10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að ég hefði orðið þakklátari hv. iðnn., ef hún hefði mælt með frv. mínu með eða án breyt., heldur en fyrir þessa afgreiðslu, og ég verð að taka það fram, að ég álit vel hægt að samþ. frv. mitt með breyt. Ef það þykir ófært að vísa á tekjuafgang ríkissjóðs á þessu ári, þá hefði mátt setja í frv. lánsheimild. Ef það er ekki ætlunin að leggja heimtaugar til bæja á leiðinni milli Hjalteyrar og Dalvíkur, þá er þetta ekki há upphæð, og hugsanlegt væri að veita fé til þess á fjárl. En samt sem áður, þó að ég hefði verið ánægðari með þá afgreiðslu, þá er á hitt að líta, að samkv. till. n. á þetta að koma í sama stað niður eins og ef frv. mitt væri samþ. Eins og upplýst er í nál. og eins og dagskrártill. ber með sér, þá liggur fyrir um það loforð frá þeim hæstv. ráðh., sem með þessi mál fer, þó að það sé að vísu nokkrum skilyrðum bundið, að línunni til Dalvíkur skuli vera lokið um svipað leyti og Laxárvirkjuninni. Standist það, kemur þetta í sama stað niður. Að vísu eru nokkuð mörg „ef“ í nál., en ég álít þó, að þar séu ekki svo mikil „ef“, að ekki sé hægt á þessu að byggja.

Það er sagt, að sigraðir menn verði að sætta sig við allt, og ég er sigraður í þessu máli, því að öll n. leggur til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá. En þess ber að gæta, að málinu er vísað frá á eins vinsamlegan hátt og hægt er að vænta. M. ö. o., það er lagt til, og því vil ég slá föstu, að efni frv. verði framkvæmt. (JJós: Það er rétt.) Þar af leiðir, að ég get ekki verið óánægður með þessa afgreiðslu. Ég vil því þakka n. fyrir þá vinsemd, sem kemur fram í þessu, og ég treysti því, að málið verði framkvæmt á þann hátt, sem dagskrártill. gerir ráð fyrir.

Eitt atriði er í þessu, sem mér er ekki fyllilega ljóst, en það er, hvort ummæli hæstv. ráðh. varðandi þetta mál binda eftirmann hans, ef svo vildi til, að annar maður færi með þessi mál. Ég verð þó að líta svo á, að ummæli ráðh. staðfest í þskj., jafnhliða dagskrá, sem lætur þennan þingvilja í ljós, hljóti að vera bindandi, þegar þar að kemur, hvort sem ráðh. heitir Hermann Jónasson eða eitthvað annað.