27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar 1. umr. fór fram um þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 200, þá gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Og í samræmi við þá skoðun, sem ég hélt þar fram, þá hef ég flutt hér brtt. við frv. á þskj. 328.

Með l. nr. 70 12. apríl 1945 var sú breyt. á gerð um fasteignamatið, að í stað þess að áður var svo ákveðið, að fasteignamat skyldi fara fram á 10 ára fresti, þá var með þessum l. ákveðið, að almennt fasteignamat skyldi fara fram á 25 ára fresti. En jafnframt var þá ákveðið í 1. gr. l., að heimilt væri, ef miklar verðbreyt. gerðust í landinu, að hækka fasteignamatið hlutfallslega á milli þess tíma, sem fasteignamat færi fram.

Nú er það svo, að þetta frv., sem hér liggur fyrir og lagt er fram að tilhlutun hæstv. fjmrh., er ákaflega undarlegt frv., því að það er tekið fram í því, að þetta sé endurskoðun á fasteignamatinu og sé í rauninni ekki nýtt fasteignamat, og samkv. 4. gr. þessa frv., að hið nýja, endurskoðaða fasteignamat skuli vera byggt á gamla fasteignamatinu. Nú er það augljóst, að hér rekur sig hvað á annars horn, vegna þess að í þessu máli er í raun og veru ekki um nema tvennt að ræða, sem getur komið til greina: annaðhvort nýtt og fullkomið fasteignamat eða að það sé hækkað hlutfallslega frá því, sem hið gildandi fasteignamat er, eins og fullkomlega er gert ráð fyrir í l. frá 1945. Hæstv. fjmrh. var að klóra í bakkann um það við 1. umr., að þetta bæri að skilja svo, að þetta ætti að vera nýtt fasteignamat, en byggt að því leyti til á gamla fasteignamatinu, að lýsingu á jörðum o. s. frv. skyldi ekki verða breytt. Nú er gefið, að ef nýtt fasteignamat á að fara fram, eins og sýnilega er gert ráð fyrir samkv. þessu frv., þá er eðlilegt að breyta lýsingum á jörðum í samræmi við breytingar, sem á þeim hafa orðið síðan fasteignamat átti sér stað, því að það er kunnugt, að á flestum jörðum í okkar landi hefur orðið mikil breyting síðan 1942, og sú breyting hefur orðið fyrst og fremst fyrir auknar jarðabætur, fyrir nýjar girðingar, sem að vísu má líka telja jarðabætur, fyrir íbúðarhúsabyggingar, peningshús, votheys- og þurrheysgeymslur o. s. frv. Nú er það skoðun mín, að það sé algerlega óþarft að fara inn á Þá braut, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að stofna til nýs fasteignamats, heldur sé hægt á mjög einfaldan hátt að breyta mati á fasteignum frá því, sem hefur verið reiknað með undanfarin ár, því að í sjálfu sér er hér fyrst og fremst miðað við það, hvaða skattgrundvöllur fasteigna skuli vera á hverjum stað. Þar er ekki einasta um að ræða fasteignaskatt, sem er tiltölulega lágur skattur, heldur er þar um að ræða eignarskatt og afls konar fasteignagjöld, bæði í sveit og bæ. Í sveitum eru almennustu fasteignagjöldin vegagjöld og, þar sem einkasímar eru, símagjöld, sem miðuð eru við verðgildi fasteigna. Í bæjum eru þetta aftur á móti miklu fleiri gjöld, sem lögð eru á eftir mati fasteigna. Það eru vatnsskattur, rafmagnsgjöld, hitagjöld og margt og margt fyrir margvíslegar framkvæmdir, sem gerðar eru og gerðar hafa verið í bæjum landsins. Eftir því sem fasteignamatið er hærra, eftir því verða allir þessir skattar og öll þessi gjöld sjálfkrafa hærri.

Nú skal ég í framhaldi af þessu fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég flyt hér fram og eru í sjálfu sér umturnun á þessu frv., þannig að það sé ekki um að ræða neitt nýtt fasteignamat, heldur er ætlunin að taka inn í það um leið allar umbætur, sem gerðar hafa verið síðan fasteignamat fór fram.

1. gr. ætlast ég til að verði á þá leið, að notuð sé sú heimild, sem er í 1. gr. l. nr. 70 frá 12. apríl 1945, um það að hækka skattmat á fasteignum frá því, sem nú er, í stað þess að samkv. 1. gr. frv. segir, að það skuli endurskoða fasteignamatið. Það er sagt, að á árinu 1952 skuli fara fram endurskoðun fasteignamatsins 1942 í því skyni að samræma það þeim verðlagsbreytingum, sem orðið hafa síðan fasteignamat fór fram. Ég vil segja, að þetta sé nokkuð teygjanlega orðað, að samræma það verðlagsbreytingunum. Í mörgu falli mundi það vera mjög margfalt frá því, sem nú er, ef ætti að samræma það öllum þeim verðlagsbreytingum, sem orðið hafa síðan 1942. Þá ætti sem sagt að færa fasteignamatið í sama horf og á sér stað nú með meginhlutann af þeirri fjármálalegu spilaborg, sem hrúgazt hefur upp undanfarin ár í okkar landi og á rætur sínar að rekja til margra hluta, en fyrst og fremst til vísitölulaganna og þeirrar skrúfu, sem þau settu af stað, og um leið á það líka rót sína að rekja til verzlunarhafta, sem hafa frá upphafi orðið til þess að stórhækka alla vöru, sem aðflutt er í okkar landi. Ef það er virkilega ætlun þeirra manna, sem standa að þessu frv., að fara að setja allt fasteignamat í landinu í samræmi við verðlag á aðfluttri vöru. peningum og öðru, sem nú gengur kaupum og sölum og er orðið í margföldu verði við það, sem var 1942, þá er komið út í hreinar ógöngur fra mínu sjónarmiði, því að það yrði þá til þess um leið, ef ekki er önnur breyt. gerð, að margfalda á sama hátt alla skatta, sem á jarðeignum hvíla, og miða beinlínis að því að rúinera þá menn í landinu, sem eiga eitthvað til eftir það ástand, sem verið hefur að skapast undanfarin ár. Nú lít ég svo á, að sú fjármálalega spilaborg, sem hér hefur hrúgazt upp með sköttum, ofstopalegum ríkisgjöldum, ríkisafskiptum og öllum þeim verðhækkunum, sem orðið hafa, hljóti fyrr eða síðar að hrynja saman, og þá álít ég það mjög öfugt að vera búið að flana að því að setja mat á öllum fasteignum í landinu í samræmi við þetta eins og það nú er komið. Þess vegna er það mjög fjarri mínum skoðunum, að þessi 1. gr., eins og hún er orðuð í frv.. eigi nokkurn rétt á sér, ef ætti að framkvæma hana eins og hún er þar orðuð.

2. gr. vil ég orða á þá leið, að það sé fjmrn., með aðstoð yfirskattanefnda, sem sjái um það að breyta fasteignamatinu og annast um útreikninga og skýrslur, sem nauðsynlegt er til þess að sú breyt., sem gert er ráð fyrir samkvæmt mínum till. um fasteignamatið, komist í framkvæmd. Ég tel það alveg óþarft að fara að setja á fót nýja stofnun í þessu sambandi, og það er vegna þess, að ég ætlast ekki til, að þarna fari fram neitt mat, heldur útreikningar eftir föstum reglum; það sé eðlilegt, að það séu þau stjórnarvöld, sem við höfum til, sem annist það. Auðvitað geri ég ráð fyrir því, að fjmrn. setji í það eitthvað af sínum fulltrúum að hafa yfirstjórn á þessu, e. t. v. þyrfti að fá einhverja nýja starfsmenn til að annast þessa útreikninga, og á sama hátt ættu yfirskattanefndir í bæjum og héruðum landsins að hafa stjórn á því, að þessir útreikningar fari fram á eðlilegan hátt. Og þá geri ég ráð fyrir, að þessi stjórnarvöld, yfirskattanefndirnar, hafi sér til aðstoðar till. og skýrslusafnanir frá undirskattanefndum, því að þessi stjórnarvöld eru kunnug þessum málum, og eftir því, sem þurfa þætti, yrðu yfirskattanefndirnar að sjálfsögðu að fá sér þá aðstoðarmenn, sem þeim þætti nauðsynlegt, til að semja þær skýrslur, sem hér koma til greina.

3. gr. frv., sem er um það að skipa þriggja manna yfirmatsnefnd, legg ég til að falli niður, því að hún er óþörf, í samræmi við það, sem ég hef hér sagt um þá breyt., sem hér á að koma til greina.

4. gr. frv., sem yrði eftir mínum till. 3. gr., er nokkuð breytt, en þó tekið upp talsvert úr henni, og ætlast ég til, að þar sé það ákveðið, að til viðbótar gildandi fasteignamati séu teknar allar ræktunarframkvæmdir og aðrar meiri háttar umbætur, sem gerðar hafa verið síðan matið fór fram, einnig hús og mannvirki, sem reist hafa verið frá því 1942, en kunna að hafa fallið undan aukafasteignamati, því að eins og kunnugt er, þá á aukafasteignamat að fara fram árlega á þeim meiri háttar umbótum, sem orðið hafa, og þar sem skattanefndir fylgja sinni skyldu um það að stjórna þessu, þá er þetta gert. En ég get vel hugsað mér það, að einhverjar skattanefndir í landinu hafi vanrækt það, og annað það, að ef þetta aukafasteignamat hefur farið fram á húsum, þá verður við þessa athugun að leggja áherzlu á, að þau mannvirki, sem fallið hafa undan aukafasteignamati, komi inn eins og allar ræktunarframkvæmdir og aðrar meiri háttar umbætur, sem gerðar hafa verið í sambandi við hverja fasteign, á jörð og við hús. Nú ætlast ég til, að það sé reiknað út alveg á sama hátt og gert var þegar síðasta fasteignamat fór fram og því bætt við verðgildi fasteigna eins og hús eru nú, samkvæmt gildandi fasteignamati.

Þá er það 5. gr., sem ég einnig umorða og legg til að verði 4. gr., og hún er í raun og veru það atriði, sem mestar deilur gætu orðið um í sambandi við þetta mál, einkum og sérstaklega í sambandi við mínar till., þrátt fyrir það að þm. vildu ganga inn á þær að öðru leyti. Og þessi gr. fjallar um það, að allt fasteignamat, þegar búið er að taka umbæturnar inn í og reikna þær út, verði tvöfaldað, — bætt við það 100%, og það sé gert yfir landið allt með þeim undantekningum, sem greindar eru í næstu gr. á eftir. Mönnum þykir sjálfsagt, þeim sem eru sólgnastir í að hækka fasteignamatið sem mest, að þetta sé ákaflega lágt í farið, að fara ekki fram á annað en það að tvöfalda matið frá því, sem það er, þegar búið er að taka umbæturnar inn í. Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 2. þm. Skagf. brtt. í sömu átt og þetta er, og fórum við þá fram á, að fasteignamatið væri almennt tvöfaldað, en þó þrefaldað í þremur stærstu bæjunum. Nú, þegar ég hef athugað þetta nánar og rætt við ýmsa menn um þá hluti, þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að það gætu orðið allverulegir árekstrar á milli ef það ætti að fara að gilda önnur regla í þeim, þannig að það væru aðeins teknir þessir þrír stærstu bæir. Og sannleikurinn er sá, að skattar t. d. í þessum þremur bæjum, skattar og fasteignagjöld, sem hvíla á fasteignum, þeir eru svo margir og svo háir, að ég held, að það yrði fasteignaeigendum kaupstaðanna nægilega erfitt, að þetta væri tvöfaldað frá því, sem nú er. Við skulum segja, að samkvæmt upplýsingum frá borgarstjóranum í Reykjavík, þá er vatnsskatturinn hér í Reykjavík 2 millj. Ef fasteignamatið er tvöfaldað, mundi hann fara upp í 4 millj., og ef það er tífaldað, eins og sumir vilja gera, þá yrði vatnsskatturinn 20 milljónir. Það er gefinn hlutur, að um leið og skatturinn væri svona stórkostlega hækkaður á öllum húsum og öðrum fasteignum í bænum, hlyti húsaleiga um leið að verða að hækka stórkostlega frá því, sem nú er og þykir þó öllum almenningi hér í Reykjavík og víða annars staðar í bæjum húsaleiga nægilega há, þó að hún hækkaði ekki vegna þess, að stórhækkaðir væru allir skattar, sem á fasteignum hvíla. Ég hef þess vegna við nánari umhugsun fullizt á, að það skuli vera aðalreglan, sem gildi í þessum efnum, að tvöfalda fasteignamatið frá því, sem nú er, og eins umbætur, þegar búið er að reikna þær út á sama grundvelli og gert var við fasteignamatið 1942.

En þá kem ég að þeim undantekningum, sem ég vil hafa frá þessari reglu, og tel ég mjög eðlilegt, að frá henni séu undantekningar um afskekktar jarðir. Það eru í fyrsta lagi jarðir, sem eru í eyði, afréttarlönd og hús, sem hætt er að nota, og lóðir, sem þeim fylgja. Ég tel ekki einasta eyðijarðir, heldur líka eyðihús, vegna þess að dæmi eru til þess á nokkrum afskekktum stöðum í landinu, að hús hafi farið í eyði. Ég man eftir einum stað sérstaklega, þar sem heilt smáþorp er svo að segja alveg komið í eyði, þ. e. Hesteyri, og að svo miklu leyti sem þetta á sér stað annars staðar, vil ég láta þessa reglu gilda, að eyðijarðir og eyðihús séu ekki hækkuð neitt. — Í öðru lagi legg ég til, að yfirskattanefndir geti að fengnum till. undirskattanefnda ákveðið, að jarðir, sem eru illa settar með samgöngur eftir þær samgöngubætur, sem orðið hafa undanfarin ár, séu undanþegnar hækkuninni að hálfu eða öllu leyti. Þetta þýðir, að almennasta reglan í sveitum landsins yrði sú, að matið yrði tvöfaldað, en svo yrði heimilt fyrir yfirskattanefndir í samráði við undirskattanefndir að flokka afskekktar jarðir í annan flokk, enda þótt þær séu í byggð. Í öðrum flokknum eru jarðir, sem hækka ekki neitt. en í hinum jarðir, sem heimilt er að hækka um 50%, eða helmingi minna en aðalreglan á að vera. Enn fremur tek ég fram í þessari gr., að ef fjmrn. telur einhverja yfirskattanefnd nota þessa undantekningarheimild óeðlilega mikið, þá hafi það rétt til þess að gera þar aths. við, en þó skal breyt. áður hafa verið borin undir hlutaðeigandi yfirskattanefnd og leitað samkomulags við hana.

7. gr., sem ég ætlast til að verði 6. gr., er um það, að Búnaðarfélagi Íslands sé skylt að gefa hverri yfirskattanefnd skýrslu um allar framkvæmdir, sem teknar hafa verið út og styrks hafa notið frá árslokum 1942 til ársloka 1951. Ég tiltek þau áramót vegna þess að ég tel, að það sé ekki svo mikið verk að gefa þessar skýrslur og reikninga, sem hér er farið fram á, að það eigi ekki að vera hægt að gera það á tiltölulega stuttum tíma af þeim stjórnarvöldum, sem hér eiga hlut að máli. Á sama hátt er öllum undirskattanefndum skylt að láta yfirskattanefndum í té allar þær upplýsingar varðandi matið, sem þær geta, og aðstoða þær á allan hátt. — Í samræmi við þetta legg ég svo til, að 8.–9. gr. frv. falli niður, því að það leiðir af sjálfu sér, í samræmi við þær till., sem ég hef hér lagt fram, að þessar gr. eru báðar óþarfar.

Við 10. gr., sem verður 7. gr., legg ég til að komi sú breyt., að þegar fjmrn. hefur lokið þessari endurskoðun eða breyt. á matinu, þá skuli gerð sundurliðuð skrá um matsverð allra fasteigna í landinu og gefnar út bækur um það, sem séu sendar öllum sýslumönnum, bæjarfógetum, lögreglustjórum, bæjarstjórum, hreppstjórum, oddvitum og skattstjórum. Þá legg ég að sjálfsögðu til, að yfirskattanefndir og undirskattanefndir fái greiðslu fyrir sín störf og sinna hjálparmanna til þess að ljúka þessum skýrslum og reikningum og endurskoðun og ríkissjóður borgi þetta. Ég ætlast ekki til, eins og segir í frv., að það sé tekið af fasteignaskattinum, sem lagt er til samkvæmt frv. að bæjar- og sveitarfélögin fái. Ef ætti að taka það af fasteignaskattinum, þá má í rauninni segja, að matskostnaðurinn sé allur lagður á bæjar- og sveitarfélögin. Varðandi alla þá fyrirhöfn og tilkostnað, sem fjmrn. þarf að hafa samkvæmt þessum till. vegna þessarar breyt., þá er auðvitað sjálfsagt að telja það sem kostnað við það rn., og þarf ekki neina sérstaka ákvörðun þar um.

Þá er að síðustu brtt. við 12. gr. Hún fjallar um það, að þegar þessi hækkun á fasteignamatinu gengur í gildi, þá skuli fasteignaskatturinn renna til bæjarfélaga og sýslufélaga, í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að þetta renni til bæjar- og sveitarfélaga. Mér finnst miklu eðlilegra, að skatturinn renni til sýslufélaga; það kemur að vísu í sama stað niður, vegna þess að það kemur þá til lækkunar á sýslusjóðsgjöldum frá viðkomandi sveit, og sýslusjóðsgjöldin eru, eins og kunnugt er, að miklu leyti reiknuð út eftir matsverði fasteigna í hverri sveit.

Þá er í síðasta lagi, að fyrirsögn frv. verði sú, að þetta heiti frv. til l. um hækkun á skattmati fasteigna. — Ég sé, að hér í hv. d. eru fáir af þm. viðstaddir, enda bráðum komið miðnætti, og eru umr. um þetta mál því ekki svo mjög þýðingarmiklar til þess að ná eyrum þm., um því að þetta stórmál er tekið fyrir svona um miðja nótt. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara um þetta að svo stöddu fleiri orðum, en vænti þess, að þeir hv. þm., sem hér eru viðstaddir, sjái það og skilji, að hér er stungið upp á miklu einfaldari og eðlilegri leið til þess að framkvæma þetta verk, og það án tillits til þess, hvort þeir eru að öðru leyti ánægðir með þessa uppástungu, sem er að nokkru leyti meginmál þessara till., að tvöfalda matið, en fara ekki í hærri tölur. Og þá gætu þeir að sjálfsögðu gert brtt., sem fara svo langt út í þessa hluti, að þeir vilji hækka matið miklu meir en sem því nemur.