31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3534)

180. mál, olíu- og bensínverð

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans, en ég verð að segja, að þau eru hvergi nærri tæmandi. Það voru mér sérstök vonbrigði, að hann skyldi ekki geta lýst því yfir hér í Sþ., að farið hafi verið eftir óskum Alþ. um jöfnunarverð á þessum vörum. Vilji Alþ. kom skýrt í ljós í þessu máli, og er sannarlega orðið tímabært að gera eitthvað til að koma þessu á. — Í þessu sambandi má benda á, að s. l. 20 ár hafa allar þungavörur, sem fluttar hafa verið til landsins á vegum Eimskipafélags Íslands, verið fluttar til allra staða á landinu á sama flutningsgjaldi og til Reykjavíkur. Það er undarlegt, ef ekki er hægt að haga þessu eins með olíur og benzín. Það er ekki rétt að láta það vera áfram óhagstæðara að reka fyrirtæki úti á landi vegna þess, að byggðar eru olíustöðvar í nánd við Reykjavík.

Ég vona, að ríkisstj. taki þetta til athugunar og sjái sér fært að koma á jöfnunarverði á olíum og benzíni.