06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ræddi ýtarlega um þetta mál við 2. umr, málsins, og ég hef ekki löngun til að tefja þessar umræður eða störf þingsins, en þó get ég ekki stillt mig um að taka til máls út af ummælum hv. þm. A- Húnv. Ég veit, að þingmenn skilja, að í brtt. hans er farið fram á lækkun á launum opinberra starfsmanna. Ég hef ekki haft tíma til að reikna út, hve miklu þessi lækkun nemur, en ég staðhæfi, að hér er um mjög verulega launaskerðingu að ræða. Hún nemur ef til vill nokkrum hundruðum króna á mánuði hjá þeim, sem hæstar tekjur hafa. Það mátti vissulega ýmislegt finna að málflutningi hv. þm. A-Húnv. En eitt met ég, og það er sú hreinskilni, sem fram kemur hjá þessum hv. þm., er hann heldur því fram, að lækka beri laun allra opinberra starfsmanna. Hv. þm. hefur sýnt opinberum starfsmönnum inn fyrir dyrnar hjá íhaldinu. Og það er ekki falleg sjón, sem við blasir! Kröfuspjald um allsherjar launalækkun hjá opinberum starfsmönnum. Þegar mikilsvirtur þm. Sjálfstfl. heldur slíku fram, getur varla verið, að skoðunin sé alveg fylgislaus í Sjálfstfl.

Það er misskilningur hjá hv. þm. A-Húnv., að hér sé verið að setja vísitöluskrúfuna í gang. Það var gert með gengisbreytingarlögunum. En þegar verkalýðsfélögin fengu inn í sína samninga ákvæði um launagreiðslur í samræmi við vísitöluhækkun, var óhjákvæmilegt annað en opinberir starfsmenn fengju einnig hækkun í samræmi við hækkandi vísitölu. Þetta sá meira að segja núverandi ríkisstj. og gaf því út þessi brbl., en ýmsa af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. virðist hafa skort skilning á þessu, og því skeður það nú, sem ég held að sé einsdæmi í þingsögunni, að minnsta kosti hefur það ekki komið fyrir síðan ég kom á þing, að andstæðingar ríkisstj. hafa orðið að verja gerðir hennar fyrir árásum frá stuðningsmönnum hennar.