10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur þegar sætt þinglegri meðferð í hv. Nd. og er því hér í seinni deild til athugunar. Í þetta mál var sett sérstök n. fimm deildarmanna. Fjórir standa að áliti meiri hl., en hinn fimmti, hv. 7. landsk., hefur gefið út sérstakt nál. á þskj. 381 og flytur sérstakar brtt. á þskj. 582, og kannast ég við þessar brtt. sem sumt af því, sem hann taldi að þyrfti að koma inn í málið í n. Meiri hl. áleit, að ekki væri þörf á því að gera þess konar breytingar á frv.

Það er vitað, að ástandið í heiminum er þannig, að okkar litla þjóð, sem byggir þetta eyland mitt á milli Ameríku og fastalandsins, getur ekki verið varnarlaus. Loft allt er svo lævi blandið, að enginn veit, hvenær sviptingar kunna að takast milli þeirra, er deila nú, en þegar þær eru hafnar, er orðið of seint að fara að hugsa fyrir vörnum landsins. Af því leiðir, að til þess að geta hrundið árás þarf að vera andstaða í landinu sjálfu, sem hefði tæki til að hrinda árásum á landið. Það er meginatriði málsins, að þetta er nauðsyn, og ég held, að allir hv. þm. muni geta sameinazt um það efni. Það er auðvitað, að við höfum allir lagt niður fyrir okkur þær ástæður, sem eru fyrir því að leyfa útlendum her að dveljast hér í landinu til varna. Og sjálfir sjáum við, að þetta er varnarsamningur, en ekki til að undirbúa eða stofna til árása á aðrar þjóðir. Það má einlægt deila um það, hvað beri að telja varnaraðgerðir, en það er óumdeilanlegt, að sá aðili, sem hefur árásarstríð, er í sökinni. En þungamiðja þessa máls er sú, að við gengum í bandalag þjóðanna. sem myndað hafa varnarbandalag Norður-Atlantshafsríkjanna, og sú staða okkar vita allir Íslendingar að er einn liðurinn í vörnum gegn þeirri aðsteðjandi hættu, sem yfir hinum frjálsa heimi vofir.

Íslendingar hafa allt fram á síðustu ár látið nægja að lýsa yfir hlutleysi sínu. En það kom í ljós í síðustu styrjöld, að þetta hlutleysi eitt nægði okkur ekki og það var rofið og það ekki af óvini, heldur af vinaþjóð, sem taldi það nauðsynlegt að hersetja landið, þar sem þjóð okkar gat ekki verndað landið. Og þó viljum við heldur þessa hersetu heldur en að hafa landið varnarlaust í ókominni styrjöld, sem búast má við að komi, en í henni höfum við enga tryggingu fyrir því, að okkar hlutleysi verði virt. Þetta varð ljóst í síðustu styrjöld, og það hefur haft áhrif á hugi manna til þess að skipa landinu í fylkingu lýðfrjálsra þjóða, sem hafa bundizt heitum um að standa á verði um frelsi sitt og lönd og þjóðerni. Þegar svo Íslendingar eru þess ekki umkomnir að verja land sitt sjálfir, verða þeir að hverfa að því ráði, að aðrir haldi hlífiskildi yfir þeim, og reynsla okkar úr síðasta stríði sannar, að þetta er sú eina leið, sem við getum farið.

Hv. 7. landsk. þm., Finnbogi R. Valdimarsson, hefur á sinn rökfasta hátt, eins og hans var von og vísa, dregið fram þau atriði, sem hann telur helzt vera til gagnrýni á þeim samningi, sem gerður hefur verið. Ég skal játa, að ég hef ekki getað kynnt mér nál. hans á þskj. 381, því að því var útbýtt í byrjun þessa fundar. Ég hef þess vegna aðeins gripið niður í það, en ekki getað kynnt mér það í ró og næði, þar sem stöðugar umr. hafa verið hér síðan fundur hófst. En ég rak strax augun í það, að hann segir, að með þessum samningi sé fullveldi okkar skert.

Það er nú svo, að það eru nokkuð mörg ríki, sem hafa orðið að skerða nokkuð sitt sjálfstæði í þessu skyni. Ég á þar við þau lýðfrjálsu ríki, sem líta á sameiginlega hagsmuni þeirra allra til að halda sjálfstæði sínu óskertu. Og þess er að geta í þessu sambandi, að viðhorfin hafa breytzt á síðustu árum. Það er hættan frá einræðisríkjunum, sem hefur gert það að verkum, að þessi sömu lönd hafa orðið að leyfa ýmsar aðgerðir í sínum heimalöndum og ganga í bandalög og gera samninga, sem segja má að skerði þeirra sjálfsforræði, eins og á það var litið áður en hið austræna einræði fór að ögra friðnum í heiminum. En sé það svo, sem ég skal ekki dæma um, að þessir samningar skerði á einhvern hátt sjálfstæði þeirra, þá er það gert til þess að varðveita hið raunverulega sjálfstæði þeirra, varðveita líf þessara þjóða, varðveita þær fyrir skyndiárásum óvinaherja og til þess að þær þurfi ekki að vera beittar ofbeldi og kúgun.

Ég skal svo ekki hafa miklu fleiri orð um þetta. Þær till., sem hv. 7. landsk. þm. leggur fram, eru svipaðs eðlis og þær till., sem meiri hl. hlaut að hafna á nefndarfundum, og get ég þess vegna ekki annað en lagt á móti þeim og heiti á hv. þm. þessarar hv. deildar að samþykkja frv. óbreytt.