27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég býst við, að hér þyrfti að vera til umr. frv. um rjúpnafriðun eða minka, til að þm. hefðu frelsi til að tala fyrir ríkisstj. Við 2. umr. þessa máls, sem er eitt örlagaríkasta mál, sem fyrir þinginu liggur, höfðu svo að segja engir hv. þm. kynnt sér málið til fullnustu, og ég efast um, að meiri hl. hv. þm. hafi lesið þennan samning. Þegar ég hef rætt um einstök atriði samningsins og borið fram fsp. í því sambandi, hafa engar skýringar verið gefnar, .og meðnm. mínir, sem sjálfir efast um, hvort þeir skilji samninginn, hafa ekki sagt neitt í sambandi við afgreiðslu málsins. Aldrei í þau 14 ár, sem ég hef setið á þingi, hef ég séð aðra eins málsmeðferð á Alþ.

Ég ætla ekki að ræða málið almennt að þessu sinni, ég þykist hafa innt af hendi mína þingmannsskyldu áður hvað það snertir, en ef hæstv. ríkisstj. væri við, væri ástæða til að spyrja hana margs í sambandi við einstök atriði samningsins. Ég mundi t.d. vilja spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún telur, að enn séu í gildi l. nr. 99 frá 16. des. 1943, um ábyrgð ríkissjóðs á tjóni, sem hlýzt af veru herliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi. Það væri fróðlegt að vita, hvort l. eru að áliti hæstv. ríkisstj. enn í gildi eða ekki. Þessi l. hafa aldrei verið numin úr gildi, og það er hart, ef hæstv. ríkisstj. neitar að láta í ljós álit sitt um þetta. Nokkrir nm. hafa talið, að l. væru ekki í gildi lengur, án þess þó að rökstyðja það á neinn hátt, að þau hefðu verið numin úr gildi. Fyrir borgara landsins er hins vegar sú spurning mikilvæg, hvort bætt er fyrir það tjón, sem setuliðið veldur. Hv. frsm. meiri hl. ræddi þetta ekki fremur en annað, hann fór ekki inn á eitt einasta atriði samningsins, og í nál., sem er hv. meiri hl. til skammar, er heldur ekkert á þetta minnzt. Það er nógu leitt að horfa upp á þá niðurlægingu, sem Alþ. bakar sér með þessum samningi, þó að þar komi ekki einnig til, að illa sé gengið frá honum að öllu leyti. Það getur svo farið, að það verði fyrst útkljáð af dómstólunum, hvort l. frá 1943 eru í gildi eða ekki, og þá seint og síðar meir. En það er illa komið, ef ekki er hægt að fá ákvörðun Alþ. um þetta, ekki sízt þegar þess er minnzt, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur misbeitt valdi sínu í sambandi við bátaútvegsgjaldeyrinn. Vegna valds ríkisstj. hefur enginn þorað að fara í mál, því að menn þora ekki að fara í mál á móti ríkisvaldinu með öllum þeim þunga, sem það leggur á dómstólana.

Þá eru það hin svokölluðu samningssvæði, þar sem lögregluvaldið á að vera í höndum bandarísku lögreglunnar. Ég hef spurt, hver þessi samningssvæði séu, en ekki fengið svar. Ég hef spurt, hvort ekki væri rétt að merkja þau, svo að Íslendingar færu ekki inn á amerískt umráðasvæði án þess að vita af, en ekki fengið svar. Ég hef spurt, hvort Keflavíkurflugvöllur væri slíkt samningssvæði, en ekki fengið svar, og ég hef spurt, hvort Kolviðarhóll heyrði undir þessi samningssvæði og hvort hæstv. ríkisstj. hefði hugsað sér fleiri slík hús fyrir vini sína og þær vinkonur, sem hæstv. stj. er að útvega þeim, en ekki fengið nein svör. Samtímis verðum við svo að horfa upp á atburði eins og þá, sem gerzt hafa á Kolviðarhóli, og það er enginn, sem veit, hvað gera skal. Ef til vill er Kolviðarhóll á samningssvæði, ef til vill er hann það ekki.

Ég skal ekki rekja frekar það, sem ég sagði við 2. umr. málsins. Spurningar mínar verða að standa, fáist ekki svör við þeim, og fylgismenn hæstv. ríkisstj. verða að bera ábyrgð á þeirri smán, sem þeir hafa leitt yfir Alþ. í sambandi við afgreiðslu málsins.

Á þskj. 274 hef ég leyft mér að bera fram brtt. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 1. gr. komi ný grein, sem orðist svo: Nú hefja Bandaríki Norður-Ameríku árásarstríð, og skal þá þessi samningur samstundis úr gildi fallinn. Skulu Bandaríkin þá tafarlaust flytja allan her sinn burt af Íslandi.“ Þessi till. er fram komin vegna þess, að samnm. mínir hafa lýst yfir því, að hér sé aðeins um varnarsamning að ræða, og í inngangi samningsins kemur það fram, að hann er hugsaður sem varnarsamningur.

Ég býst ekki við, að neinn hæstv. ráðh. neiti því lengur, að sá möguleiki sé til, að Bandaríkin, þótt heilög séu, hefji árásarstríð, en samkv. þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru í varnarsamningsn., þá hafa þau ekki rétt til þess. Ef þessi till. mín verður samþ. og ef Bandaríkjamenn bregðast þeim trúnaði, sem við höfum sýnt þeim, og hefja árásarstríð, verður dvöl þeirra hér skoðuð sem árás á landið.

Ég gat þess við 1. og 2. umr. þessa máls, að það minnsta, sem Alþ. gæti gert, væri að ganga svo frá þessum samningi, að einhver réttur væri eftirskilinn þeim, er taka eiga við, t.d. næsta þingi, sem ef til vill þarf að standa frammi fyrir þessari staðreynd. Enginn tók þá undir mál mitt. Nú hef ég borið þessa till. fram, til þess að þeir hv. þm., sem telja, að samningurinn sé aðeins varnarsamningur, geti látið það álit sitt í ljós með því að greiða atkv. með till. Annars er hér um herstöð að ræða, án tillits til þess, til hvers hún er notuð, rétt eins og Bandaríkjamenn vildu fá hér árið 1945. Atkvgr. mun skera úr um það, hvað mikla trú hv. þm. hafa á því yfirvarpi, sem hæstv. ríkisstj. hefur notað til þess að fá þetta frv. gert að lögum.