13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vissi áður um afstöðu hv. þm. Barð. til þessa máls og gerði því ekki ráð fyrir því, að hann mundi styðja það.

Það er slæmt, að hv. n. hefur ekki fengið þessar skoðunargerðir, því að þær liggja fyrir, n. þarf auðvitað að fá þær til athugunar. Þessir menn voru líka beðnir að segja til um það, hvort rétt væri að gera við skipin og hvað til þess þyrfti, að hægt væri að gera þau út á veiðar. Ég man, að niðurstaðan var sú, að þegar þessari aðgerð væri lokið, töldu þeir, að skipin væru í allgóðu lagi. Ég mun leyfa mér að senda öll skjöl varðandi málið til hv. n., svo að hún geti kynnt sér þau.

Það kann að vera, að jafnfróður maður um þessi mál og hv. þm. Barð. telji, að átt hefði að spyrja á annan hátt en gert var, en ég fullyrði, að það loforð var uppfyllt að leita til sérfróðra manna. Um það er enginn ágreiningur innan ríkisstj.

Ég skal svo ekki deila frekar um þetta mál Það er öllum ljóst, að hér er um neyðarúrræði að ræða til þess að bjarga við atvinnulífinu á þessum stöðum.

Varðandi það, að lögin um Höfðakaupstað heimili ekki ríkisstj. að verja fé til þessara togarakaupa, vil ég geta þess, að leitað var umsagnar lögfræðinga um þetta atriði og þeir fullyrtu, að svo væri.

Annað sé ég ekki ástæðu til að taka fram, en ég mun, eins og ég áður sagði, gera ráðstafanir til þess, að öll skjöl varðandi málið verði send hv. n., svo að hún geti athugað þau.