09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3471)

124. mál, landtökuviti á Norðausturlandi

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 244, fjallar um það að fela hæstv. ríkisstj. að hlutast til um, að hið bráðasta verði reistur öflugur landtökuviti á Norðausturlandi, á þeim stað, sem kunnáttumenn telja bezt til þess fallinn.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu siglingar allar eru erfiðar hér við land við þessa löngu og vogskornu strönd og við þau veðurskilyrði, sem við á þessari norðlægu breiddargráðu eigum við að búa, og því er mönnum ljós nauðsyn þess, að gert sé allt, sem hægt er, til þess að auðvelda þessar siglingar, bæði verzlunarflotanum og öðrum skipum, sem hér þurfa að taka land á hvaða árstíma sem er og í hvaða veðri sem er, og ekki hvað sízt hinum stóra veiðiskipaflota, sem við Íslendingar eigum og stundar veiðar hér á ýmsum tímum ársins.

Það ber að viðurkenna og þakka, að ýmislegt hefur verið gert hér til þess að auðvelda sjófarendum störf sín og siglingar á þessum svæðum með því vitakerfi, sem komið hefur verið hér upp við strendur landsins. En betur má, ef duga skal, og ýmislegt þarf hér enn að gera til þess að auðvelda siglingar og létta sjómönnunum hin erfiðu störf sín, og það þarf að bæta möguleika þeirra á því að ná hér landi í slæmum veðrum, eins og við höfum nærtæk dæmi um nú síðustu dagana.

Það er nú svo, að auk þess, sem gert hefur verið í vitamálum og ég áður nefndi, þá hefur verið lagt nokkurt kapp á það undanfarið að búa skipin ýmsum sjálfsögðum öryggistækjum. Auk venjulegra siglingatækja mun það vera nokkuð algeng regla, að skip, sem smíðuð eru hér eða keypt hingað, séu búin dýptarmælum og miðunartækjum. En til þess að þessi miðunartæki komi bátum og skipum að notum, þá þurfa að vera samsvarandi tæki í landi, radiovitar, sem skipin geta náð til með þessum tækjum sínum og ákveðið stöðu sína hverju sinni. Á þessu er tilfinnanlegur skortur, því að eftir því sem mér er kunnugt, þá hafa slíkir radiovitar ekki verið reistir nema við Suðvesturlandið, við Reykjanes og Faxaflóa, og er það gott, það sem það nær. En það kemur ekki að notum þeim bátum og skipum, sem stunda siglingar og fiskveiðar við aðra landshluta, en eins og kunnugt er, þá eru mörg skip, sem þurfa að leita lands svo að segja alls staðar umhverfis landið, bæði flutningaskip og ekki síður hinn stóri floti fiskveiðiskipa, sem við nú höfum. Og á seinni árum hefur þörfin fyrir slíka vita annars staðar en hér á Suðvesturlandi farið mjög í vöxt, eftir því sem veiðiskipunum hefur fjölgað og vegna þess að togaraútgerð hefur risið upp víða annars staðar en hér á Suðvesturlandi og þar sem skip þessi þurfa að leggja úr höfn og leita til hafnar víðs vegar á landinu. Ég vil undirstrika það, að vegna þess, hve síldin hefur á undanförnum árum legið djúpt út frá Norður- og Austurlandinu, þá er vegna síldveiðanna mikil þörf á því að fá betri landtökuskilyrði á þeim slóðum, meðan á síldveiðunum stendur, en þarna við Norðausturland hafa síldveiðiskipin aðallega stundað veiðar sínar á undanförnum árum. Það gefur að skilja, að fyrir skip, sem eru að leita síldar langt undan landi og eru búin að sigla sitt á hvað án þess að hafa nokkra landsýn og þurfa síðan að leita lands, e. t. v. í svartaþoku, sem þarna er mjög tíð, og í misjöfnu veðri, — að þá getur verið torvelt fyrir þau að ákveða stöðu sína, enda þess mörg dæmi, að menn hafi þá átt erfitt með að átta sig á því, hvar skip þeirra voru stödd, og af þeim ástæðum átt í erfiðleikum með að ná landi þar, sem þeim hentaði bezt. Úr þessu mundi verða mjög mikið bætt, ef reistur væri radioviti á Norðausturlandi. Ég vil ekki tilgreina eða ákveða neinn stað í því sambandi, heldur leggja það undir dóm sérfróðra manna. sem ríkisstj. tilnefndi. Þetta mundi verða mjög til bóta fyrir síldveiðiflotann og önnur þau skip, sem þarna þyrftu að leita lands.

Þótt ég hafi að sjálfsögðu talað sérstaklega um veiðiskipin í þessu sambandi, þá eru siglingar bæði kaupskipa og flutningaskipa tíðar utanlands frá til Norður- og Austurlandsins og því mikil þörf vita þarna fyrir slíkar siglingar.

Ég tek það fram, að þótt ég miði hér við það, að reistur sé slíkur viti á Norðausturlandi, þá þarf einnig slíkan vita á Vesturlandi fyrir togaraflotann, sem veiðar stundar á Halanum, en það munu þó vera fleiri skip, sem gagn hefðu af vita, sem reistur væri á Norðausturlandi.

Þetta mun kosta nokkurt fé, og tekur nokkurn tíma að koma upp slíku vitakerfi, en það er nokkur ávinningur, ef stigið yrði eitt skref til viðbótar í þá átt, svo sem hér er gert ráð fyrir, með því að reisa slíkan vita á Norðausturlandi.

Ég vænti því þess, að þessari till. verði vel tekið, og vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til allshn., en ég tel ekki þörf á því, að hún fari til fjvn. Þó að það að sjálfsögðu kosti mikið fé að reisa vitann, þá er ekki gert ráð fyrir því, að framkvæmdir verði hafnar á þessu fjárhagsári, heldur að ríkisstj. og vitamálastjóri sjái svo um, að á þessu ári verði hafinn undirbúningur að framkvæmdum, sem svo gætu hafizt 1953, og þá hægt að taka upp fjárveitingu til framkvæmdanna á fjárlögum næsta árs. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess, að fjvn. fjalli um þessa till. á þessu stigi, og legg ég til, að till. verði vísað til hv. allshn.