13.11.1951
Efri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Frsm. 2. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að svara þeim atriðum úr ræðu hv. þm. Barð., sem liggja fyrir utan þetta mál. Ég skal reyna að halda mig að málinu og láta allt, sem utan við það liggur, eiga sig, enda þótt ástæða væri til að svara ýmsu af því. Þá skal ég fyrst benda á það, að það er mesti misskilningur hjá hv. þm., að móti þessu máli hafi verið staðið í sjálfu sér. Það hefur aldrei verið staðið á móti því af neinum í iðnn. Það hefur verið talið, að iðnrekendur og iðnaðarmenn ættu að sameinast í allsherjar félag, eins og bændur og aðrar stéttir landsins hafa gert. Þá er sjálfsagt að láta iðnaðarmennina fá styrk til sinnar starfsemi eins og bændur. Á þetta brestur enn, svo að ýmis stór iðnaðarfyrirtæki, og sum þau stærstu á landinu, standa utan við þennan félagsskap, sem um er að ræða, og er dálítið hæpið, hvernig og að hverju leyti þau komist undir l., ef þau verða samþ. eins og þau liggja nú fyrir, en frv. að þeim hefur raunar alltaf verið að breytast hjá hv. flm., sem alltaf hefur viljað sitt á hvað í málinu.

Þar næst bendi ég á, að þótt við höfum skrifað tveir undir þetta nál., veit ég ekki annað en að einn enn sé samþykkur, a. m. k. var hann það á nefndarfundi, er ákvörðun um það var tekin. og sammála okkur hv. 8. þm. Reykv. (RÞ). En ég held hann hafi verið að hafa íbúðaskipti og verið í flutningum, þegar hv. þm. Barð. rak sem harðast á eftir mér að koma með nál., svo að ég sendi það áleiðis án þess að ná til hans. Þess vegna má líta svo á. að þetta nál. komi frá meiri hl.

Nú skulum við gá að, í hverju þessi munur er fólginn hjá mér og hv. þm. Barð. Í annað skipti er sett í þetta mál mþn., sem starfaði á þessu ári, og sú mþn. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki rétt að setja um þetta lög nú. Hún lagði til, að veittar væru 100 þús. kr. á fjárl. til þess að koma á stofn iðnmálaráði, sem hún kallaði, sem veitti forstöðu skrifstofu, sem réði til sín ráðunauta til að starfa. Hún taldi sem sé, að iðnrekendur sjálfir væru ekki búnir að koma málinu fyrir á þann hátt, sem helzt þyrfti að vera, og vildi, að tími ynnist til starfa án þess að starfið væri bundið með l. Hún vildi, að iðnrekendur og iðnaðarmenn gætu sameinað sig í félagsskap og staðið að málinu óskiptir. Væri þá hægara að marka það framtíðarstarf, sem þessari stofnun er ætlað að rækja, heldur en þegar það er gert með l. áður en starfrækslan er byrjuð og iðnaðarmenn allir sameinaðir. Þetta er í samræmi við það, sem hefur verið um hina atvinnuvegina. Búnaðarfélag Íslands var búið að starfa lengi áður en því skipulagi var komið á, sem nú er, og ríkið fór að skipta sér af því og styrkja það, Fiskifélagið sömuleiðis. Hér yrði því gengið feti lengra en við hina atvinnuvegina, að áður en atvinnuvegurinn væri búinn að koma á nægu skipulagi hjá sér, væri ríkið búið að setja upp stofnun til að koma upp þeirri leiðbeiningastarfsemi, sem hér er um að ræða, sem þá yrði aðeins fyrir suma.

Nál. lá hjá hæstv. ríkisstj. ásamt fimm brtt., er hún lagði til, að gerðar yrðu við frv., en hún sá ekki ástæðu til að senda það inn í þingið og ekki nál. heldur, en flm. frv. fékk það og lagði fram í n., og þar var það rætt. Hún telur sig að vísu ekki mótfallna frv. í sjálfu sér. En í 4. lið tekur n. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt vér teljum, að verkefni iðnaðarmálastofnunarinnar, sem talin eru í frv., séu mikilsverð, viljum vér þó benda á, að hagkvæmara getur reynzt að gefa iðnaðarmálastofnuninni frjálsar hendur til þess að auka verkefnin smátt og smátt, eftir því sem reynsla fæst, en leggja henni ekki skilyrðislaust þá skyldu á herðar að s'tarfa á eins breiðum grundvelli þegar frá upphafi eins og frv. gerir ráð fyrir. Teljum vér, að verkefni þau, sem talin eru í 3. lið 5. gr., séu mest aðkallandi sem fyrsta viðfangsefni stofnunarinnar.“

Sjálf mþn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar og í eru fulltrúar iðnaðarins, enda þótt enginn af þeim sé iðnlærður maður, mér vitanlega, leggur þetta til, og við ósk hennar verðum við, sem viljum afgr. málið með rökst. dagskrá. Ríkisstj. er búin að taka upp þá fjárveitingu, sem n. bað um, 100 þús. kr., og geri ég ráð fyrir, að það fái að standa. Við erum því 100 prósent í samræmi við óskir n., þegar við leggjum til að afgr. málið með rökst. dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því trausti, að ríkisstj. skipi nefnd, er starfræki iðnaðarmálaskrifstofu árið 1952 og veiti iðnrekendum þær tæknilegar leiðbeiningar, er þeir óska, og vinni annars að eflingu iðnrekstrar í landinu, og að til þessa starfs verði veitt fé á fjárl. 1952. tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Eini mismunurinn hjá okkur er sá, að þm. Barð. og Vestm. krefjast, að strax sé ákveðið í frv. starf iðnráðs og iðnaðarmálastjóra. Hv. flm. verður þó að viðurkenna, að í þessum þremur frv., sem hann hefur lagt fram, hefur alltaf verið fellt niður eitthvað af verkefnum og tekin upp önnur, því að það er verið að þreifa sig áfram. Þetta er það, sem mþn. vill gera i friði, án þess að vera skuldbundin af l. Það, sem ber á milli, er þetta og ekkert annað: Eigum við með l. að ákveða, hvað þessi iðnaðarmálastofnun á að gera og hvernig á að skipa hana, þó að sumir iðnrekendur séu alls ekki í samtökunum? Eða eigum við að lofa ríkisstj. að skipa n. og n. að þreifa sig áfram á einu ári, hvernig hagkvæmt er með l. að skapa ramma utan um starf hennar. Búnaðarfélagið hefur ákveðið, hvernig það starfar, og eins er um Fiskifélagið. Og ég hugsa, að þegar n. er búin að starfrækja þessa skrifstofu 1 eitt ár, liggi fyrir ljósari grundvöllur að lagasetningu en nú, meðan allt er í lausu lofti. En það er enginn ágreiningur með eða móti málinu í sjálfu sér, sem skipti í meiri og minni hl. Það er þess vegna fullkomin fjarstæða, þegar talað er um, að verið sé að sýna málinu fjandskap. Það er tekið nákvæmlega eins á málinu af okkur, sem stöndum að þessum tveimur minnihlutaálitum.