31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er bersýnilegt, að þeir tveir hv. þm., 1. þm. N-M. og 6. landsk. þm., hafa ekki lagt það á sig að lesa þessa þáltill. til enda, sem hér liggur fyrir, því að þeir leyfa sér að tönnlast á því, ræðu eftir ræðu, að það eigi að athuga eftir till., hvað veitt hafi verið til byggingarframkvæmda, og svo sé þar með búið. Í till. segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta safna ýtarlegum skýrslum um lánveitingar til íbúðabygginga og leggja fyrir þingið á grundvelli þeirrar rannsóknar tillögur til úrbóta, sem við það miðist, að hægt sé að fullnægja eðlilegri lánsfjárþörf til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum og bæta úr húsnæðisskortinum.“

Seinni hluta till. hafa þessir hv. þm. látið hjá líða að lesa, eða a. m. k. látið hjá líða að láta koma fram hér í umr., að þeir hafi hugmynd um þennan seinni hluta till. Hv. 5. þm. Reykv. og hæstv. dómsmrh. hafa nú gert ræðum þessara hv. þm. skil, þannig að þar þarf litlu við að bæta. Þó vil ég ekki láta hjá líða að halda áfram nokkrum orðum frásögn hæstv. dómsmrh. af framkomu hv. 6. landsk. þm., þar sem áhrifa hans gætir nokkuð, — því að lítið gætir áhrifa hans hér á þingi, — en það er á Ísafirði. Hæstv. dómsmrh. rakti, hvernig frammistaða hans og hans flokks var á Ísafirði. (SkG: Sjálfstfl. hefur stjórnað þar stundum.) En hvað gerði bæjarstjórnin, meðan Alþfl. fór með meirihlutavaldið á Ísafirði? Mér er ekki kunnugt um, að sá flokkur hafi undir stjórn hv. 6. landsk. þm. byggt ýkjamikið til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Það var fyrst eftir að sá flokkur hrökklaðist frá völdum og Sjálfstfl. tók þar við, að nokkuð er þar gert til þess — og ég ætla, að tólf íbúðir hafi verið byggðar í bæjarbyggingunum þar, meðan Sjálfstfl. bar ábyrgð á bæjarmálunum þar. Það er sama, hvort litið er á bæjarbyggingarnar eða verkamannabústaðina, alls staðar hefur þessi hv. þm. orðið sér jafnáberandi til skammar. Það er því næsta furðulegt, að þessi maður skuli rísa hér upp og halda ræðu eftir ræðu með slíkum vindbelgingi til þess að ráðast á bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir það, að hún sé aðgerðalaus um að leysa húsnæðisvandamálin.

Mér þykir hlýða, út af grg., sem fylgir frv., sem liggur fyrir Alþ. um byggingu íbúðarhúsa, að minnast nokkuð á lög frá 1946 um aðstoð þess opinbera við íbúðabyggingar, sem gera ráð fyrir stuðningi ríkisins við þrenns konar framkvæmdir, verkamannabústaði, samvinnubyggingar og í þriðja lagi íbúðabyggingar, sem bæjarfélög eða sveitarfélög ráðast í. Í þeim l. er lögð sú skylda á herðar ríkissjóðs að lána allt að 85% til slíkra byggingarframkvæmda. Eftir að fór að þrengjast um lánsfjármarkaðinn nú fyrir fjórum árum, þá var ljóst, að mjög hlytu að dragast saman framkvæmdir í þessum þremur greinum, sem ég nefndi. Þess vegna komu upp hugmyndir um það að fara inn á nýjar brautir í þessum byggingarmálum, sem byggðust fyrst og fremst á því að nota til hins ýtrasta framtak og framlög einstaklinganna í landinu með því að gefa efnalitlum mönnum kost á að nota eigin vinnu og vinnu fjölskyldna sinna og vandamanna og vina til þess að koma upp yfir sig íbúðum. Bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað, þegar fór að bera verulega á lánsfjárskortinum til byggingarframkvæmda, að reyna að notfæra sér þennan aflgjafa., sem lítið hafði verið notaður til þessa. Og það var gert m. a. með þeim framkvæmdum. sem nú eru í gangi við Bústaðaveg, þar sem bærinn hefur í smíðum á þriðja hundrað íbúðir, þar sem var ákveðið að leggja til þeirra bygginga framlag og framtak bæjar og einstaklinga, þannig að bærinn gerði húsin fokheld og legði í þau hitunartæki, en síðan eiga einstaklingarnir að ljúka við húsin með eigin vinnu og sinna vandamanna. Með þessu þurfti miklu minna fé að festast af opinberri hálfu heldur en ef það opinbera hefði átt að styrkja íbúðabyggingar þessar eftir l., sem ég gat um frá 1946. Þetta hefur verið framkvæmt með því að breyta skattal. á þann veg, að einstaklingar, sem lagt hafa á sig nætur- og helgidagavinnu til þess að byggja yfir sig þannig, verði ekki þrautpíndir með því að leggja háan skatt á vinnu þeirra, því að reynslan var, að þessir menn urðu að óbreyttum l. að hrökklast frá húsum sínum, þegar þau voru fullgerð, vegna þess að skattaálögurnar voru svo miklar. — Var það hv. 6. landsk. þm., sem flutti það mál inn í þingið og barðist fyrir því, að þessi vinna einstaklinganna sjálfra, sem ég gat um, við byggingu sinna eigin íbúða yrði ekki skattlögð og gerði fátækum mönnum mögulegt að koma upp yfir sig og sína húsnæði með þessum hætti? Nei. Hann gerði það ekki. Það voru þm. Sjálfstfl., sem fluttu um þetta frv. hér á Alþ. og fengu það lögfest. Og þetta var grundvöllurinn undir framkvæmdunum við íbúðabyggingar við Bústaðaveg, þar sem sumpart er verið að smíða og sumpart eru fullgerðar á þriðja hundrað íbúðir. Og þessi lagabreyt., sem gerð var fyrir forgöngu Sjálfstfl., er líka grundvöllurinn undir byggingu allra smáíbúða, sem eru í smíðum eða er verið að hefja smíði á í Reykjavík og víðs vegar um landið. Þessi löggjöf um aðstoð við byggingu íbúðarhúsa viðs vegar um landið gerir ekki ráð fyrir aðstoð við efnalitla menn úti um landið viðkomandi eigin vinnu á þann hátt að létta skatta á þeim. Það vantar þau ákvæði í þessa löggjöf, og er hún því orðin úrelt að þessu leyti. Væri full þörf á að bæta ákvæði í þá löggjöf um þetta til þess að létta undir með þeim mönnum, sem ekki geta fengið lán, hvorki úr byggingarsjóði verkamanna né gegnum byggingarsamvinnufélög eða bæjar- eða sveitarfélagabyggingar.

Nú er það svo, að eftir að fjárhagsráð hefur linað á höftunum og gefið frjálsa byggingu smáíbúða allt að 80 ferm., hefur komið mikill skriður á það mál. En var það fyrir forgöngu hv. 6. landsk. þm., að linað var á þessu? Nei, á síðasta þingi voru hér á ferð ein þáltill. og eitt frv. um þessi mál. Þáltill. um að gefa frjálsar smáíbúðir var flutt af þremur þm. Sjálfstfl. Frv., sem fór inn á sömu braut, var flutt af meiri hl. fjhn., fyrst og fremst fyrir forgöngu hv. 5. þm. Reykv., Jóhanns Hafsteins. Það voru sjálfstæðismenn, sem björguðu þessum málum. Hv. 6. landsk. þm. varð þar hvergi vart í þessu fremur en öðru, sem horfir til umbóta og framfara í byggingarmálum. Hans eina framlag í þeim efnum er gaspur og vindbelgingur.

Fyrir þessu þingi liggja nokkrar till. og frv. varðandi byggingarmálin. Sú fyrsta, sem lögð var fram á þinginu, er þessi till. okkar hv. 5. þm. Reykv. um að fela ríkisstj. að undirbúa málið og leggja fyrir þingið till. til úrbóta til þess að greiða úr eðlilegri lánsfjárþörf til íbúðabygginga, til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum og bæta úr húsnæðisskortinum. Eftir að þessi till. kom fram, rigndi inn á þingið till. og frv. frá hinum flokkunum þremur. Ég skal minnast á, í hverju þessi frv. eru fólgin og hverju þau mundu bæta úr og í hverju þeim er áfátt.

Fyrst er frv. á þskj. 34 frá hv. þm. kommúnistaflokksins í Ed. um að taka 15 millj. kr. úr mótvirðissjóði og veita þeim lán, sem hafa byggt til eigin nota. Þetta frv. leysir því ekki úr þeirri þörf, sem nú er fyrir hendi og um rætt, að þeir, sem ætla að byggja eða hafa hús í smíðum, geti fengið lán. Eftir frv. mega menn ekki fá lánin fyrr en byggingu er lokið. Sú hjálp, sem eftir því frv. ætti að veita, er þess vegna ekki til þeirra manna, sem eru að byrja að byggja eða hafa hús í smíðum, svo sem smáíbúðir.

Annað frv. var frá tveimur fulltrúum kommúnistafl. í Nd. um að fella niður úr h frestunarákvæði gagnvart HI. kafla l. frá 1946, um aðstoð við byggingar íbúðarhúsa. Hæstv. dómsmrh. gat þess áðan, að það hefði komið í ljós, að ríkisstj. hefði verið ásátt um það 1948, að ríkissjóður gæti ekki staðið undir þeim byrðum, sem með þessum l. frá 1946 voru á hann lagðar. Ef þennan III. kafla þessara l. ætti nú þegar að taka í gildi, þá er rétt að gera sér nokkra grein fyrir, hvað það mundi þýða í útgjöldum fyrir ríkissjóð. Ég hef ekki upplýsingar um það nema viðkomandi Reykjavík. Þær íbúðir, sem ég nefndi, að á vegum Reykjavíkurbæjar eru í smíðum eða fullsmíðaðar við Bústaðaveg, munu samtals kosta milli 25 og 30 millj. kr. fullgerðar. Þær eru á þriðja hundrað. Ríkissjóður ætti samkvæmt till. í þessu síðast nefnda frv. að vera skuldbundinn til að leggja fram 85% af kostnaðarverðinu, og ef kostnaðarverðið yrði að lokum 30 millj. kr., þá yrði ríkissjóður að leggja fram með þessu móti 25 millj. kr. nú þegar. Sjálfsagt þyrfti ríkissjóður þá líka að snara út nú þegar allmikilli fjárhæð til annarra bæjarfélaga landsins — auk þess sem mörg bæjarfélög mundu þá einnig hefja stórauknar byggingarframkvæmdir á næstunni til þess að bæta úr skorti á húsnæði, þegar slík skylda væri komin á ríkissjóð. — Ég er þeirrar skoðunar, að ríkissjóði beri skylda til að leggja fram verulegt fé til íbúðabygginga til þess að bæta úr húsnæðisskortinum. Ég tel ekki stætt á því fyrir Alþ. og ríkisstj., að það sé sveitarfélaganna einna að sjá fyrir þessum vandamálum. Það hvílir vissulega líka skylda á ríkissjóði til að stuðla að því. En þó að ég haldi fram, að ríkissjóður eigi að leggja þarna fram ríflegt fé í þessu skyni, tel ég ekki verjandi á þessari stundu að samþ. frv., sem skyldar ríkissjóð til þess að leggja nú þegar í þessu skyni fram 30–40 millj. kr. og marga tugi milljóna kr. á næstu árum, án þess að þeir menn, sem leggja frv. um þetta fyrir þingið, bendi á neinar leiðir til tekjuöflunar til þess að mæta þessum útgjöldum. Hins vegar hefur verið sá háttur hafður hjá kommúnistum, að þeir bera jafnframt fram kröfur bæði um stóraukin framlög úr ríkissjóði og um að lækka beina skatta, sem ríkissjóður hefur, og auk þess um að fella alveg niður söluskattinn, sem er annar stærsti skattstofn ríkisins.

Þá er frv. Alþfl., sem flutt hefur verið í hv. Nd., um fjáröflun til byggingar verkamannabústaða. Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmrh., að við verðum að sjálfsögðu að stuðla að því eftir megni að greiða fyrir byggingu verkamannabústaða, enda hefur bæjarstjórn Reykjavíkur sinnt þessu verkefni, með því að hún hefur — ég held óhætt að fullyrða — ein af stjórnum allra kaupstaða á landinu staðið frá öndverðu fyllilega í skilum með tillög sín til verkamannabústaða. Nú greiðir bæjarsjóður Reykjavíkur eina millj. kr. sem óafturkræft framlag á ári til byggingarsjóðs verkamanna. En ég tel, þó að bygging verkamannabústaða sé gott fyrirtæki, að það beri samt sem áður vott um skammsýni hjá Alþfl. að sjá enga leið í byggingarmálum til úrlausnar í húsnæðismálum aðra en byggingu verkamannabústaða. Þó að þær byggingar séu góðar og gagnlegar, er framkvæmd þeirra með öðrum hætti en til var ætlazt í upphafi. Ég geri ráð fyrir, að a. m. k. í sumum flokkum séu íbúðir orðnar nokkru stærri í verkamannabústöðunum en frumherjar verkamannabústaðamálsins gerðu ráð fyrir, þannig að fyrir meðalfjölskyldu er í þeim húsum mögulegt að leigja nokkuð út og hafa þannig ríflegar tekjur upp í vexti. Í öðru lagi er reynslan sú, að það eru ekki aðeins fátækir verkamenn, sem njóta þarna góðs af, heldur meina og minna af millistéttafólki, — skrifstofumönnum og öðru millistéttafólki, — sem þar hefur komið inn og fengið íbúðir í verkamannabústöðunum, og skal ég sízt lasta það, því að ég álít, að bygging verkamannabústaða hafi verið mjög góð og gagnleg framkvæmd. En á hinu er ekki vafi, að ef við ætlum að gera stórt átak til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum, þá er ekki verkamannabústaðaleiðin sú eina, sem fær er. Við sjáum, að nú í dag er mestur áhugi manna, sem vilja eignast hús yfir sig, á því að koma upp fyrir sig smáíbúðum, þar sem þeir geta sem mest unnið við bygginguna sjálfir. Þess vegna er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, ekki aðeins vegna Reykjavíkur, heldur og vegna annarra kaupstaða og kauptúna bandsins, að opna möguleika til þess að lána til þessara smáíbúðabygginga. En þær geta ekki fengið lán úr byggingarsjóði verkamanna.

Enn fremur er svo frv. frá hv. 8. þm. Reykv. um að greiða af tekjuafgangi 1951 eða úr mótvirðissjóði 10 millj. kr. í byggingarsjóð verkamanna, en það frv. felur auk þess í sér að skylda sveitarfélögin til að tvöfalda sitt framlag til byggingarsjóðs verkamanna. Verð ég að segja, að mér virðist nokkuð furðuleg till. frá einum þingmanni bæjanna að bera fram slíka till., þegar það hefur verið sýnt svart á hvítu, að flestir bæir eiga mjög örðugt með og sumum er ómögulegt að standa undir sínum útgjöldum og koma saman fjárhagsáætlunum sínum fyrir næsta ár og afla sér tekjustofna.

Hvernig líta svo þessi frv. út í heild, sem hv. 6. landsk. þm. og hv. 5. landsk. þm. (HV og ÁS) vilja helzt láta samþ. öll? Það er svo að skilja á nál. og ræðum þeirra, að þeir vilji það. Fyrsta frv. er um 15 millj. kr. úr mótvirðissjóði — eða ríkissjóði. Annað frv. er um, að lögin frá 1946 um aðstoð við íbúðarhúsabyggingar, III. kaflinn, komi til framkvæmda, sem mundi kosta a. m. k. 30 millj. kr. nú þegar og marga milljónatugi mjög bráðlega. Þriðja frv. er frá Alþfl. um það, að ríkið ábyrgist sölu á skuldabréfum samtals fyrir 18 millj. kr., og svo fjórða frv. frá hv. 8. þm. Reykv. um að úr ríkissjóði — eða mótvirðissjóði verði teknar 10 millj. kr. til íbúðabygginga. Við erum þá komnir hér upp í 70–80 millj. kr., og af því yrði að leggja fram að líkindum á fjórða tug millj. kr. nú strax, sem hv. 5. landsk. og hv. 6. landsk. þm. vilja láta samþ. — Ég vil benda á það og ítreka það, að ég tel, að ríkinu beri skylda til að styðja íbúðarhúsabyggingar, bæði í kaupstöðum og sveitum. En vitanlega verður að haga framgangi þess máls af einhverju viti. Það þýðir ekki að demba fram á Alþ. hverju frv. eftir annað í stanzlausum yfirboðum, eins og þessir hv. þm. hafa gert, og heimta þau svo samþ., þó að vitanlegt sé, að það er gersamlega ómögulegt, að ríkissjóður geti undir því risið. — Þessi till., sem hér liggur fyrir, fer einmitt fram á, að málið sé athugað og rannsakað og að ríkisstj. sé falið að leggja fyrir þetta þing till. til úrbóta, — ekki þann veg, eins og Alþfl. vill, að sjá ekkert annað en verkamannabúsbaðabyggingar, sem eru góðar og gagnlegar, en það verður að fara fleiri leiðir líka. En þáltill. og grg. hennar felur í sér, að fyrst og fremst eigi að leita að öllum lausnum, hvernig hægt sé að stuðla sem mest að byggingu smáíbúða, hvernig hægt sé að veita stuðning byggingarsjóði verkamanna, hvernig eigi að styðja að framkvæmdum bæjarbygginga til íbúðar, sem eru í smíðum eða á að hefjast handa um smíði á, og hvernig eigi að styðja samvinnufélög til þess að afla fjár til bygginga. Till. þessi er því víðsýnni en öll frv. um þetta efni, sem fyrir liggja og öll bera á sér mikinn blæ yfirboða og lýðskrums, eins og hv. 6. landsk. þm. orðaði það. Hún er að því leyti víðsýnni, að hún vill taka málið fyrir í heild og fela ríkisstj. að leggja till. fram í málinu, því að lausn þarf að fást nú þegar á þessum málum. Það mun vera í undirbúningi hjá hæstv. ríkisstj. nokkur lausn á þessum málum, og mun ekki langt að bíða þess, að bráðabirgðaúrlausn kemur fram frá henni í þessum málum.

Hv. 6. landsk. þm. hafði þau orð um þessa till., að það væri réttnefni, að hún héti „litla, ljóta tillagan“, — sem sagt, sú till., sem gengur lengst í því að bæta úr lánsfjárþörfinni til íbúðabygginga og þar með því böli, sem þeir búa við, sem búa í heilsuspillandi íbúðum, sú till. er „litla, ljóta tillagan“ að dómi hv. 6. landsk. þm. Mér finnst þessi nafngift koma vel heim við alla sögu þessa hv. þm. í byggingarmálunum, því að hvar sem hann hefur komið þar við sögu eru afrek hans aðeins orðagjálfur og vindbelgingur.