12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Frsm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þessa till. á þskj. 81 um frjálsan innflutning á heimilisdráttarvélum. Við þessa þáltill. var flutt viðaukatill. á þskj. 112 um að leyfa einnig frjálsan innflutning á prjónavélum. N. tók þessi mál til rækilegrar athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, sem fram kemur á þskj. 316. Áhugi bænda um allt land fyrir að fá þessi tæki til þess að létta störf landbúnaðarins er mjög mikill, og má m. a. sjá það á því, að nú liggja fyrir hjá úthlutunarnefnd jeppabifreiða mjög margar umsóknir um þessi tæki, en það var niðurstaðan síðast, að meira en helmingi fleiri óskuðu eftir jeppum en dráttarvélum. En n. hefur litið svo á, að dráttarvélar væru nauðsynlegri tæki fyrir landbúnaðinn heldur en jeppar.

N. leggur til, að tillgr. verði breytt á þann hátt, sem lagt er til á þskj. 316, þar sem lagt er til, að gefinn verði frjáls nú þegar innflutningur á heimilisdráttarvélum og prjónavélum. Í b-lið till. leggur n. til, að á árinu 19h2 verði gefinn frjáls innflutningur á jeppum og landrover-bifreiðum, ef nægur gjaldeyrir verður fyrir hendi, og settar verði þá reglur, sem komi í veg fyrir, að bílarnir verði seldir til annarra manna en þeirra, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu. — Nefndin hefur yfirleitt verið sammála um þetta. Einn nefndarmanna, hv. 2. þm. Skagf., mun þó hafa skrifað undir nál. með fyrirvara í sambandi við b-liðinn. Ég vona, að háttv. þm. taki þessari 2ill. vel, en það mun vera réttast að bera a- og b-lið upp sinn í hvoru lagi.