24.01.1952
Neðri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

109. mál, skipun prestakalla

Jörundur Brynjólfsson; Herra forseti. Ég sé á þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, að hv. Ed. hefur breytt því nokkuð. Ég ætla ekki að fara að gera þessar breytingar að umræðuefni almennt, heldur aðeins þær, sem snerta mitt kjördæmi beinlínis.

Ég sé, að hún hefur fellt niður Selfossprestakall. Þetta mun nú vera rökstutt með því, að ef þetta sé ekki gert, þá fjölgi um presta í Árnessýslu. Ég er hissa á þessu, þar sem það er ekki vafasamt, að samkvæmt þessu frv. eins og það liggur fyrir mun prestum fjölga. Það er lögð á það áherzla, að þessi stétt sé góð og gagnleg og af henni megi mikils vænta, og með því er það rökstutt, að ekki sé rétt að fækka prestum. Og allur undirbúningur málsins og afgreiðsla byggist á því, að um fækkun presta skuli ekki vera að ræða, og þessi stefna, sem frv. styðst við, á fyllsta rétt á sér. En þá hefði ég nú kunnað betur við, að sanngirni og samræmis hefði gætt í þessu, en mér virðist, að á þetta skorti nokkuð.

Það mun vera talið, að með þeirri skipun, sem hér er gert ráð fyrir, haldi Árnessýsla sínum prestaköllum, þar sem gert er ráð fyrir því, að prestur verði á Þingvöllum, en segja má, að það sé meira í orði en á borði. Nú eru 20–30 ár síðan prestur hefur verið á Þingvöllum, og sú breyting, sem gerð hefur verið á þeim stað svo og næstu svelt, Grafningnum, miðar að því, að þar verði ekki prestur í framtíðinni. Þar eru svo lítil störf fyrir prest, að enginn mun sækjast eftir að vera þar. Í Þingvallasveit hefur ábúð verið lögð niður á mörgum jörðum, — það var gert með friðun Þingvalla, — og eru flestar jarðir þar komnar í eyði. Það sama er að segja um Grafninginn, þar hefur skipazt svo, að flestar jarðir eru komnar í eyði. Reykvíkingar hafa sótzt eftir að eignast jarðir þarna, að ég ætla til að ná í veiðiréttindi í vatninu, og um ábúð þessara jarða hefur farið svo, að þær eru nú flestar komnar í eyði. Það er þess vegna fátt fólk í þessum sveitum, og ég má upplýsa, að þetta fáa fólk berst við að halda uppi sjálfstæðu sveitarfélagi. Ég hygg því, að tæplega sé hægt að gera ráð fyrir, að prestur verði í framtíðinni á Þingvöllum, þar sem verkefni þar eru svo lítil og sá maður, sem þar kæmi og vildi sinna sínum hugðarefnum, svo sem fræðiiðkunum, hefði til þess lítinn tíma sakir þess, hvað þar er ónæðissamt á sumrin, og ekki yrði það til að bæta úr skák, ef hann jafnframt prestsstörfunum á að hafa leiðbeiningar og umsjón með staðnum.

Hvað áhrærir Selfoss, þá er þar nú 1200 manns, og þetta er nýtt þorp, sem byggzt hefur upp á síðustu árum, og hefur íbúunum stöðugt fjölgað. Presturinn hefur Hraungerði ásamt þessum stað, og undir það prestakall heyra um 500 manns, sem er fleira en í ýmsum af þeim prestaköllum, sem gert er ráð fyrir víða á landinu. Og ef litið er á þau störf eingöngu, sem prestarnir verða að vinna, þá hníga öll rök að því, að þarna eigi að vera prestur.

Ég get fallizt á, að ef það væri stefnan að fækka prestum, þá væri ekki ástæða til að hafa þarna tvo presta, en nú er það hin ríkjandi stefna þessa frv., að prestum fjölgi, og þá sé ég ekki neina ástæðu til, að þar verði látið gilda annað lögmál um Árnessýslu en aðra staði á landinu. Það kunna að liggja einhver dýpri rök fyrir þessu með Árnessýslu en ég hef gert mér ljóst í fyrstu, en ég get ekki látið það ráða afstöðu minni til þessa máls.

Hvað áhrærir að kippa þessu í lag, þá held ég, að það þyrfti aldrei að verða að friðslitum í þessu máli. Þessi staður var búinn að ganga í gegnum þrjár umr. í Ed. og síðan aðrar þrjár í Nd., en síðan er honum kippt út við fjórðu umr. í Ed., og ég ætla, að það sé engin tvísýna að færa þetta nú aftur til fyrra horfs, og ætla ég, að það geti á engan hátt orðið til þess að ráða afdrifum málsins. Ég mun því freista þess að bera fram við þetta brtt. nú, þess efnis, að Selfoss verði tekinn upp og hann gerður prestakall óháð Hraungerði, og vil ég biðja forseta að leita eftir afbrigðum fyrir þessari brtt.