23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

108. mál, útsvör

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, vildi ég aðeins vekja athygli á því, að í 8. gr. útsvarslaga er heimilað að leggja útsvar á gjaldþegnana á fleiri stöðum en einum í vissum tilfellum. Hér er því aðeins um það að ræða að bæta við þær undantekningar, sem þar eru gerðar. Jafnframt vil ég minna á það, að ákvæðunum um skiptingu útsvara hefur nýlega verið breytt.

Hv. þm. Borgf. sagði hér áðan, að menn hafi verið eltir frá einum stað til annars vegna útsvarsgreiðslu. Það yrði ekki um þessa menn, þar sem þeir yrðu aldrei mjög margir. Hér er aðeins um þá að ræða, sem stunda síldarsöltun. Það er allt annað mál, þótt heimilað sé, að þessir fáu menn hafi útsvar á fleiri stöðum en einum. Síldarsöltun hefur undanfarin ár þótt mjög svo arðvænlegur atvinnuvegur, og er því ekki nema eðlilegt, að hlutaðeigandi staðir njóti góðs af.