08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má segja, að landsfundur Sjálfstfl., sem haldinn hefur verið hér undanfarna daga, hafi haft mikil áhrif og verið veitt mikil athygli því, sem þar fór fram, þar sem flest blöð andstæðingaflokkanna hafa ekki um annað rætt síðan fundurinn hófst. Hv. 8. landsk. þm. notaði hér langan tíma til að tala um þetta sama efni. Ég get ekki kosið neitt betra hrós né meiri viðurkenningu á áhrifum og gagnsemi landsfundarins en þetta.

Hv. 8. landsk. þm. skýrði hér réttilega frá ákvörðun ríkisstj. þeirrar, sem hann veitti forstöðu, um frestun á framkvæmd III. kafla laga nr. 44 frá 1946, en ég verð að segja, um leið og ég þakka hv. 8. landsk. þm. fyrir það, að hann sagði satt og rétt frá meðferð þessa máls, sem hér var um að ræða, í hans ríkisstj., að hann er nokkuð orðsjúkur og að vissu leyti að ástæðulausu. A. m. k. er ástæðulaust fyrir hann að taka svona þykkjuna upp fyrir hv. þm. Vestm., því að sá hv. þm. hefur sjálfur rænu á að finna að við okkur hans flokksmenn, ef hann þykist ekki njóta sannmælis í okkar hópi, sem fjarri fer, að rétt sé, vegna þess að hv. þm. Vestm. er þar meðal mest virtu manna og það að verðleikum, en hefur átt fremur köldu að mæta úr hópi flokksmanna hv. 8. landsk. þm., og væri honum sýnu nær að brýna sína menn til sannmælis við svo ágætan mann heldur en að reyna að koma illu af stað milli hv. þm. Vestm. og okkar hans flokksmanna, sem er tilgangslaust. — Hins vegar er það rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði, að það fer ákaflega illa á því, þegar margir menn vinna að sameiginlegu starfi, að þá reyni hver að þakka sér það, sem betur tekst til, en koma því, sem miður fer, á aðra. Ég verð að játa, að mér er slíkt hátterni mjög um geð og hygg, að engum verði til framdráttar að viðhafa það. Hitt, þó að það sé siður nú um sinn að skamma stjórn Stefáns Jóhanns, hv. 8. landsk. þm., þá hef ég ekki tekið það svo alvarlega. Menn verða að hafa eitthvað til að skamma, og þar sem þeir flokkar, sem að þeirri ríkisstj. stóðu, eru nú komnir í andstæðar fylkingar, þá er von, að eitthvað af aðfinnslum komi fram um þá stjórn. En þar var um góða stjórn að ræða, sem gegndi mikilsverðu hlutverki á þeim tíma, sem hún var við völd. Og ég er sannfærður um, að ef hún hefði setið lengur, hefði hún megnað mjög að hafa bætandi áhrif á hv. þingmenn Alþfl., eins og ég hef áður sagt. Ég er sannfærður um, að þeir hefðu þá orðið miklu skilningsbetri á úrlausnir í vandamálum atvinnulífsins en þeir eru nú. Það er furðulegt, hversu mikil léttúð og öfuguggaháttur getur gripið menn, þegar þeir komast í andstöðu við ríkisstj., og sýnast þá skyndilega gleyma öllum þeim lærdómum, sem þeim voru mjög ríkt í hug, meðan þeir báru sjálfir ábyrgð á hlutunum. Og ég er sannfærður um það, að Alþfl. mundi hafa verið með í þeim skynsamlegu úrlausnum vandamála atvinnulífsins, sem ofan á urðu, ef þessari ríkisstj. hefði orðið lengri lífdaga auðið en raun varð á. Það er nú hins vegar ástæðulaust að tala um það frekar. Gerðum hlutum verður ekki breytt. Og það er nú undir sögunnar dómi komið, hvert orð þessi stjórn fær, eins og allir aðrir, og breytir þar um engu, þó að menn séu að kastast á hnútum eða skattyrðast hér innan þings. En ég er sannfærður um, að stjórnin gerði gott verk, meðan hún stjórnaði, og leysti úr þeim vanda, sem þá bar að höndum, furðanlega vel, miðað við allar aðstæður, sem vitanlega voru erfiðar.

Hv. 6. landsk. þm. hygg ég að hafi sagt, að ég hefði viljað tileinka mér heiðurinn af því, að frestað var eða breytt ákvæðum l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hv. 8. landsk. þm. hefur nú svarað þessu, og þarf ég ekki að rekja það frekar. Það, sem ég benti á, var aðeins þetta. Það var þegar frá upphafi augljóst fyrir þá, sem sjá vildu og skilja, að þessi lagaákvæði voru óframkvæmanleg. Ég sýndi fram á það rækilega í hv. Ed., að þau mundu ekki geta staðizt, og varaði við samþykkt þeirra, en þar sem ég var þá borgarstjóri í Reykjavík og átti fyrst og fremst að gæta hagsmuna Reykjavíkurbæjar, þá hafði ég ekki á móti því, ef Alþ. vildi endilega veita Reykjavíkurbæ og öðrum bæjarfélögum og kaupstöðum meiri tekjur frá ríkissjóði í þessu skyni heldur en ég taldi bæði sanngjarnt og hægt að standa undir. Þar varð auðvitað Alþ. og dómur þáv. ríkisstj. að ráða. En því miður kom á daginn, að það, sem ég hafði um þetta sagt, var rétt, og hefði betur verið, að þá hefði verið eftir mínum till. og bæjarstjórnar Reykjavíkur farið. Við vildum þá og bentum á, að miklu væri heillavænlegri leið til lausnar þessum málum að leggja á hvorn aðilann um sig, bæi og kaupstaði annars vegar og ríkissjóð hins vegar, byrðar, sem þeir gætu staðið undir, en ekki svo miklar á annan aðilann, að fyrirsjáanlegt væri, að hann kiknaði undir þeim á skömmum tíma. Og í till. mínum var einnig vikið að því, sem ég tel að ekki hafi verið nóg haft í huga við lausn þessara mála, og það er, að vitanlega á ríkið að styrkja frekar þá staði, þar sem mikil fólksfjölgun er og þar af leiðandi mest vöntun á húsnæði, heldur en hina staðina, þar sem er e. t. v. fækkun á fólki eða alger kyrrstaða í þessu efni.

Hv. 6. landsk. talaði um það hér áðan, að nú væri ekkert húsnæðisleysi á Ísafirði. Þetta kann að vera rétt nú í bili. En þá er það vegna þess, að fólki hefur annaðhvort lítið fjölgað á Ísafirði eða fólkstalan hefur staðið í stað eða í þriðja lagi fólkinu fækkað. Ég hygg, að fólkstala þar hafi hér um bil staðið í stað nú um nær 20 ára bil. Og það er ekki sérstaklega þakkarvert, þó að slíkir bæir geti með stórkostlegum opinberum styrkjum fengið því áorkað, að ekki sé þar um beinan húsnæðisskort að ræða. Hitt er auðvitað því miður mjög ofmælt hjá þessum hv. þm., að allir Ísfirðingar búi í sérstaklega góðum húsakynnum. Ég hygg, að bera mætti sumt húsnæði þar saman við sumt af því lélega húsnæði, sem hv. þm. talaði um hér í Reykjavík, þannig að lélega húsnæðið hér yrði talið hinu betra. En út í slíkan eltingaleik hirði ég ekki að fara. En það er staðreynd og skiptir mestu máli, að vitanlega er mest þörfin á því, að hlaupið sé undir bagga á þeim stöðum, sem fólkið sækir til, til að búa þar. Og ástæðan til hinna miklu húsnæðisvandræða hér í Reykjavík, sem enginn vill draga dul á, er einmitt það, að hingað sækir fólk frekar en til nokkurs annars staðar. Og þess vegna er það eðlilegt og verður í raun og veru eina frambúðarlausnin á þessum málum, að Reykjavík og aðrir þeir staðir á landinu, svo sem Hveragerði, Selfossbyggð og fleiri slíkir staðir, sem eru í örum vexti, njóti frekar hlunninda og aðstoðar frá ríkisvaldinu til úrlausnar húsnæðisvandamálum sínum heldur en hinir staðirnir, sem eru í kyrrstöðu um fólksfjölda eða afturför. Það er ljóst, að það eiga ólíkar reglur við á hvorum þessara staða um sig í þessu efni. Og þeir, sem standa í forsvari fyrir þá staði, þar sem fólki fremur fækkar en fjölgar, eins og nú er á Ísafirði, hafa ekki yfir neinu að hælast um, þó að þeir geti nú bent á, að eftir áratugastyrki frá ríkinu hafi þeir leyst þau verkefni í húsnæðismálum, sem er ekki hægt að leysa enn í Reykjavík til hlítar, meðan aðstreymi fólks til bæjarins er jafngífurlegt og það er, þar sem á sumum árum hefur fólksfjölgunin í bænum orðið það mikil, að svarar fyllilega til allrar mannfjölgunar á Íslandi á þeim sama tíma.

En út af frýjunarorðum hv. þm. Alþfl. — og reyndar án tillits til þeirra, þó að þau veki mig til þess að skjóta þeirri hugsun fram hér, sem ég hygg þó að eitthvað hafi bærzt í þeirra eigin hug áður — þá vildi ég nú segja það, að mér skilst, að þeir hafi það nú nokkuð í hendi sér nú þegar að ráða fram úr sárasta lánsfjárskortinum í þessu efni. Það er vitað, að Alþfl. ræður mjög mikið og hefur forustu um þá stærstu stofnun, sem hér á landinu getur lagt upp fé. Það var rifjað upp við fyrri umr. þessa máls, að lífeyrissjóður embættismanna lánaði embættismönnum hagkvæm lán til íbúðabygginga, lífeyrissjóður kennara lánaði þannig sínu fólki. Og ég hygg, að eftirlaunasjóður Reykjavíkurbæjar, þó að hann sé öðruvísi til kominn og beinlínis og eingöngu haldið uppi af bæjarsjóði án framlags frá starfsmönnunum sjálfum, hafi einnig lánað þannig starfsmönnum bæjarins, a. m. k. að einhverju marki. En í samræmi við þetta fyndist mér það vera langskjótasta lausnin til bóta í þessu efni, að sjóðir almannatrygginganna yrðu notaðir til þess að leggja fram fé til kaupa á skuldabréfum í húsum, sem almenningur er að koma upp yfir sig, bæði til að kaupa bréf í verkamannabústaðabyggingum og eins og ekki síður til þess að kaupa skuldabréf í smáíbúðabyggingum. Þarna eru ógrynni fjár, sem safnast fyrir á hverju ári. Og í stað þess að lána þetta fé í ýmiss konar verklegar framkvæmdir, sem ýmsir menn standa að, þá virðist mér það vera miklu nær, að fólkið sjálft fái peningana lánaða til þess að koma upp yfir sig húsum. Og ég hygg, að nánari athugun á þessu og ýmsum öðrum möguleikum mundi gera það að verkum, að þetta vandamál yrði þó að einhverju leyti viðráðanlegra en það er í dag. En meðan hv. þm. Alþfl. láta þetta færi, sem þeir hafa til þess að verja fé alþýðutrygginganna í þessu skyni, ónotað, finnst mér, að þeir ættu að spara stóru skeytin, sem þeir ætla sér að bauna á okkur hina hér í þingsölunum, því að þeir ráða vissulega yfir mestu fénu og hafa mesta möguleikana til þess að láta gott af sér leiða viðkomandi öflun lánsfjár í þessu skyni, ef hjá þeim fylgir sá hugur orðunum, sem þeir vilja vera láta, sem ég efast ekki um. Því þó það standi óhaggað og óhrekjanlegt, að aðrir hafi unnið meira að framkvæmdum bygginga verkamannabústaða en Alþfl., þá er hitt rétt, að Alþfl. á þakkir skildar fyrir forgöngu sína um löggjöf í þessum efnum. — En hv. 6. landsk. þm. ætti hins vegar ekki að vera ákaflega mikið að miklast af Héðni Valdimarssyni heitnum í þessu efni, því að hans viðskilnaður og Alþfl. var nú slíkur, að það voru sett sérstök lög fyrir atbeina Alþfl. í því skyni að svipta Héðin Valdimarsson áhrifamöguleikum í þessum málum. (HV: Sjálfstæðismaður var hann þó ekki.) Héðinn Valdimarsson hafði mjög gott samstarf við bæjarstjórn Reykjavíkur um framgang þessara mála, alveg eins og þeir, sem tóku við af félagsins hálfu eftir hann, hafa haft gott samstarf við bæjarstjórn Reykjavíkur í þessum málum. Og einmitt fyrir það góða samstarf, sem þar hefur ætíð átt sér stað milli bæjaryfirvaldanna og forustumanna þessa félags, hefur jafnvel til tekizt og raun ber vitni. Og mér finnst nær, að menn beini huganum að því, hvaða aðferðir hafa verið hafðar, þegar vel hefur tekizt til í þessum efnum, og reyni að feta sig áfram eftir þeim leiðum, heldur en að vera með þau skattyrði, sem hv. 6. landsk. þm. tók hér upp við þessa umr.