23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

8. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Gylfi Þ. Gíslason, hv. 3. landsk., sagði hér áðan, að Alþfl. vildi frjálsa verzlun. Þetta er hin mesta fjarstæða, eins og ummæli formanns Alþfl. bera með sér í Alþýðublaðinu 25. f. m., en þar segir hann orðrétt: „Alþýðuflokkurinn krefst skipulagsbundins innflutnings“. Þetta sannar, að Alþfl. er enn þá flokkur hafta og skriffinnsku.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, hafði þjóðin búið við verzlunarhöft í nær tvo áratugi. Oft var mikill vöruskortur á þessum tímum og skömmtun á flestum nauðsynjum. Í skjóli haftanna og vöruskortsins þróaðist margs konar spilling, bakdyrasala, svartur markaður og brask. Er alkunnugt, að sú starfsemi náði hámarki á valdatíma Alþfl., enda verðlagseftirlit og hvers konar höft víðtækust á þeim tíma: Braskið og svarti markaðurinn, sem þreifst í skjóli vöruskortsins og haftanna, hafði siðspillandi og lamandi áhrif á heilbrigða atvinnuháttu. Dýrtíðin var raunverulega meiri en viðurkennt var, þar sem fólk neyddist oft til að kaupa vörur á hærra verði en viðurkennt var opinberlega. Verðlagseftirlitið réð ekki við þessa þróun.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, lagði Sjálfstfl. áherzlu á, að vöruskortinum, höftunum, braskinu og svarta markaðinum væri útrýmt. Eina leiðin til þess var að fylgja stefnu Sjálfstfl., sem mörkuð var fyrir kosningarnar 1949 og minnihlutastjórn Sjálfstfl. undirbjó í ársbyrjun 1950, en það var að leysa verzlunina úr viðjum og gera hana frjálsa. Gera varð ráðstafanir til þess að seðja vöruhungrið og safna birgðum, þannig að nægilegt vörumagn væri fyrirliggjandi í verzlununum. Á þann hátt var fólkinu gefið tækifæri til þess að velja á milli góðrar vöru og lélegrar, á milli dýrra vara og ódýrra. Með þessu móti skapast sú samkeppni í verði og vörugæðum, sem tryggir neytandann. Með því móti er unnt að vinna gegn dýrtíð og okri. Þegar nægilegt vörumagn er til í landinu, velur neytandinn það bezta og ódýrasta. Kaupsýslumaðurinn fær á sig það aðhald, sem hann kemst ekki hjá að taka tillit til.

Fyrstu mánuðina eftir að verzlunin var gefin frjáls, meðan enn var vöruþurrð, misnotuðu nokkrir innflytjendur þann trúnað og frelsi, sem þeim var veitt. Það er slæmt, að nokkrir skyldu falla fyrir freistingunni og spilla á þann hátt áliti verzlunarstéttarinnar. Þessir menn munu fá makleg málagjöld fyrir framferði sitt. Ekki er ólíklegt, að smásalinn, kaupmaðurinn og kaupfélagsstjórinn hafi hugmynd um, hverjir þessir menn eru. Smásalinn mun vera á verði fyrir slíkri starfsemi og gera samanburð á verði varanna, er hann kaupir vörur fyrir verzlun sína. Sá innflytjandi, sem ekki býður hagstætt verð, mun einangrast og tapa öllum viðskiptum. Er það vissulega makleg refsing. Neytandinn nær ekki til innflytjandans nema að nokkru leyti, því að smásalinn, hvort sem um kaupmannsverzlun eða kaupfélag er að ræða, er ekki innflytjandi nema að nokkru leyti. En neytandinn nær til smásalanna og getur gert samanburð á vöruverðinu í verzlununum og látið þann sitja fyrir viðskiptunum, sem selur ódýrastar og beztar vörurnar. Duglegur kaupsýslumaður vill láta fyrirtæki sitt þéna peninga, en til þess þarf hann að hafa fólkið með sér, hann vill hafa stóran hóp ánægðra viðskiptavina. Hann veit, að hann getur það ekki nema að vanda sig í vörugæðum og vöruverði, eftir að samkeppni hefur skapazt og almenningur hefur úr nægilegu vörumagni að velja. Þegar vöruval er komið í stað vöruskorts, er valdið komið í hendur neytandans um það, hvaða verzlun getur þrifizt. Það vald er áhrifaríkast og gerir verðlagsnefndir og launað verðlagseftirlit óþarft. Okrararnir munu því ekki þrífast. Þótt ekki sé nema stuttur tími síðan skorið var á höftin, er þegar kominn í ljós nokkur árangur af auknu frelsi. Algert atvinnuleysi er nú hjá þeim, sem stunduðu svartan markað í stjórnartíð Stefáns Jóhanns. Biðraðirnar eru horfnar. Skömmtunin hefur verið afnumin að mestu, og vöruskortinum hefur verið útrýmt. Húsmóðirin getur nú gengið í búðina og keypt efni í föt á börnin. Ef hún getur saumað sjálf úr þessu efni, sparar hún heimilinu stórar fjárhæðir, miðað við það, sem áður var, þegar allt varð að kaupa tilbúið í búðinni.

En þótt verzlunin hafi verið bætt og kostir frjálsrar verzlunar muni koma betur í ljós, þegar frá líður og neytandinn hefur á áhrifameiri hátt lært að notfæra sér það vald, sem vöruval og frjáls verzlun veitir, þá er það staðreynd, eins og nú er háttað, að vöruverðið er hátt og dýrtíðin áhyggjuefni allra hugsandi manna.

Stjórnarandstæðingar gefa það í skyn, að dýrtíðin sé að mestu leyti heimatilbúin vara, — að hið háa vöruverð sé vegna þess, að strangt verðlagseftirlit er ekki lengur á öllum vörum. Það ætti að vera tilgangslaust að reyna að blekkja alþjóð með slíkum staðleysum. Dýrtíðin er ekki einkamál okkar Íslendinga. Dýrtíðin er vandamál í hinum lýðfrjálsa heimi, þar sem samningsfrelsi ríkir á milli stéttanna og verkalýð og alþýðu manna eru ekki skömmtuð kjörin eins og er í einræðisríkjunum. En af hverju kemur dýrtíð? Hún kemur af því, að þjóðirnar nota óeðlilega mikinn vinnukraft og hráefni vegna vígbúnaðar og styrjaldar. Hún kemur einnig af því, að fólk um heim allan, í hvaða stétt þjóðfélagsins sem er, gerir hærri og meiri kröfur til lífsins en það áður gerði. Það gera flestir kröfur til þess að fá hækkuð laun og meiri tekjur, og afleiðingin, þegar látið er undan kröfunum, verður einfaldlega hærra vöruverð og lækkað peningagildi. Það er ekkert undarlegt, þótt Íslendingar, sem svo mikil viðskipti hafa við aðrar þjóðir, fljóti með í þeim leik. Sannleikurinn er sá, að dýrtíðin á Íslandi hefur ekki aukizt öllu meira en hjá ýmsum lýðræðisþjóðum heimsins. Því til sönnunar er hér skýrsla um hækkun dýrtíðar frá því í desember 1950 til júlí 1951.

Úr skýrslu, er sýnir aukningu framfærslukostnaðar í ýmsum löndum á tímabilinu desember 1950 til júlí 1951.

Austurríki ................ 11 stig

Belgía .................... 10 stig

Danmörk ................ 6 stig

Frakkland ................ 12 stig

Þýzkaland ................ 11 stig

Ísland .................... 14 stig

Ítalía .................... 8 stig

Holland .................. 9 stig

Noregur .................. 13 stig

Svíþjóð .................. 13 stig

Bretland ................ 8 stig

Bandaríkin .............. 4 stig

Kanada .................. 10 stig.

Á þessari skýrslu sést, að dýrtíðin á þessu tímabili hefur ekki vaxið öllu meira á Íslandi en víða annars staðar í lýðræðislöndum.

Það hefur oft heyrzt úr herbúðum Alþýðuflokksmanna og sósíalista, að dýrtíðin á Íslandi ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þess, hvað bændur settu hátt verð á vörur sínar. En samkvæmt skýrslu, sem fyrir liggur um það, hver var kaupmáttur launanna í des. 1947 til kaupa á innlendum framleiðsluvörum, og einnig 1. okt. 1951, þá verður samanburðurinn eins og hér segir (taflan sýnir, hversu margar mínútur verkamaðurinn þurfi að vinna fyrir ákveðnu magni vara):

Des. 1947 1. okt. 1951

mínútur mínútur

1. Kindakjöt 1 kíló ... ... 75 70

2. Nýr þorskur 1 kíló . . . . 7.2 7.7

3. Nýmjólk 1 lítri ...... 12.7 13.6

4. Smjör 1 kíló ... .. ..... 207.5 178

5. Smjörlíki 1 kíló ...... 29.5 26.2

6. Kartöflur 1 kíló ...... 82 9.8

7. Rúgbrauð stk. ........ 17.1 19.6

8. Kaffibætir 1 kíló .... 47.4 50

9. Franskbrauð stk. .... 10.9 12.6

10. Hangikjöt 1 kíló . .... . 112 100.5

Mínútur: 527.5 488.0

Meðaltal 53 mín. 1947 49 mín. 1951

Þetta eru hinar nauðsynlegustu matvörur almennings, sem að öllu eða verulegu leyti eru framleiddar í landinu.

Af þessum samanburði er augljóst, að bændur hafa tæplega hækkað framleiðslu sína í samræmi við kaupgjaldshækkunina. Má segja, að sá þegnskapur væri virðingarverður, ef hann væri að einhverju metinn og aðrir vildu taka sér slíkt til fyrirmyndar. En ég verð að segja, að bændur hafa ekki efni á slíku og þurfa eins og nú er komið málum, á sínu að halda til þess að geta haldið atvinnurekstrinum í réttu horfi.

Sú hækkun, sem orðið hefur erlendis á innfluttum vörum, hefur þrengt kjör fólks og veldur mestu um, hvað dýrtíðin er tilfinnanleg. En um slíkt tjáir ekki að sakast við íslenzk stjórnarvöld, þar sem ekki er unnt að hafa nein áhrif á verð varanna í upprunalandinu, en eins og áður er sagt, mun frjáls samkeppni og vöruval vera áhrifaríkasta tækið til þess að tryggja það, að almenningur fái vöruna á eins hagstæðu verði og unnt er.

Smáþjóð hlýtur alltaf að eiga í harðri baráttu fyrir tilveru sinni, fyrir efnalegu og andlegu sjálfstæði. Hún þarf að nota alla þá möguleika, sem fyrir hendi eru, til þess að skapa fólkinu eins góð lífsskilyrði og mögulegt er. Íslendingar eiga ýmis góð atvinnutæki, sem munu geta tryggt efnalega velmegun þjóðarinnar, ef þeim er skapaður hagkvæmur rekstrargrundvöllur. Að því verður að keppa að tryggja grundvöllinn undir atvinnulífinu, draga úr rekstrarkostnaðinum og auka framleiðsluna. Það getur ekki gengið til lengdar, að atvinnuvegirnir séu reknir með tapi og þess krafizt, að ríkissjóður greiði hallann. Eðlilegt er, að erfiðleikar steðji að íslenzkum atvinnuvegum um þessar mundir vegna stöðugt vaxandi dýrtíðar. En því nauðsynlegra er, að gagnkvæmur skilningur skapist milli atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda, þannig að grundvöllur fyrir heilbrigðum rekstri verði fenginn.

Iðnaðurinn er ein yngsta atvinnugrein Íslendinga og hefur sýnt lofsverða viðleitni til þess að skapa verðmæti fyrir þjóðarheildina. Verksmiðjur hafa verið stofnsettar undanfarin ár og framleiðsla þeirra oft staðizt samkeppni við erlendar iðnaðarvörur. Iðnaðurinn sparar gjaldeyri og skapar atvinnu í landinu. Hann á um þessar mundir, eins og flestar atvinnugreinar, við erfiðleika að stríða vegna fjárskorts, sem leiðir af sívaxandi dýrtíð. Eðlilegt er, að iðnaðurinn fái sína eigin lánastofnun, iðnaðarbanka. Byrjunarstofnfé hans gæti verið 3 millj. kr., sem ríkisstj. hefur lofað að láta iðnaðinum í té. Eigi iðnaðurinn að njóta sin, þarf innflutningur á nauðsynlegum hráefnum til hans að vera frjálsari en enn er orðið. Söluskatturinn kemur þungt niður á iðnaðinum, og væri æskilegt að afnema þann hluta skattsins, sem iðnaðinn snertir, sem og allan söluskatt í smásölu og létta þannig skattbyrðum af almenningi.

Það, sem hefur gert Íslendingum erfiðast í efnahagsbaráttunni og atvinnumálunum, er það, hve fábreytt framleiðsla þjóðarinnar hefur verið. Það er því nauðsynlegt, að atvinnugreinar þjóðarinnar og öll framleiðsla geti orðið fjölhæfari en verið hefur. Vonir standa til, að þetta geti fljótlega breytzt til batnaðar. Áburðarverksmiðjan er ekki langt undan. Þegar hún er fullgerð og framleiðir með fullum afköstum áburð, mun þjóðin flytja út áburð fyrir tugi millj. kr. og á þann hátt fá mikinn og óvæntan gjaldeyri. Vonandi dregst ekki lengi, að framkvæmdir geti byrjað á sementsverksmiðju. Þótt ekki sé gert ráð fyrir, að sement verði til útflutnings, mun framleiðsla sements í landinu spara erlendan gjaldeyri í stórum stíl og gera lífsafkomu þjóðarinnar öruggari. Það er ekki ólíklegt, að áburðar- og sementsverksmiðjan muni spara þjóðinni eða afla árlega gjaldeyris, sem nemi 50–60 millj. kr. Árið 1949, sem var gott aflaár, öfluðu 10 togarar erlends gjaldeyris fyrir 23 millj. kr. Sýnir þetta, að iðnaðarfyrirtæki þau, sem hér hafa verið nefnd, eru mjög þýðingarmikil í þjóðarbúskapnum og gefa nýjar vonir. En afkoma öll og framleiðsla atvinnuveganna veltur á því, að atvinnutækin verði rekin hallalaust. Það verður að temja sér þann hugsunarhátt, sem haldið hefur þjóðinni uppi gegnum þrengingar liðinna alda, að hver þegn þjóðfélagsins geri meiri kröfur til sjálfs sín en annarra. Mun þjóðinni þá takast að sigrast á aðsteðjandi erfiðleikum.