22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

109. mál, skipun prestakalla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða einstök atriði þessa máls nú við þessa 1. umr. En ég vildi aðeins beina einni ósk til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, þar eð mig langar til, að það sjónarmið komi fram. Það er varðandi 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að nokkrir prestar taki jafnframt að sér kennslu á viðkomandi stöðum. Mér virðist, að þetta þyrfti að athuga vandlega.

Það er vitað mál, að undanfarin ár hefur verið vont að fá kennara á ýmsa þessa staði, og sumir þeirra eru einnig prestslausir og hafa verið það lengi. Ég óttast mjög, að með þessu ákvæði sé enn aukið á vandræði þessara staða, en vandi þeirra ekki leystur.

Mér er ómögulegt að trúa því, að þessi tilteknu prestaköll verði eftirsóknarverðari, þó að prestunum sé ætlað, gegn lítilli launahækkun, að kenna börnunum á þessum svæðum. Hér yrði um gífurlega starfsaukningu að ræða, ekki sízt þar sem oft er um marga aldursflokka að ræða, sem erfitt er að kenna í einu lagi.

Það er gert ráð fyrir því, að ef þetta skipulag kemst á, þá verði kennarar ekki ráðnir á þessa staði nema frá ári til árs. Með þessu er torveldað að fá þangað kennara, og getur hæglega svo farið, að þessar sveitir verði bæði kennara- og prestslausar.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta mál frekar, en vildi aðeins, að þetta sjónarmið kæmi fram þegar við 1. umr.