01.10.1951
Sameinað þing: 1. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

Minning Björns Bjarnarsonar

Aldursforseti (JörB):

Frá því er síðasta þingi sleit hefur einn fyrrv. alþingismaður látizt, Björn Bjarnarson í Grafarholti, í hárri elli eða nærri hálftíræður. Hann andaðist að heimili sínu 15. marz síðastliðinn, og vil ég minnast þessa merka manns nokkrum orðum.

Björn Bjarnarson fæddist 14. ágúst 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit, og voru foreldrar hans Björn síðar bóndi í Vatnshorni í Skorradal Eyvindssonar bónda á Syðri-Brú í Grímsnesi Hjartarsonar og kona hans Solveig Björnsdóttir prests á Þingvöllum Pálssonar. Björn fluttist barn að aldri með foreldrum sínum að Vatnshorni og ólst þar upp. Ekki naut hann neinnar fræðslu í æsku fram yfir það, sem þá tíðkaðist í sveitum landsins, en hugur hans hneigðist snemma að því að afla sér menntunar af eigin rammleik með lestri góðra bóka, og ástundun hans og hæfileikar þokuðu honum svo áfram, að hann réðst í það 22 ára að aldri af litlum efnum að fara til Noregs og stunda þar búnaðarnám í búnaðarskólánum á Stend, en það gerðu nokkrir Íslendingar á þeim árum. Við það nám var hann í tvö ár, 1878–1880. Síðan dvaldist hann í Danmörku um eins árs skeið og vann þar að landbúnaðarstörfum, hvarf síðan heim til Íslands og hafði á hendi næstu árin leiðbeiningarstarfsemi um jarðabætur á vegum Búnaðarfélags Suðuramtsins.

Árið 1884 reisti hann bú að Hvanneyri í Borgarfirði og hóf þá þegar margs konar undirbúning að stofnun búnaðarskóla þar. Er talið, að hann sé frumkvöðull að stofnun þess skóla, er þar reis á fót nokkrum árum síðar. Árið 1886 fluttist hann búferlum að Rauðará við Reykjavík og bjó þar í eitt ár, fluttist þaðan upp í Mosfellssveit, að Reykjakoti, sem nú nefnist Reykjahvoll, og var lengi kenndur við þá jörð. Þar bjó hann í 12 ár, en keypti 1898 jarðirnar Gröf og Grafarkot í sömu sveit og sameinaði í eina jörð, Grafarholt. Þar bjó hann búi sínu í 21 ár, en lét það í hendur syni sínum 1919 og dvaldist siðan á því heimili til æviloka.

Björn gerðist snemma áhugamaður um hvers konar framfarir í búnaði, verzlunar- og félagsmálum, lét yfirleitt mjög til sín taka í fjölmörgum málum, er honum þótti varða almenningsheill, svo sem í stjórnmálum og menningarmálum, og ritaði margt á langri ævi um skoðanir sínar og hugðarefni. Um langa hríð var hann forustumaður sveitar sinnar í flestum greinum, var hreppsstjóri og sýslunefndarmaður í 40 ár, formaður búnaðarfélags sveitarinnar í aldarfjórðung og átti um nokkurra ára skeið sæti í stjórn Búnaðarsambands Kjalarnesþings og á búnaðarþingi. Í hreppsnefnd og skattanefnd átti hann og lengi sæti. Fyrir 59 árum,1892, kusu Borgfirðingar hann á þing, og felldi hann þá frá kosningu Grím Thomsen skáld á Bessastöðum, er verið hafði þingmaður Borgfirðinga um alllangt skeið. ekki sat Björn nema á einu þingi að því sinni, 1893, en það var rofíð vegna stjórnarskrárbreytingar. Borgfirðingar kusu hann öðru sinni á þing árið 1900, og átti hann einnig að því sinni ekki sæti nema á einu þingi (1901), því að það var einnig rofið, og sat ekki nema á þessum tveim þingum, þótt oft byði hann sig fram.

Eins og getið hefur verið, lét Björn Bjarnarson mörg þjóðfélagsmál til sín taka, var ódeigur að brjóta upp á ýmsum nýjungum, einkum í landbúnaði, og hélt skoðunum sínum fast fram í ræðu og riti. Nefna má meðal annars, að hann var einn forgöngumanna að stofnun Sláturfélags Suðurlands. Hygginn þótti hann og ráðhollur í fjármálum og reikningsmaður glöggur. Hann var skipaður í ríkisgjaldanefnd 1927 og var endurskoðandi sýslusjóðsreikninga, Búnaðarfélags Íslands og Mjólkurfélags Reykjavíkur um langt árabil.

Um Björn í Grafarholti má segja, að hann batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Mörgum þótti hann nokkuð einstrengingslegur og sérvitur, eins og oft vill verða um gáfaða og sjálfmenntaða skapfestumenn. En mikið og merkilegt ævistarf liggur eftir þennan bónda, sem alltaf var hugsandi og skrifandi fram til hinztu stundar um landsins gagn og nauðsynjar. Auk fjölmargra blaðagreina og annarra rita, sem fyrir almenningssjónir hafa komið, lét hann eftir sig í handriti endurminningar og upptíningsbækur, alls hátt á þrettánda hundrað blaðsíður í fjögurra blaða broti, smátt skrifað, og munu þær hafa margvíslegan fróðleik að geyma.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að votta minningu þessa mikilhæfa manns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]