27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Pétur Ottesen:

Ég hafði kvatt mér hljóðs, er málinu var frestað í fyrradag.

Ég minntist á nokkur atriði þessa frv. við 1. umr. og m. a. það ákvæði þess, sem vafi getur leikið á, hvort er heppilegt eða hyggilegt, þ. e. a. s. að láta síðustu ákvörðun um hámark fasteignamatsins hvíla á herðum yfirmatsn., sem frv. gerir ráð fyrir að gangi endanlega frá matinu. Í þessu sambandi bar ég fram fsp. til hæstv. fjmrh. varðandi ákvörðunarrétt yfirmatsn. Hæstv. fjmrh. var ekki við því búinn að gefa svör um þetta efni, en aftur á móti hefur hv. frsm. fjhn., hv. þm. V-Húnv., gefið þau svör við þessu, að orðalagið um ákvörðunarrétt yfirmatsn. sé það sama og nú er í gildandi lögum og var þegar síðast var gengið frá fasteignamatinu. Þetta hafði ég raunar kynnt mér og vissi, að svo var, en það fullnægði ekki þeirri aths., sem ég vildi gera.

Það stendur svo á, að nú er allt mjög á hverfanda hveli, örar breytingar á verðmætum í landinu og verðgildi peninganna sízt stöðugt. Það er því meiri ástæða en áður að gjalda hér varhuga við. Þó að áður hafi ekki verið ástæða til að kveða fastar á um þetta, þá er nú þannig komið, að full ástæða er til þess að reisa hér nokkrar skorður. Ég á þá við, að tekið sé fram í frv., hve miklu margföldunin á verðgildi fasteignanna má í hæsta lagi nema. Ég geri ráð fyrir því, að fram komi brtt. nú eða við 3. umr., þar sem leitazt verður við að koma þessari hugsun á framfæri innan þeirra takmarka, er ég tel skynsamlegt að setja um þetta. — Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta út af fyrir sig.

Ég er fylgjandi þeirri athugun á fasteignamatinu, sem gert er ráð fyrir í frv., og einmitt á þeim grundvelli, sem lagður er í frv. Ég tel undir öllum kringumstæðum heppilegra og tryggara að láta matsnefndir í héruðunum leggja grundvöll að matinu en að fela það eingöngu fjmrn. eða yfirmatsn. Þar sem viðkomandi sýslun. á að ráða vali tveggja manna í n., leiðir það af sjálfu sér, að þessu verður hagað á þann hátt, að fram komi sá nauðsynlegi kunnugleiki, sem þarf til þess að koma á þetta traustri skipan. Yfirleitt hafa till. héraðsn. staðizt vel; þó að nokkurs ósamræmis gæti, er það þó minna en búast hefði mátt við, grundvöllurinn er ekki óhyggilega lagður og næst því, sem raunverulegt er í því efni.

Það leiðir af sjálfu sér, að ég get ekki tjáð till. hv. þm. A-Húnv. mitt samþykki, þar sem þar er gert ráð fyrir að kippa því burt, sem ég tel öruggastan grundvöll undir matið, þ. e. a. s., að frumákvörðunin í þessu efni sé falin nefndum heima í héraði. Þau áhrif, sem gert er ráð fyrir í till. hv. þm. A-Húnv. að yfir- og undirskattan. heima í héraði hafi, beinast að því, að þær gefi upplýsingar, en hafi engan úrslitarétt til að leggja grundvöll að matinu. Allur endanlegur frágangur á því hvílir á herðum fjmrn. í Reykjavík. Og þó er raunverulega ekki gert ráð fyrir því í þessum till., að nýtt mat fari fram nema á þeim mannvirkjum, sem orðið hafa til frá því að síðasta mat fór fram, að því leyti sem verðmætisaukningin hefur ekki komið fram í millimati. Það ætti því að vera öruggara, að sú athugun færi fram af þar til kvöddum mönnum heima í héraði, sem í mörgum tilfellum verða sömu mennirnir og unnið hafa að matinu áður, heldur en fjmrn. hafi þetta með höndum og framkvæmi það á grundvelli þeim, sem byggt var á við síðasta fasteignamat.

Ég hygg ekki heldur, að fasteignamatið verði kostnaðarminna með því fyrirkomulagi, sem felst í till. hv. þm. A-Húnv., því að þótt fjmrn. annist þetta verk, þá er gert ráð fyrir því, að greiða verði fyrir það sérstaklega, og eftir því sem maður þekkir til, þá eru litlar líkur til annars en að leggja verði því til nýja starfskrafta. Það er því ekki sennilegt, að það verði ódýrara en að skipa þriggja manna yfirmatsn. til þess að hafa þetta með höndum.

Hitt er ekki heldur líklegt, að það hafi sparnað í för með sér að fela þetta tveimur aðilum í héraði, yfir- og undirskattanefndum, í stað þess að fela það einum aðila, sem sé þremur mönnum, sem samkv. frv. eiga að hafa þetta með höndum í hverjum kaupstað og sýslu. Ég tel líka betur séð fyrir öryggi um framkvæmd matsins með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv., heldur en að því verði hagað á þann veg, sem lagt er til í till. hv. þm. A-Húnv.

Þá er það eitt atriði, sem ég vildi benda á í sambandi við þetta mál. Ég mundi telja það heppilegt, að því yrði komið svo fyrir um innheimtu þessa skatts, eftir að hann hefur fallið í skaut viðkomandi hrepps- og bæjarfélaga, að hann væri innheimtur af sýslumönnum á manntalsþingum í sýslunum. Hitt leiðir af sjálfu sér, að eðlilegt er, að bæjarfélögin hafi þetta með höndum. Það er enginn vafi á því, að hagkvæmt er að láta sýslumenn innheimta þetta gjald; það mundi í flestum tilfellum ganga til sýsluvegasjóðs eða sýslusjóðs eða hvors tveggja og því eðlilegt, að sá háttur sé hafður á.

Ég sé, að verið er að útbýta brtt. þeirri, sem ég minntist á, og hv. 2. þm. Skagf. mun þá gera grein fyrir henni við þessa umr., úr því að hún hefur verið lögð fram.

Ég tel, að þetta mál eigi að fá afgreiðslu nú á þessu þingi á þeim grundvelli, sem byggt er á í. frv., að viðbættu því meginákvæði, að sett verði inn í það hámarksákvæði um það, hvað margfalda megi núverandi fasteignamat mikið. Það er að vísu líka lagt til í till. hv. þm. A-Húnv., og það er réttmætt, svo langt sem það nær, en ég tel, að þau ákvæði þurfi að vera rýmri en gert er ráð fyrir í till. hans. og í þeirri brtt. sem nú var verið að útbýta hér, er leitazt við að haga því svo.

Það virðist eðlilegt, að nú fari fram nýtt fasteignamat samkv. þessu frv. með þeirri breyt.. sem ég hef talað um, að bætt verði inn í það. Ég tel, að ef brtt. á þskj. 355 kæmust inn, þá ætti þetta þing vissulega ekki að láta undir höfuð leggjast að samþ. málið, svo að farið væri að sinna því eftir áramótin.

Það má ef til vill segja, að sá tími, sem starf héraðsnefnda hefur verið takmarkaður við, sé of naumur og þurfi því að rýmka hann. Má athuga það atriði, áður en málið er afgr. í þessari deild.