22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

10. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er orðið alllangt síðan heilbr.- og félmn. afgr. þetta mál frá sér. Ég lagði til í n., eins og gert er á þskj. 404, að þetta þing afgr. atvinnuleysismálin með því að samþ. till., sem lengi hefur legið fyrir þinginu, á þskj. 14, um atvinnuleysistryggingar, flutta af hv. 4. þm. Reykv. Þegar n. hafði mál þetta til meðferðar, var augljóst, að tími ynnist ekki til þess að afgr. þetta frv. Hins vegar gat þá verið von til þess, að hægt væri að afgr. þáltill., sökum þess að um hana þurfti aðeins tvær umr. Gerði ég því að till. minni í n., að sú till. næði fram að ganga og n., sem þar er gert ráð fyrir, gæti lokið störfum fyrir næsta þing, þannig að málið væri rækilega undirbúið í upphafi næsta þings. Nú er það hins vegar orðið ljóst, að allshn. sameinaðs þings er búin að skila áliti um þessa þáltill. og leggur til, að henni verði vísað til ríkisstj., svo að segja má, að örlög hennar séu þegar ráðin, og er þá nokkuð breytt viðhorf frá því, sem var, þegar félmn. afgr. málið frá sér fyrir miðjan des.

Ég álít, að með engu móti megi dragast að setja löggjöf um atvinnuleysistryggingar. Það er að vísu ein frumstæðasta og helgasta skylda sérhvers þjóðfélags, að enginn maður gangi atvinnulaus, heldur hafi skilyrði til þess að sjá sér og sinum farborða. En þegar svo fer, að ríkisvaldið bregzt skyldu sinni um að sjá öllum mönnum fyrir lífvænlegri atvinnu, verður til þess að grípa, að þjóðfélagsþegnarnir í heild taki á sig þá byrði að sjá hinum atvinnulausu sómasamlega fyrir tekjum.

Það er gamalt og nýtt stefnumál Alþfl., að atvinnuleysistryggingar komist á á Íslandi. Þegar sett var löggjöfin um almannatryggingar 1946, var jafnframt ráð fyrir því gert, að komið yrði á fót atvinnustofnun ríkisins, sem hafa skyldi ýmis verkefni, m. a. atvinnuleysistryggingar. Úr því varð þó ekki, að þeirri stofnun yrði komið á fót og atvinnuleysistryggingar upp teknar, enda mátti segja, að á þeim tíma væri ekki jafnbrýn nauðsyn til þess eins og nú, þar sem þá, 1946, var ekki um að ræða neitt atvinnuleysi í landinu. Síðan hafa tímarnir breytzt svo, einkum eftir að núverandi ríkisstj. tók við völdum og þó alveg sérstaklega á því ári, sem nú er nýliðið, að atvinnuleysi hefur ekki aðeins gert vart við sig, heldur kveður mjög mikið að því til mikillar óhamingju fyrir fjölda manna í landinu. Þegar svo er komið, fær krafan um atvinnuleysistryggingar nýtt afl, og þegar svo er komið, hlýtur nauðsyn slíkra trygginga að verða ómótmælanleg. Í þessu sambandi er þó þess að geta, að nokkur skoðanamunur hefur verið meðal tryggingafróðra manna um það, hvernig þessum tryggingum skuli skipað. Einkum virðist um tvær leiðir að velja. Annars vegar þá leið, sem hv. flm. gerði grein fyrir, að verkalýðsfélögin hafi einkum með framkvæmd atvinnuleysismálanna að gera, og hins vegar, að þetta sé í höndum einnar stofnunar fyrir allt landið, t. d. atvinnustofnunar ríkisins, eins og gert var ráð fyrir í till. 1946. Ég tel, að enn sem komið er hafi ekki farið fram nægileg rannsókn á því, hvort skipulagið er heppilegra, en frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir hinu fyrra. Málið er hins vegar svo mikið nauðsynjamál, að ég tel, að dellur um, hvort fyrirkomulagið er heppilegra, megi ekki, eins og nú er komið, verða til þess að tefja framgang þessa stórmáls, sem hér er um að ræða. M. a. þess vegna hef ég lagt til, að þáltill. á þskj. 14 verði samþ., þar sem það var augljóst, að frv. á þskj. 10 mundi ekki vera hægt að koma í gegnum þingið. Nú, þegar örlög þeirrar till. virðast einnig vera ráðin, þá vil ég lýsa fylgi mínu við atvinnuleysistryggingamálið sjálft og undirstrika nauðsyn atvinnuleysistrygginga með því að fylgja þessu frv. til 3. umr. Ef málið kemur til 3. umr., mun ég bera fram við það brtt. um ýmis atriði, en málið sjálft mundi ég taka til athugunar og hvort heppilegra væri að taka upp aðra stefnu en fylgt er í þessu frv.