21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að þessi till. komi fram, og það hefur verið farið fram á það af raforkumálaskrifstofunni, að hún fengi fé til þess að rannsaka virkjunarmöguleika á Vestfjörðum. Er talið, að það mundi kosta um 100 þús. kr. Það er vitaskuld nauðsynlegt, að þetta verði rannsakað, enda þótt það kosti fjármuni. Það er heldur ekki nema eðlilegt, að Vestfirðinga sé farið að lengja eftir rafmagni eins og marga aðra. En út af því, sem hv. þm. N-Ísf. tók fram um þessar framkvæmdir, vil ég láta þess getið, að fjárveitingar ríkisins til þessara mála eru ekki meiri en það, að raunverulega eru veittar í þetta rúmlega 3 millj. kr. á ári, og svo hefur því verið treyst, að væri hægt að fá 1½ millj. kr. að láni sem ekki tekst í ár. Þessar fjárveitingar eru litlar, og miðar framkvæmdum að sama skapi hægt áfram. Núna er þessum málum þannig háttað, eftir því sem ég hef látið reikna út, að með sams konar fjárveitingum og er í ár, með þeirri von, að takast megi að útvega 1½ millj. kr. lán í ár og einnig á árunum 1952–53, þá er aðeins hægt að ljúka við þær virkjanir, sem raforkumálaskrifstofan hefur nú þegar byrjað að vinna að. Ég tel rétt, að þetta komi fram, svo að hv. þm. og sú n., sem fær þetta mál til athugunar, fái sem nákvæmastar upplýsingar um þessi atriði. Það er auðsætt mál, að ef unnið er að þessum málum með hraða, þá nægja ekki þessir peningar, sem ríkið veitir, og smálán, sem tekin eru árlega, 1½ millj. kr. Það er eitt m. a. í þessu sambandi mjög aðkallandi, þ. e. aflstöð á Blönduósi, sem var ráðizt í að koma í framkvæmd. En eins og hv. Alþ. er kunnugt, þá er þar heimild til ríkisvirkjunar, en þeir gátu ekki fengið byggingarlán, þannig að ríkið hefur orðið að taka á sig 2,2 millj. kr. Þegar ég kom að þessum málum, þá var búið að lofa að virkja Fossá á Snæfellsnesi, sem kostar 6,8 millj. kr., það er því búið að ráðstafa þeim fjárveitingum, sem nú er verið að leggja fram. Síðan er virkjun í sambandi við l. frá Alþ. fyrir Hólmavík, hagkvæm virkjun, sem kostar 3,8 millj. kr. Þessar virkjanir kosta því mikið af fjárveitingum næstu ára. En allt þetta geta hv. þm. fengið yfirlit um hjá mér í ráðuneytinu eða hjá raforkumálaskrifstofunni, sem er raunar nauðsynlegt, til þess að það valdi engum vonbrigðum, með hvaða hraða þessi mál verða afgr. á næstunni.