgangseyrir þurfi ekki að hækka, til þess að skemmtanalíf bæjarbúa geti haldizt óbreytt og almenningur geti notið þessara sýninga. Hitt vænti ég að menn sjái, að það getur ekki staðizt, ef um erfiðleika er að ræða í rekstri, að bæjarsjóður eigi að verða útundan og taka á sig erfiðleikana af því.

Ég vænti þess, að ég hafi reifað aðalatriðin og það sjónarmið, sem fram kom í bæjarstj. og liggur til grundvallar því, að meiri hl. n. mælir með því, að þetta frv. verði samþykkt.