04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru nokkuð svipuð vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þennan bátagjaldeyri frá því fyrsta til hins síðasta. Þessi fundur var boðaður með klukkustundar fyrirvara og fjöldi þm. ekki kominn til þings og aðrir þm. forfallaðir, t. d. form. Alþfl. Þessi vinnubrögð eru talandi tákn um bjargráð ríkisstj. í heild, og fer vel á því, að þeim sé haldið áfram. (Atvmrh.: Það var ekki hægt að gefa yfirlýsingu um þetta í gær vegna Alþýðuflokksmanna.) En að tilkynna fundinn með hæfilegum fyrirvara? Það er óskiljanlegt, hvers vegna ríkisstj. boðar fund með einnar klukkustundar fyrirvara. Og svo mikið hefur legið á, að ekki hefur einu sinni gefizt tími til að prenta dagskrá. Nema ríkisstj. óski, að menn komi sem minnst undirbúnir á fundinn, og er það einna sennilegasta skýringin á þessu hjá ríkisstjórninni.

Þegar tilkynning var gefin út á síðasta vetri um bátagjaldeyrinn, þá létum við Alþýðuflokksmenn í ljós vafa um, að heimild væri fyrir hendi til að taka þessa aðferð upp. Og síðan fengum við þá skoðun okkar staðfesta, að þetta væri óheimilt. Við litum einnig svo á, að þetta væri brot á öllum þingreglum og venjum. Hæstv. ríkisstj. lét þess þá getið, að hér væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Nú er hér flutt tilkynning um, að svo hafi verið um samið, að bátagjaldeyririnn skuli halda áfram, þó með nokkrum breyt. Nú er ekki lengur um neina bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Nú er svo komið, að þessi háttur er hafður á, að gefa vissum mönnum einokun á nokkrum vörum, sem eru orðnar fastur liður í innflutningsverzluninni. Dettur nú nokkrum hv. þm. í hug, að unnið verði að því að fella þessar ráðstafanir niður, án þess að fella gengið í heild?

Í þessu sambandi er rétt að minna á, að þegar ríkisstj. bar fram frv. um gengislækkun árið 1950, þá var í því grein þess efnis, að gengisskráningunni væri hægt að breyta án samþykkis Alþingis. Þessi grein var felld úr frv. á Alþingi. Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera síðan, er að haga svo framkvæmdum í þessu máli, að hún komi fram gengislækkun án þess að spyrja Alþingi, eða gera gengislækkunina óhjákvæmilega. Þetta er hæstv. ríkisstj. að gera með einföldum stjórnarráðstöfunum, án þess að leita samþykkis Alþingis. Hún er að gera þau lög, sem Alþingi setur, að engu.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um afleiðingar bátagjaldeyrisins í heild sinni og þeirrar yfirlýsingar, sem hér er boðuð. Afleiðingin er einasta sú, að vörur hækka í verði og framfærslukostnaðurinn eykst. Og kaupgjaldið hlýtur að hækka, eftir því sem framfærslukostnaðurinn eykst. Þetta er það, sem ríkisstj. gerir og heldur að muni bjarga útgerðinni.

Hæstv. ráðh. lét þess ekki getið, hvað innfluttar vörur næmu miklu. Hann taldi upp vörur, en gaf ekki neinar upplýsingar um, hvað væri heildarinnflutningur landsmanna. Í fyrra var gert ráð fyrir því, að bátagjaldeyririnn næmi 17% af innflutningi landsmanna. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað er tilsvarandi nú, hvað er stór kvóti, sem þarf að nota, hvað nemur það miklu af vöruinnflutningnum og hvað miklu af heildarinnflutningi landsmanna? Og ef hæstv. ráðh. er búinn að taka þetta saman, þá er hann fær um að veita upplýsingar um annað atriði í sambandi við þetta, sem skiptir miklu máli, og það er: Hvert rennur þetta fé, sem af landsmönnum er tekið með þessu fyrirkomulagi? Skýrsla liggur fyrir um það, að það er ekki nema lítill hluti af því, sem rennur til útgerðar landsmanna. Verulegur hluti rennur til hraðfrystihúsa, en stærri hluti rennur til greiðslu til heildsala, sem vörurnar kaupa og flytja inn og leggja á ótakmarkað. Það er óhætt að fullyrða og leiða rök að því, að það er ekki nema lítill hluti, sem rennur til útgerðarmannanna sjálfra. En aukinn kostnaður við framleiðsluna, sem leiðir af vöruverðinu, kemur með fullum þunga á framleiðendurna sjálfa, þó að þeir fái ekki nema lítinn hluta af því, sem tekið er. Sjómenn hafa fram að þessu verið sviptir umráðarétti yfir hlut sínum. Það er vitað og viðurkennt, að sú sjálfsagða regla, að hlutarsjómenn fái hlut sinn greiddan, hefur verið brotin á undanförnum árum. Mér virðist bersýnilegt, að hér sé spádómur okkar Alþýðuflokksmanna að rætast, er við sögðum fyrir, þegar gjaldeyrislögin voru samþ., sem til þessa eru ekki annað er áframhaldandi gengislækkun, sem sett er frá ári til árs. Ég trúi ekki, að ríkisstj. sé svo skammsýn, að hún geri sér þetta ekki ljóst. Sennilegasta skýringin á þessu er sú, að ríkisstj. telji, að gengisskráningin eigi ekki að vera lögákveðin, heldur í höndum ríkisstj. sjálfrar.

Hæstv. ráðh. fullyrti í sinni ræðu, að með þessum aðferðum væri ekki um brot á gjaldeyrisl. að ræða, eins og hann orðaði það, og var ekki annað að skilja á honum en að hann hefði þau ummæli frá stjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þarf ekki að segja, að um slíkt geti stjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagt, hvort þetta sé brot á íslenzkum l. eða ekki. Gjaldeyrissjóðurinn getur ekki sagt um, hvort þessi framkvæmd brýtur í bága við íslenzk lög, sem sagt gjaldeyrislögin.

Hæstv. ráðh. lét þess getið, að öruggur þingvilji stæði að baki þessari framkvæmd. Ég dreg ekki í efa, að hæstv. ráðh. hafi kynnt sér það.

Hæstv. ráðh. gat um þá skýringu á þessu, að óhyggilegt væri að ræða þetta fyrir opnum tjöldum, því að það gæfi tækifæri til gróðabrasks. Því er til að svara, að tvívegis hefur gengið verið lækkað, og hefur þetta mál þá tekið marga daga til umr. hér á Alþ., og gaf það ekki nein tilefni til misjafnra aðgerða.

Ég sagði áðan, að við Alþýðuflokksmenn hefðum fullkomnar sannanir fyrir hendi um, að þessar reglur væru settar í heimildarleysi, og hef ég ásamt fleiri Alþýðuflokksmönnum leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 536, sem útbýtt hefur verið í Nd. í dag. Þar er lagt til, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að bera undir Alþingi til samþykktar eða synjunar reglur þær, sem hún hefur sett varðandi ráðstöfunarrétt útvegsmanna á gjaldeyri þeim, er þeir fá fyrir tilteknar bátaafurðir, svo og allar breytingar, sem gerðar kunna að verða á þessum reglum.

Ég leyfi mér að vona, að þar sem hæstv. ríkisstj. telur sig örugglega hafa meiri hluta þingvilja að baki til þessara ráðstafana, þá fari hún ekki á svig, en leggi þetta mál að forminu til fyrir Alþingi.