14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

51. mál, mótvirðissjóður

Emil Jónsson:

Herra forseti. Er Bandaríkjamenn stofnuðu á sínum tíma, fyrir tæpum 4 árum, til efnahagssamvinnu Evrópuþjóðanna, sem þeir síðan hafa unnið ósleitilega að því að styðja og styrkja og m. a. lagt fram til hennar þúsundir milljóna dollara, þá var yfirlýstur tilgangur þeirra með þessari starfsemi fleiri en einn. Í fyrsta lagi var hann sá að reyna að örva verzlun á milli landa, sem annars áttu þess ekki kost að verzla saman, þar sem þau skorti til þess fé, að sú verzlun gæti átt sér stað. Vegna þess arna höfum við Íslendingar bæði getað selt afurðir okkar til landa, sem annars hefðu tæplega getað keypt af okkur, og við höfum líka getað keypt vörur, sem við annars hefðum ekki getað fengið, ef þessi efnahagssamvinna hefði ekki átt sér stað. Svo að það má segja, að þessi þáttur í efnahagssamvinnunni hafi gefið okkur Íslendingum mjög góða reynslu.

Í annan stað var meiningin með þessari samvinnu að reyna að örva þá tækniþróun, sem var orðin langt á eftir í viðkomandi löndum, til stórvirkra framleiðslutækja, til þess að framleiðslan gæti aukizt mikið frá því, sem áður var, og afkoma manna þannig batnað. — Þetta var annað atriðið.

Þriðja atriðið, sem kom að vísu síðar, með tilkomu mótvirðissjóðs, er það, að með mótvirðissjóði verði höfð þau áhrif á efnahagsstarfsemina í landinu, sem eigi til heilla að horfa hverju sinni. — Ráðstöfun mótvirðissjóðs er ekki bundin neinum fastmælum. Það er eitt aðalatriði, sem átti að vinnast með honum, það að reyna að hindra verðbólgu og reyna að draga úr verðbólgu, ef fyrir kynni að vera. Þetta er gert á þann hátt, að sjóðnum er safnað saman, án þess að setja hann í umferð á ný. og getur viðkomandi ríkisstj. þá á hverjum tíma verið nokkuð mikill herra yfir því, hvort óeðlileg kaupgeta er fyrir hendi í landinu eða ekki. – Það hefur verið sagt um efnahagsástandið hjá okkur undanfarið, að það einkenndist af því, að meira fé væri til en vörur til þess að fullnægja eftirspurninni, og er það að vissu leyti rétt. Nú eru vörurnar komnar, en peningarnir, sem hafa komið inn í staðinn, hafa ekki farið í umferð á ný, og þess vegna getur þessi sjóður orðið ríkisstj. mjög þarfur hlutur til þess að hafa vald á efnahagsástandinu í landinu á hverjum tíma. Þetta er ekki gjaldeyrissjóður, sem hægt sé að nota utanlands, en sjóður, sem hægt er að nota til að hafa áhrif á efnahagsstarfsemina innanlands.

Nokkru af mótvirðissjóði hefur þegar verið ráðstafað ýmist til skuldagreiðslna ríkissjóðs og hefur þá beinlínis verkað, eins og ég sagði áðan, til að draga úr hinni mjög miklu kaupgetu, sem var fyrir hendi í landinu umfram þær vörubirgðir, sem voru fyrir hendi. Tel ég, að það hafi verið rétt. — Þá hefur sjóðurinn líka verið notaður til þess að koma í framkvæmd hinum stóru virkjunum við Laxá og Sogið og áburðarverksmiðjunni, og tel ég, að það hafi einnig verið rétt, en hvort tveggja þetta er gert, að ég hygg, að vandlega athuguðu máli og yfirlögðu ráði. Það, sem ég vildi með þessum fáu orðum leggja áherzlu á, er það, að ekki verði hlaupið að því að ráðstafa mótvirðissjóði án þess, að það sé gert að mjög yfirlögðu ráði og tekið tillit til annarra aðkallandi þarfa og sérstaklega með hliðsjón af efnahagsástandinu í heild eins og það er á hverjum tíma. Árið 1949 var ég staddur í Washington og átti tal við forráðamenn þessarar stofnunar þar einmitt út af mótvirðissjóðnum og spurðist fyrir um, hvort þeir væru þeirrar skoðunar, að meðferð sjóðsins væri nokkuð sérstök, — hvort þeir vildu, að honum væri sérstaklega varið til fjárfestingar eða til fyrirgreiðslu á ríkisskuldum, því að eins og kunnugt er, er ráðstöfun sjóðsins líka háð samþykki þeirra. Þeir létu þá skoðun í ljós, og ég býst við, að þeir hafi hana enn, að þeir hefðu enga fyrirframskoðun um þetta efni, þeir teldu rétt, að ráðstöfun sjóðsins færi eftir efnahagsástandinu á hverjum tíma og að ekki væri tekin ákvörðun um það fyrr en séð væri, hvað kallaði að, og þá yrði heildartalan tekin í einu og málið tekið í einni heild. Ég held, að þetta sé mjög skynsamlega hugsað. Ég veit að vísu, að margir þurfa á fé að halda, iðnaðurinn í landinu þarf á fé að halda, landbúnaðurinn í landinu þarf á fé að halda, verzlunin þarf á fé að halda, það þarf kannske af hálfu ríkisstj. að gera ráðstafanir til að halda uppi ákveðnu atvinnuástandi, sem hefur orðið til af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum; það getur þurft að veita fé í ákveðna átt, og er þá ómetanlegt fyrir hverja ríkisstj. á hverjum tíma að hafa sjóð eins og þennan, sem hún getur veitt úr eftir því, sem hún telur á hverjum tíma þurfa. — Ef nú á að taka upp þann hátt hér að ákveða eftir einni þáltill. við eina umr., að mjög verulegum hluta sjóðsins, eða allt að helmingi hans, verði nú ráðstafað til ákveðinna hluta sem kannske er full þörf á að gera, ég skal ekki segja um það, það vantar sjálfsagt fé til landbúnaðarframkvæmda, en ég tel, að það geti orkað mjög tvímælis og sé meira en vafasamt að slá á þennan hátt föstu, að svona mikill hluti af sjóðnum skuli festur og þá náttúrlega bundinn frá því að vera ráðstafað til annarra þarfa, sem kannske gætu orðið eins aðkallandi og meira aðkallandi, þegar stundir líða. Ég held þess vegna, að það eina hyggilega í þessu væri það, að hæstv. ríkisstj. athugaði ýtarlega og gerði till. um, hvernig þessum mótvirðissjóði skyldi varið, að svo miklu leyti sem ákveðið væri að verja honum til einhverra ákveðinna hluta og hann ekki beinlínis geymdur til ráðstafana síðar, eftir því sem kynni að þurfa á að halda. Því að þótt það sé þörf á að gera eitt og annað nú, getur kannske orðið enn meiri þörf á að geta síðar mætt erfiðleikum, sem við þekkjum ekki í augnablikinu og kannske enginn veit nema ekki sé hægt að mæta öðruvísi en með þessum sjóði. Ég held þess vegna, að það sé mjög hættulegt að benda á þarfir einnar stéttar eða eins hlutar í sambandi við þennan sjóð, heldur þurfi að skoða þetta út frá öðrum sjónarmiðum og með tilliti til þarfa annarra atvinnuvega, sem gæti komið til mála að sjóðurinn yrði notaður til. Ég tel því fyrir mitt leyti, að tæplega sé hægt að samþ. þessa till., og geri ekki ráð fyrir að greiða henni atkv. Ég held, eins og ég sagði áðan, að þetta mál verði að taka upp á miklu víðari grundvelli og fleiri atriði, sem þar verði að koma til athugunar, áður en slegið verður föstu um ráðstöfun sjóðsins.

Það hefur verið rætt lítillega um formið á þessari afgreiðslu, og hefur það komið fram hjá hv. 1. flm., að þótt þetta sé kannske ekki sú þinglega afgreiðsla málsins, þá skoði hann þetta þó þannig, ef till. verður samþ., að þá sé þetta svo mikil viljayfirlýsing þingsins um ráðstöfun fjárins, að þing, er síðar kunni að fjalla um málið, séu af henni bundin, að minnsta kosti skildist mér það koma fram í ræðu hans hér áðan. Þetta tel ég, að sé mjög vafasamt, bæði að afgreiða hér við eina umr., hvernig fara skuli með um eða yfir 200 millj. úr ríkissjóði, því að í rauninni er þetta ekki orðið annað en einn þáttur úr ríkissjóði, þó að tekjum þessa sjóðs sé haldið aðskildum frá hinum venjulega ríkissjóði, og ég tel einnig vafasamt, að ráðstöfun sjóðsins á þennan hátt samrýmist niðurlagi l. frá 1949, því að þótt það sé ekki sagt berum orðum, finnst mér liggja í orðanna hljóðan, að hér sé ætlazt til þess, að Alþ. setji lög um þær greiðslur, sem ætlazt er til, að inntar verði af hendi úr sjóðnum.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en skal láta þessi fáu orð nægja og ítreka enn, að mín skoðun er sú, að þessu fé eigi að ráðstafa eftir heildarathugun á efnahagsþörfinni, eftir því sem unnt er á hverjum tíma, og vildi segja sem mína skoðun, að ekki bæri að ráðstafa, nema nauðsyn ræki til sérstaklega og óviðráðanlega, nema sem allra minnstu af þessu fé. Það er augljóst, að með fjárveitingum úr þessum sjóði getur Alþ. ráðið, hvernig efnahagsstarfsemin í landinu verður, með því að veita fé út í efnahagskerfið eða draga úr þeirri veitingu.