11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

128. mál, húsaleiga

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, er það flutt af allshn. að beiðni félmrn. N. átti þess ekki kost að kynna sér málið verulega áður en það var lagt fyrir þingið, því að málið var síðbúið, og taldi n. rétt að hv. þm. fengju að sjá það sem fyrst. Annars er þetta mikill lagabálkur, nær 80 gr., og að mörgu leyti ýtarlegt.

Það fjallarum það efni, sem fyrirsögn þess bendir til, húsaleigu almennt. Löggjöf okkar hefur ekki haft mikið um þetta að segja. Sú löggjöf, sem er í gildi um þetta efni, eru l., sem gilda aðeins á takmörkuðum tíma og svæðum og eru aðeins um þau atriði, sem sérstaklega stendur á um. Hins vegar taka þessi l. bæði yfir rétt leigusala og leigutaka, einmitt um þau atriði, er lög okkar voru fábrotnust um; þau eru þannig um þau atriði, sem eru mikilvæg eins og okkar högum er nú háttað.

Grg. fylgir frv. frá þeirri n., sem undirbjó málið. N. var ekki alls kostar sammála, eins og grg. ber með sér, en ég tel ekki ástæðu að rekja það nánar. Allshn. mun taka málið til ýtarlegrar meðferðar síðar, því að hingað til hefur ekki unnizt tími til þess. Ég vil gera að till. minni, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til 2. umr.