02.10.1951
Sameinað þing: 1. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Frá því Alþingi var slitið síðasta vor hafa gerzt þau tíðindi í landi voru, að stjórnarskrá lýðveldisins hefur verið brotin af ríkisstj. og landið verið ofurselt erlendum her, sem að undirlagi ríkisstj. hefur hernumið landið.

Alþingi hafa með þessu stjórnlagarofi verið settir tveir kostir. Annar er sá að sætta sig við framið ofbeldi. En engin aðgerð Alþingis eftir á getur löghelgað þann verknað, sem valdhafarnir auðsjáanlega óttuðust að aldrei fengist drýgður, ef þing og þjóð yrðu látin ráða því áður að lögum. Alþingi getur tekið þennan kost og þar með kropið valdinn, svo sem það gerði á niðurlægingartíma þjóðar vorrar hinum fyrra. En aldrei getur það afsalað þjóðinni þeim rétti, sem hún var rænd með stjórnlagarofinu og hernáminu 5.–7. maí, réttinum til að ráða landinu og byggja það ein og frjáls.

Hinn kosturinn er sá að ómerkja aðgerðir ríkisstj. og ógilda þar með þann hernámssamning, sem hún gerði við eitt sterkasta herveldi heims, eftir að hafa árum saman þegið fjárgjafir af ríki því og gert íslenzka ríkið þeim fjárgjöfum háð að hennar áliti. — Þessi er sú leið, sem þjóð og þing fyrr eða síðar munu velja.

Baráttan á Alþingi mun því héðan af fyrst og fremst mótast af því markmiði, svo sem var á undanförnum öldum, að endurheimta til þings og þjóðar fullt vald yfir landinu og algert fjárforræði í hendur þjóðarinnar. Barátta Íslendinga mun því beinast fyrst og fremst gegn því herveldi, sem lagt hefur undir sig landið, og þeirri landsstjórn, sem það heldur uppi með fé sínu og segir fyrir verkum.

Ég vil lýsa yfir því fyrir hönd Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins í byrjun þessa þings, að þeirri baráttu verður haldið áfram, unz sigur er unninn og hið erlenda herveldi verður að sleppa tökum á þjóð vorri og innrásarher þess að hrökklast burt af landi voru fyrir einhuga kröfum vopnlausrar, en sameinaðrar þjóðar vorrar.

Þessa yfirlýsingu vildi ég flytja hinu fyrsta Alþingi lýðveldisins, sem nú hefur störf sín í hernumdu landi á friðartímum.