21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa þáltill. vildi ég gjarnan benda á, áður en hún fer til nefndar, að ég tel nú, eftir að hafa farið um Vestfirðina alla, að litlar líkur séu til að koma rafmagni um þá alla frá þessum stærri virkjunum. Hins vegar er hvergi eins gott að koma upp litlum rafveitum fyrir heimilin eins og á Vestfjörðum, og þann möguleika þarf að athuga gaumgæfilega í sambandi við þetta mál, því að sé það rétt, sem hv. flm. sagði, að þetta sé orsökin til, að byggðin leggist í eyði, verður því ekki bjargað með stórveitum. Og ég þori að fullyrða, að í hvaða hreppi sem er á Vestfjörðum eru betri skilyrði til heimilisrafveitna en í Skaftafellssýslu, þar sem þær eru komnar á annan hvern bæ sums staðar. — Ég vil beina því til þeirra, sem fá þetta til athugunar, hvort ekki sé rétt að athuga þessi mál. Þörf vestfirzkra sveitarfélaga verður ekki leyst nema að litlu leyti með þessu. Þörfina má víða leysa með smárafstöðvum, en þá þurfa menn að hafa greiðari aðgang að fé en nú er. — Þessi mál verða víða á landinu aldrei leyst með stórum virkjunum, þar sem hins vegar er auðvelt að koma upp rafveitum fyrir heimilin. T. d. sums staðar á Vestfjörðum ætti að snúa sér meira að þeirri hlið og skapa betri möguleika til útvegunar lánsfjár en nú er.