12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég vildi leiðrétta misskilning hjá hv. frsm. allshn. um tímann, sem þyrfti til afgreiðslu tunnuefnisins. Efnið þarf að höggva meðan frost haldast, vegna þess að annars verður viðurinn ekki vatnsheldur. Þess vegna verður að ákveða innkaupin á meðan frost haldast. Annars fæst ekki annað efni en ef til vill einhverjir slattar og afgangar, sem aðrir kaupendur hafa gengið fram hjá og er þá vafasamt að gæðum. Þetta er ekki að kaupa fram í tímann til margra ára. Það er aðeins farið fram á að kaupa efni til næsta vetrar. Ég vil enn fremur benda á, að ekki er hætta á, að sú gerbreyting verði í tunnusmíði, að þessi efniskaup verði af þeim ástæðum óþörf eða skaðleg. Það hefur verið reynt að smíða tunnur úr öðrum efnum, t. d. plastik, en það hefur gefið illa raun. Það er því engin hætta á. að sú breyting verði á tunnuframleiðslu, að þetta efni, þótt keypt yrði, kæmi ekki að gagni. Ástæðan fyrir þessari till. er sú, að ég vil láta tryggja efni til næsta vetrar. Og ég vil benda á það. að næsta vetur, þegar á að setja verksmiðjuna í gang, er ekki hægt að bera því við, að ekkert efni sé til, því að ég hef nú aðvarað rækilega um þetta.