12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

122. mál, rannsókn gegn Helga Benediktssyni

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af 1. lið fsp. vil ég svara því, að með bréfi þáv. viðskiptanefndar til dómsmrn., dags. 2. júní 1948, tilkynnti n., að með skipum Helga Benediktssonar, Vestmannaeyjum, m/s Helgu VE 333 og m/s Helga Helgasyni VE 343, hafi verið fluttar til landsins vörur, er engin innflutningsleyfi hafi verið gefin fyrir, svo sem hljóðfæri og glervörur. N. hafi ekki tekizt að afla fullnægjandi gagna um innflutning þennan og hafi hún því ákveðið að senda rn. málið.

Um þetta leyti var þáv. bæjarfógeti í Vestmannaeyjum, Sigfús M. Johnsen, mjög hlaðinn störfum, svo að sýnt þótti, að hann mundi eiga erfitt með að annast þessa rannsókn. Var því Gunnar A. Pálsson lögfræðingur skipaður til þess með sérstakri umboðsskrá, dags. 13. júlí 1948, að framkvæma rannsókn í máli þessu, enda hafði Gunnar þá haft með höndum rannsókn ýmissa mála varðandi innflutning, m. a. rannsókn á starfi viðskiptaráðs, og hafði því mikla reynslu í rannsókn slíkra mála. Umboðsskrá þessi náði eingöngu til þess að rannsaka innflutning nefndra skipa Helga Benediktssonar á tímabilinu frá 1. maí 1948 til dagsetningar umboðsskrárinnar, 13. júlí sama ár.

Við þessa rannsókn kom margt í ljós, er þótti benda til, að um mun víðtækari brot væri að ræða, svo sem gjaldeyrisbrot í sambandi við greiðslu á hinum innfluttu vörum og gjaldeyrisvanskil, verðlagsbrot, rangar skýrslur til yfirvaldanna, innflutning á vörum án tilskilinna leyfa, tolllagabrnt o. fl. Þótti því rétt að víkka starfssvið rannsóknardómarans, og var það gert með viðbótarumboðsskrá, dags. 5. júlí 1950, og jafnframt ákveðið samkv. ábendingu rannsóknardómara, að fram skyldi fara ýtarleg rannsókn á bókhaldi Helga Benediktssonar árin 1948, 1949 og 1950. Bókhaldsrannsókn þessari er nú nýlega lokið, og hefur rannsóknardómari sent rn. málið til fyrirsagnar.

Í sambandi við 2. lið fsp. vil ég segja það, að mér er ekki kunnugt um ósæmilega og vítaverða framkomu setudómara og aðstoðarmanna hans gagnvart rannsóknarþola við meðferð málsins. Ég tel að vísu, að um of hafi orðið dráttur á málinu, og hef fundið að honum við dómarann, en er þó sannfærður um, að enn meiri dráttur hefði orðið, ef málið hefði verið tekið af dómaranum og fengið öðrum, enda hefur dómarinn fært ýmsar ástæður fyrir drættinum, sem á sínum tíma verða eflaust metnar af æðra dómi, ef málinu verður haldið áfram, t. d. það, hve málið sé umfangsmikið, veikindi endurskoðanda o. fl. Og ég vil sérstaklega taka fram í þessu sambandi, að á þessu ári hefur ekki staðið á rannsóknardómaranum, þó að hann hafi haft öðrum störfum að gegna að nokkru leyti, heldur á bókhaldsrannsókninni. Ég hef niðurstöðuskýrslurnar hér með höndum, og er auðséð, að það er ekki lítið verk að semja þær né auðvelt að brjótast fram úr rannsóknarefninu. (Hampar fyrirferðarmiklum skýrslum.) Þetta eru nú skýrslurnar um niðurstöðurnar, og má nærri geta, hve fljótlegt hefur verið að semja þær, hve auðvelt hefur verið að brjótast fram úr því verkefni að komast til botns í bókhaldi þessa umfangsmikla fyrirtækis. Hér eru ljósmyndir af nokkrum síðum í bókhaldi þessa fyrirtækis, og er mönnum heimilt — a. m. k. fyrirspyrjanda — að athuga það og átta sig á því, hvort hann ætti ekki, svo samvizkusamur sem hann er, að draga nokkuð úr stóryrðum sínum, sem hann viðhafði í ræðu sinni varðandi þá rannsókn, sem hér er um að ræða, þegar hann væri búinn að renna augunum yfir það mikla verk, sem hér hefur verið af hendi leyst.

Að öðru leyti skal ég ekki á neinn hátt dæma um efni málsins, það verður gert á sínum tíma. Og þó að þessi fsp. og nart í mig í vissum blöðum gæfi mér tilefni til að ræða um þetta miklu frekar og fara inn á þau sakarefni, sem hér er um að ræða, þá get ég það ekki, vegna þess að málið er ekki enn þá á því stigi, að það sé mitt að skýra frekar frá því né heldur kveða á um það, hvort hér sé um sekt eða sakleysi að ræða, heldur verða það vitanlega að vera dómstólarnir á sínum tíma, ef ástæða þykir til málshöfðunar.

Þó að mál þetta sé jafnörðugt til rannsóknar og raun ber vitni, er ég þeirrar skoðunar, að það hefði mátt ljúka því á eitthvað skemmri tíma. Þó verður að játa, að ýmis önnur mál út af gjaldeyrisvanskilum hafa líka dregizt mjög mikið í meðförum dómenda. T. d. var eitt slíkt mál kært af viðskiptanefnd 23. ágúst 1949 til sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, en endanleg rannsókn á því máli barst dómsmrn. ekki fyrr en 27. okt. s. l., eftir eftirrekstur af minni hálfu, og er þar um að ræða ólíkt einfaldara og óbreyttara mál en þetta.

Ég vil og skjóta því hér inn í, — því þótt það sé ekki sagt berum orðum, liggur það þó í þessari fsp. og þeim ummælum, sem hér hafa verið viðhöfð, að hér sé um einhverja pólitíska áreitni við Helga Benediktsson að ræða, — að ég hygg, að í þessu gjaldeyrismáli, sem ég síðast nefndi, þar sem rekið var á eftir af minni hálfu, eigi flokksbróðir minn hlut að máli. Og yfirleitt er það nú svo, að segja má, að daglega sé framkvæmd málshöfðun eftir fyrirskipun dómsmrn., og kemur auðvitað ekki til mála, að það sé farið eftir flokkslegum sjónarmiðum, heldur eingöngu eftir því, hvaða sakarefni standa til hverju sinni.

En ég vil segja það hér, að gefnu tilefni, að ég tel nauðsynlegt, að ráðstafanir verði gerðar til þess að flýta meir meðferð opinberra mála en lengi hefur tíðkazt hér á landi, og mun ég gera ráðstafanir til þess, ef ég verð áfram í þessari stöðu, og hef raunar hafið undirbúning þess.

Einnig má á það benda, eins og fram kemur í 1. tölul. hér að framan, að rannsókn þessa máls hefur leitt í ljós æ fleiri sakarefni, og nú síðast 9. nóv. s. l. barst rn., að vísu alveg óháð þessari rannsókn, kæra frá núverandi verðlagsstjóra þess efnis, að trúnaðarmenn hans hafi staðreynt töluvert umfangsmikil verðlagsbrot hjá Helga Benediktssyni á tímabilinu eftir að viðbótarumboðsskráin var gefin út til 10. júlí 1951, og er nú til athugunar, hvað gert skuli af þessu tilefni.

Ég skal svo taka fram, að tveir starfsmenn verðlagsstjóra, sem sendir voru til aðstoðar við rannsókn málsins, hegðuðu sér að starfi sínu loknu öðruvísi er vera bar, og hefur mál verið höfðað gegn þeim af því tilefni, og kemur það þessu máli út af fyrir sig ekki við, en þeim mönnum hefur engin linkind verið sýnd, og ég mun hlutast til um það, að þeir komi ekki framar nærri meðferð þessa máls.

Mér hefur ekki borizt nein sú vitneskja, sem réttlæti að taka málið úr höndum dómarans, og tel ég á engan hallað, þótt sagt sé, að nokkuð mikla trúgirni þurfi til þess að trúa frásögn Helga Benediktssonar um þessi efni. Vil ég almennt lýsa því yfir og án sérstakrar hliðsjónar af þessu máli, að það er mjög varhugavert, ef ráðh. skiptir um dómara að vild sinni. Sakborningurinn hefur hins vegar í hendi sér, jafnt í þessu máli sem öðrum, að krefjast úrskurðar dómara um, að hann víki sæti í máli, sbr. 124. gr. l. um meðferð opinberra mála, nr. 27 1951, og mætti síðan kæra þann úrskurð til hæstaréttar, að uppfylltum skilyrðum 171. gr. sömu l., þannig að sakborningurinn hefur auðvitað réttarvernd samkv. l. í þessu tilfelli sem öðrum og þarf ekki að una því, ef með mál fer dómari, sem af einhverjum ástæðum hefur gert sig óhæfan til meðferðar þess. En væntanlega er öllum þm. ljóst, að það er miklu eðlilegra, að dómstólar kveði á um slíkt, en ekki dómsmrh. hverju sinni.

Að öðru leyti fagna ég því, að þessi fsp. kom fram, því að hún hefur gefið mér tækifæri til að leiðrétta mishermi, sem hefur átt sér stað um þetta mál.