11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

161. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að fara að deila við hv. 7. þm. Reykv. um þetta, enda hygg ég, að skoðanamunur okkar sé ekki svo mikill, þegar allt kemur til alls. En ég vil þó benda á, að starf skipulagsnefndar ríkisins og skipulagsstjóra í sambandi við skipulagsuppdrætti fyrir kaupstaði og kauptún úti um landið er ekki að öllu leyti kostað af ríkissjóði, heldur verða viðkomandi kaupstaðir og kauptún að borga verulegan hluta af skipulagsverðinu, auk þess sem ríkissjóður leggur fram í þessu skyni við rekstur skipulagsskrifstofunnar. Það er þess vegna ekki þannig, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög, sem njóta aðstoðar skipulagsnefndar, fái það án nokkurs framlags, heldur ætla ég, að í kringum helmingur kostnaðar sé greiddur úr viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum, sem njóta aðstoðar n., svo að út af fyrir sig má segja, að þau séu beinir þátttakendur í greiðslu kostnaðarins. — Þá er einnig kunnugt, að skipulagsstjóri hefur líka lagt fram starf fyrir Reykjavíkurbæ, svo að allt í allt er þetta nú þannig, að bæði nýtur Reykjavíkurbær nokkurrar fyrirgreiðslu frá skrifstofu skipulagsstjóra og eins verða kaupstaðir og kauptún úti um land að greiða verulegan hluta af þeirri fyrirgreiðslu, sem þetta kostar, þannig að þau kjör, sem Reykjavíkurbær nýtur hjá skipulagsnefnd, eru ekki svo gerólík því, sem aðrir kaupstaðir og kauptún njóta.