16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

51. mál, mótvirðissjóður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að mér finnst afgreiðsla þessa máls ætla að verða með allundarlegum hætti. Ég ræddi nokkuð efni þessarar till. í upphafi þessarar umr. og lét þá í ljós þann skilning minn, að þegar búið væri að ráðstafa öllu því fé, sem var í hinum upprunalega mótvirðissjóði, væri mótvirðissjóður í rauninni úr sögunni, þ. e., að þær reglur, sem taldar eru gilda um ráðstöfun fjár úr honum, væru ekki lengur í gildi, og því væri þessi sjóður raunar ekki lengur til. Ég álít, að það verði að koma greinilega fram hér á Alþ., hvort þessi skilningur er ekki réttur. En það gerir það ekki, heldur þvert á móti. Mér finnst einnig, að það sé engin ástæða til þess að fara að samþ. þáltill. um ráðstöfun þessa fjár nú þegar, og mér þykir furðulegt, hve mikil áherzla er á þetta lögð, nema þá að ríkisstj. ætli sér að nota þál. til að gera ráðstafanir, sem ekki verða afturkallaðar. — Ég hef bent á, að ég teldi réttast, að um ráðstöfun þessa fjár yrðu sett sérstök lög, og mér skildist á hv. frsm. meiri hl. fjvn., að lög um þetta væru í undirbúningi. En hvað á þá að þýða að fara að samþ. fyrst þáltill. um þetta, þegar líka er upplýst, að langmestum hluta mótvirðissjóðs er þegar ráðstafað til þriggja stórfyrirtækja í landinu, þannig að það fé, sem þessi þáltill. nær til, er ekki fé úr sjálfum mótvirðissjóði, heldur það fé, sem kemur væntanlega inn, þegar farið verður að endurgreiða þau lán, sem úr honum hafa verið veitt? — Ég mun því greiða atkvæði gegn þessari till., því að ég sé enga ástæðu til þess, að Alþ. fari nú strax að taka ákvörðun um þetta mál. Eins og augljóst er, þá er það algerlega óviðeigandi að slá föstu með einni þál., hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Og í sjálfu sér er það eins óeðlilegt, að þar sé líka gert ráð fyrir og ákveðið, að helmingur mótvirðissjóðsins skuli fara til framkvæmda í þágu landbúnaðarins í landinu. Þetta getur ekki verið ákveðnara orðalag en hér er, eða m. ö. o., því er slegið föstu, að til landbúnaðarins skuli fara helmingur mótvirðissjóðsins. Ég held, eins og tímarnir eru nú, að þá geti enginn okkar sagt fyrir um það, hvað verður mest aðkallandi eftir 5 eða 10 ár eða hver brýnasta þörfin verður fyrir þetta fé, sem ákveðið er hér að renni í þágu landbúnaðarins. Það er þess vegna, sem augljóst er, að þetta fé á að koma og vera laust til ráðstöfunar eftir því, sem þörfin verður fyrir það hverju sinni, og þess vegna er það óviðeigandi og óhyggilegt, sem hér er ætlazt til með einfaldri þáltill., þar sem slegið er föstu, hvernig mótvirðissjóðnum skuli verða varið.

Ég skal enn fremur taka það fram, eftir þær mjög svo skorinorðu yfirlýsingar, sem hæstv. landbrh. gaf hér við 1. umr. þessa máls og voru á þá leið, að ef till. yrði samþ., mundi hann láta framkvæmdina byggjast á því, hvernig samþykktin yrði, og gera ráðstafanir í sambandi við hana, — ef þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., sem ég hef nú ekki tekið alvarlega, á að skoðast sem staðfesting á stefnu stj. í þessu máli, þá get ég haft sama álit á því, að það sé ekki aðeins ákveðið, hvernig því fé, sem nú er í mótvirðissjóði, skuli varið, heldur einnig því fé, sem á eftir að koma í sjóðinn, og vöxtum af því fé.

Ég beini því til hv. þm. að fallast ekki á þessa till. Og ef það er ætlun ríkisstj. að bera fram frv. um þetta efni, — sem ég tel, að hún muni gera, - til hvers er þá verið að samþ. þáltill. þá, sem hér er til meðferðar?

Ég get því ekki greitt þessari till. atkv., eins og hún liggur fyrir. Og ég vænti, að hv. þm. athugi þetta mál betur, áður en þeir greiða þessari till. atkv.