21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er rétt, hvað fjármagninu líður, að það er nauðsynlegt að láta rannsaka þau mál. Það er svo í seinni tíð, að efni til þessara framkvæmda er orðið mjög dýrt. Timbur hefur hækkað í verði, saumur og járn og einkum þær vörur, sem notaðar eru í leiðslur, og sumt er að verða ófáanlegt, eins og koparvír og stálvír, svo að nú verður að notast við aluminium, sem hefur verið notað með góðum árangri. En þessi mál þurfa rannsóknar við, því að það er auðheyrt, að margir, sem við þessi mál fást, telja minni virkjanirnar eins hagkvæmar og þær stærri, þar sem þarf langar leiðslur. Ég skal ekki ræða það frekar, en rannsókn er nauðsynleg, þó að ekki væri hægt að láta hana fara fram í sumar, vegna þess að til þess skorti fé.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það er rétt, sem kom fram, að fjármagnið til þessara framkvæmda er allt of lítið og að það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut. Ég mundi ekki hafa tekið til máls í þessu máli, ef ekki fyrir þá sök, að ég álít nauðsynlegt að vekja athygli hv. þm. á því, að þeir geta ekki gert sér vonir um framkvæmdir í þessum málum, meðan ekki er veitt meira fé til þess á fjárlögum. Ég hef bent á, hvað þær framkvæmdir kostuðu, sem ákveðnar voru 1942–43, en langfjárfrekust varð virkjun Fossár, sem kostaði um 6.8 millj. kr. Það væri mikið hægt að framkvæma á næstu 2 árum, ef aflstöðvarnar við þær ár, sem ég gat um og kosta um 13 millj. kr., væru ekki eitt af því, sem þarf að nota fé til af því fé, sem Alþ. veitir. Ég held, að það sé ekki önnur leið en að reyna að útvega að verulegu leyti, eftir því sem hægt er, fé erlendis frá til að byggja aflstöðvarnar. Ríkið veiti síðan fé og lán verði tekin innanlands til að byggja upp veiturnar. Eitt af því, sem kemur í veg fyrir að nota mótvirðissjóðinn, er, að hann er notaður til að byggja upp stöðvarnar við Sog og Laxá, en það, sem gefur vonir um, að e. t. v. verði hægt að nota hann, er, að ekki hefur verið mjög erfitt að afla fjár til þeirra framkvæmda. Það eru fleiri en við hérna á Alþingi, sem sjáum, að sveitirnar og dreifbýlið verða útundan. Þeir sérfræðingar, sem mest mark er tekið á, telja, að á næstu árum eigi að sitja fyrir aflstöðvar úti um sveitir og í smákaupstöðum og kauptúnum og þar næst landbúnaðarframkvæmdir, því að landbúnaðurinn hafi orðið afskiptur og sé því orðinn á eftir öðrum atvinnugreinum. Er af þessum sökum sennilega auðvelt að fá lán úr mótvirðissjóðnum, er hann kemur í umferð aftur. — En í framhaldi af þessum hugleiðingum, sem ekki eru ónauðsynlegar hér á Alþingi, því að það mega hv. alþm. vita, að þegar þeir eru farnir héðan, fara að koma nefndir utan af landi og heimta rafmagn, þó að ekkert fé sé veitt til þess. Og ég get ekki svarað öðru en því, að ekkert fé sé til og að ég geti ekkert gert, nema fjárlögin heimili það. — En eitthvað verður að gera. Ég hef bent á, að hugsanlegt er að taka eitthvað af fé úr mótvirðissjóðnum, er fé kemur frá Sogs- og Laxárvirkjununum, og að hugsanlegt er að taka lán erlendis, ef það fæst. Raforkumálastjóri hefur vakið athygli mína á því, að í Svíþjóð og Noregi hefur verið tekinn upp sá háttur að leggja skatt á rafmagn alls staðar þar, sem það er komið. Sænska jafnaðarmannastjórnin telur, að þeir, sem eru búnir að fá rafmagn, hafi betri aðstöðu en hinir og eigi þess vegna að borga þennan skatt. Norðmenn taka 12% og nota féð til að leiða rafmagn til annarra, sem ekki hafa rafmagn. Ég hef óskað eftir, að þessi löggjöf yrði útveguð hingað því að þetta er mál, sem þarf að athuga. Ég vil þó í þessu sambandi enga afstöðu taka til þess, hvað verður gert af mér eða stjórninni, en það er rétt að kynna sér, hvað þessar þjóðir hafa gert í þessum efnum. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál eftir að hafa komið fram þeim athugasemdum og ábendingum, sem ég tel nauðsynlegar.