22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þótti satt að segja framsöguræða hæstv. fjmrh. um þetta mál vera nokkuð stutt. Þetta er nú í þriðja sinn, sem verið er að setja ákvæði um þennan síhækkandi og þunga skatt, söluskattinn, og venjulega hafa nokkur orð verið látin fylgja með um það, hvernig fyrirhugað væri að verja þessum skatti, og um leið, að þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun til að létta undir með atvinnuvegunum og vinna gegn dýrtíð í landinu og við þetta þyrfti ekki lengi að búa, þetta væri neyðarúrræði. Ég skil því varla, að nokkur efist um það, og það jafnvel ekki hæstv. ríkisstj., að ástandið í landinu er nú orðið svo, að gjaldþoli almennings er algerlega ofboðið. Það er ekki hægt fyrir fólkið í landinu að rísa undir þeim álögum, sem nú eru á það lagðar. Allt fram á síðustu tíma var þó sá munurinn fyrir fólkið, að atvinna var töluvert mikil og kaup lengi vel allhátt, þannig að viðnámsþol almennings var nokkru meira en nú, en nú er orðið ljóst, að tvenns konar þróun hefur átt sér stað í senn, tollaþunginn — og á þar söluskatturinn drýgstan hlut — hefur sífellt farið vaxandi, um leið og viðnámsþol almennings hefur verið minnkað með lækkun kaupgjalds og minnkandi atvinnu. Ég fæ ekki betur séð en nú sé ástandið í þessum málum orðið þannig, að viðnámsþol almennings bókstaflega bresti, ef haldið verður áfram að leggja á hann alla þá tolla og skatta, sem hann verður nú að bera. Satt að segja hefur nú upp á síðkastið orðið vart slíkrar andstöðu gegn skattaálögum ríkisstj., og þá einkum gegn söluskattinum, að maður hefði getað haldið, að hæstv. ríkisstj. treystist ekki til að halda áfram á sömu braut. Innan sjálfra stjórnarflokkanna hafa raddir um tolla- og skattaþungann verið svo óvægar, að þær hafa jafnvel gefið mönnum undir fótinn með það, að söluskatturinn mundi skjótlega verða afnuminn eða þá stórlega lækkaður. Enn fremur voru bæjar- og sveitarfélögin farin að kvarta mjög undan því, að þau væru að sligast undir útgjöldum sínum, og svo framarlega sem þau ættu að geta staðið undir þeim byrðum, sem á þau væru lagðar, yrðu þau að fá nokkurn hluta af tekjum, sem nú renna í ríkissjóð. Ástæðan fyrir hinni slæmu afkomu bæjar- og sveitarfélaganna er m.a. sú, að ríkissjóður gengur svo nærri gjaldþoli almennings með tollum og sköttum, að útsvörin innheimtast alls ekki að fullu. Ríkið gengur svo nærri skattþegnunum, að geta þeirra til að greiða útsvör verður hverfandi. Á nýafstöðnum bæjarstjórafundi var samþykkt ályktun þess efnis að fara fram á við ríkisstj., að helmingur söluskattsins, ef á yrði lagður framvegis, yrði látinn renna til bæjarfélaganna. Nú, þegar þetta mál er lagt fyrir þingið, er á hvorugt það minnzt, sem menn höfðu gert sér vonir nm í sambandi við söluskattinn, annaðhvort að létta hann, svo að fólkið í landinu gæti risið undir honum, eða þá að láta hluta hans renna til bæjar- og sveitarfélaga eins og þau höfðu gert sér vonir um. Hæstv. fjmrh. minnist ekki einu orði á þessi atriði, og er það þó venja hæstv. ríkisstj., þegar hún hyggst koma fram svo óvinsælum málum sem þessu, að beita öllum ráðum, sem fögur orð leyfa, til þess að gera þau vinsælli.

Af því að þetta frv. heitir nú frv. til l. um framlengingu á l. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, hefði maður getað ætlað, að eitthvað hefði verið komið inn á þau atriði, hver áhrif skatturinn hefði á dýrtíðina í landlinu og á hvern hátt hann gæti dregið úr henni. Á þetta var þó ekki minnzt, enda sannast mála, að eins og sakir standa er söluskatturinn hinn mesti dýrtíðaraukandi skattur, sem nokkurn tíma hefur verið lagður á á Íslandi. Dýrtíðin vex hröðum skrefum, ef þessi skattur verður lagður á áfram, og það verður þeim mun erfiðara að ráða bót á henni, því lengur sem hann helzt. Og mér finnst það því sýna ótrúlegt sinnuleysi af hálfu hæstv. ríkisstj. um það, hvað hægt sé að bjóða gjaldþoli almennings, að ætla nú enn að leggja þennan þunga skatt á herðar honum, þegjandi og hljóðalaust, án afsökunar, án viðurkenningar á því, hve erfitt er fyrir fólkið að bera hann, án þess að láta skína í möguleika á að verja skattinum betur en hingað til hefur verið gert og án þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess að gera fólkinu mögulegt að standa undir honum. Það má minna á það, að tolla- og skattaálögur fara nú að nálgast 400 millj. kr., en allur útflutningurinn náði ekki 400 millj. kr. síðastl. ár, — mun á þessu ári sennilega fara fram úr 600 millj. króna, — og fer þá að verða nokkuð ískyggilegt ástand í þessum efnum, ef ríkissjóður tekur til sín af fólkinu í landinu jafnmikinn krónufjölda og nemur andvirði allrar framleiðslu landsmanna til útflutnings. Ég fæ ekki betur séð en nauðsyn beri til að stinga fæti við, þegar þannig er komið hlutfallinu á milli álagðra skatta og tolla annars vegar og verðmæti útflutningsins hins vegar. Ég tala nú ekki um, ef þetta hlutfall er borið saman við hlutfall sömu pósta eins og þeir voru fyrir stríð, en þá hygg ég að tollar og skattar hafi ekki numið nema 1/3 af útflutningsverðmætinu, og þótti það mikið þá. Hvað alþýðuheimilin í landinu snertir er það vitað mál, hvílíkur ógnarþungi skattbyrðin á þeim er orðin, að óbeinu skattarnir einir nema um 7000 krónum á hvert alþýðuheimili, og ætti hverjum manni að vera ljóst, að ómögulegt er fyrir þau að standa undir þvílíkum álögum, ef ekki eru gerðar samtímis ráðstafanir til að efla gjaldþol fólksins.

Það er rétt í sambandi við þetta frv., sem er kallað „frv. til l. um framlenging á gildi III. kafla l. nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna“, að rifja lítillega upp, um hvað þessi III. kafli er. Við framlengingu á þessum söluskatti á nú að fara svo einkennilega að að framlengja ákveðin ákvæði í ákveðnum lögum, án þess að tilgreina lögin, sem framlengd eru. Það á að klípa út úr þessum l. sérstök ákvæði, ákvæðin um tekjuöflun, en tilgreina ekkert um það, hvaða greinar falli úr gildi. Það á með öðrum orðum að leggja 80 millj. kr. skatt á þjóðina án þess að semja sérstök l., sem leyfa það. Og hver eru nú þessi l., sem þarna er verið að narta í? 1. gr. í III. kafla, sem er 19. gr. l., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“ Hér er um að ræða l., sem sett voru til að gera ríkissjóði fært að standa undir hugsanlegu tapi af rekstri sjávarútvegsins og halda niðri verðlaginu í landinu. Þau voru beinlínis sett til að draga úr dýrtiðinni og tryggja gang atvinnutækjanna. Nú, þegar búið er að eyðileggja þann tilgang, sem setning l. skyldi hafa, er komið fram með frv. um, að ákvæði þessara l. um tekjuöflunina skuli ein standa. Ég held það væri skemmtilegra að leggja fram lagafrv. um þetta efni, þar sem tekið sé skýrt fram, hvað verið er að gera, en allt hitt, sem ekkert gildi hefur lengur og er innan um allar þessar greinar, fellt burtu. Þegar þessi l. voru sett, þótti ekki fært að leggja þá kvöð á landsfólkið að inna af hendi greiðslur til bátaútvegsins öðruvísi en gera það að lögum. Nú gerist sú hlutur, að ríkisstj. tekur upp þá aðferð að leggja skatt á almenning, sem síðan er ráðstafað til bátaútvegsins, án þess að hagnýta þessi lög að nokkru, en ætlar að framlengja um leið ákvæði þessara l. um tekjuöflun. Það hefur hingað til verið aðalréttur Alþingis að geta ákveðið um allar álögur, sem lagðar eru á almenning. Nú gerist það, eftir að síðasta þingi var slitið, að lagt er á almenning af hálfu ríkisstj. sérstakt gjald, gjald, sem skyldi ekki renna í ríkissjóð, heldur til ákveðinna aðila í landinu. Ég á hér við bátagjaldeyrisskattinn. Það var gefin út reglugerð um þetta í vor, þar sem er leyfð 25–60% álagning á sérstök gjaldeyrisleyfi og mönnum áskilið að greiða þetta álag inn í sérstakan sjóð. Slíkt er að mínu áliti gert án lagaheimildar, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því, samkvæmt hvaða l. og hvaða gr. í þeim l. sú reglugerð, sem leyfir 20–60% álagningu á ákveðnar vörutegundir, hefur verið gefin út. Ég vil vekja athygli á því, að hér í þessum lögum um dýrtíðarsjóð, í 32. gr., eru sérstök fyrirmæli um það, að leyfisgjald megi innheimta á árinu 1949 með 100% álagningu. Til þess að þetta væri hægt, þurfti sérstök lagaákvæði, en nú leyfir hæstv. ríkisstj. sér að gefa út reglugerð, sem styðst ekki við nein l., um að leggja gjald, sem nemur 25–60%, á ákveðna vöruflokka. Ég skal geta þess, að þessi álagning getur ekki verið heimiluð með l. um fjárhagsráð, því að í l. er tekið fram og fjárhagsráði fyrirskipað, að svo miklu leyti sem það hefur á hendi úthlutun gjaldeyrisleyfa, að úthluta þeim leyfum þannig, að allir hafi sem jafnastan rétt til innkaupa og menn geti gert innkaup sem ódýrast, í staðinn fyrir að bátaútvegsgjaldeyrinum er úthlutað með það fyrir augum, að menn leggi sem mest á hann og selji vöruna sem dýrasta, þannig að þetta er að öllu leyti brot á l. um fjárhagsráð og fleiri lögum. Ég er með þessu ekki að ræða út af fyrir sig um bátaútvegsgjaldeyrinn, hvort hann sé heppilegur, nauðsynlegur, réttlátur eða eitthvað slíkt, heldur einvörðungu um þetta spursmál: Er hann löglegur eða ekki löglegur? — en það hefur ríkisstj. ekki fært sönnur á.

En það, sem ég vildi gera að umtalsefni, eru þessi l., framlenging á gildi III. kafla dýrtíðarl. frá 1948, en hann fjallar um vissan styrk til bátaútvegsins til þess að halda honum gangandi. Og ég vildi leyfa mér í sambandi við þetta að spyrja hæstv. fjmrh.: Er það máske meiningin, að í sambandi við framlenginguna á söluskattinum nú eigi að einhverju leyti að fara að greiða aftur fé til bátaútvegsins og fella niður bátaútvegsgjaldeyrinn? Ég álít, að þetta geti ekki gengið, að Alþ. hafi ekki hugmynd um, hvaða álögur á að leggja á landsmenn; ég álit ólöglegt að leggja á álögur nema með samþykki Alþ. og það eins þótt álögurnar séu lagðar þannig á, að það sé lagður sérstakur tollur eða skattur á einhverja vöru og hann síðan látinn renna til einstakra manna. Það hefur engin ríkisstj. rétt til að leggja þannig skatt eða toll á almenning, hvorki handa sjálfri sér né handa einstaklingum í landinu. Ég álít þess vegna, að það sé ekki nema eðlilegt og í rauninni óhjákvæmilegt í sambandi við umr. um söluskattinn nú, að það komi í ljós, hver er stefna ríkisstj. í þessu máli og hvað hún ætlar sér að gera. Ég vil benda á, að ef hæstv. ríkisstj. álitur sig hafa lagaheimild til að leggja á bátagjaldeyrinn þannig að leggja á ákveðna vöruflokka 25–60%, þá hefur hún slíka lagaheimild á morgun til þess að taka alla vefnaðarvöru og alla nauðsynjavöru í landinu og leggja á hana samsvarandi skatt til handa bátaútveginum eða einhverjum öðrum. Ef það er svo, að ríkisstj. hefur svona lagaheimild einhvers staðar, þá er það aðeins komið undir hennar áliti og geðþótta, hve viðtækt hún notar það. Ef hún getur notað það til þess að leggja svona toll á bílavarahluti eða eitthvað slíkt, hvað bannar henni þá að leggja hann á matvöru og alla vefnaðarvöru eða aðra vöru? Ég fæ ekki betur séð heldur en að með svona aðförum sé verið að eyðileggja allan rétt Alþ. til þess að kontrolera, hvaða álögur eru lagðar á fólkið, og það er til lítils að vera að biðja Alþ. um að samþ. söluskattinn eða eitthvað slíkt, ef á að vera hægt að bæta ofan á þann skatt til handa einstökum mönnum í landinu 25–60% álagningu. Ég vil taka það fram, að ég ræði þetta spursmál lagalega séð. Ég er engan veginn að ræða sjálfan vísdóminn í því að gera þetta. Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. gæti sannfært Alþ. um það, að það væri sjálfsagt að haga þessu svona með bátagjaldeyrinn, en hún getur ekki sannfært mig um, að það hafi verið gert lögum samkvæmt og hún hafi haft heimild til þess. Þess vegna held ég, að þegar Alþ. í sambandi við söluskattinn á að dæma um það, hvort fært sé að leggja svona þungan skatt áfram á almenning, þá eigi Alþ. kröfu á að fá að vita, hvað miklir þeir skattar og gjöld eru, sem á að fara að leggja á, jafnvel utan við öll lög, eins og t.d. í sambandi við bátagjaldeyrinn. Og út af fyrir sig er bátagjaldeyririnn ekki þyngri en allt, sem síðan er leyft að leggja ofan á hann. En einokunaraðstaðan, sem sköpuð er til verzlunarinnar, gerir það að verkum, að það, sem fer til bátaútvegsins, er ekki nema lítill hluti af því, sem almenningur verður að borga, þegar hann á að fara að kaupa þessar vörur. Ég vildi þess vegna vænta þess, af því hvernig þessi mál eru í eðli sínu, að hæstv. fjmrh. sæi sér fært að gefa upplýsingar um þetta mál um leið.

Ég vil svo að lokum segja það viðvíkjandi söluskattinum, að ég álít, að Alþ. verði að reyna að finna aðferð til þess að breyta hér um stefnu. Það verður að afnema — a.m.k. að draga úr söluskattinum, og hæstv. fjmrh. veit betur en ég, hvað það mundi þýða í raunverulegum sparnaði fyrir ríkið hvað snertir greiðslur til launafólks, og enn fremur að finna út aðra gjaldstofna, sem koma síður við almenning en söluskatturinn gerir. Ég held, að ef haldið verður áfram með tollana eins og nú er lagt til með söluskattinn, þá fari svo eftir nýárið, að fleiri og fleiri fyrirtæki og einstaklingar brotni efnahagslega undan þessu. Ég býst við, að hæstv. ráðh. sé ekki ókunnugt um, að það er búið að segja upp nú frá áramótum fjölda fólks í fyrirtækjum hér í Reykjavík, fyrirtækjum, sem eru að loka vegna þess, að þau standast ekki lengur þær byrðar, sem á þau eru lagðar, m.a. með söluskattinum, bátagjaldeyrinum og öðru slíku. Það er komið tilfinnanlegt atvinnuleysi úti um land og yfirvofandi efnahagslegt hrun hjá bæjarfélögum utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og allar ráðstafanir ríkisstj. miða að því að draga úr getu almennings til þess að standa undir þessum álögum, og ef svo á að halda áfram þessum skattþunga, þá fer ekki hjá því, að fólkið brotnar undan því. Það vildi ég, að hæstv. ríkisstj. reyndi að gera sér ljóst við 1. umr. þessa máls og að Alþ. fengi að heyra, hvort ríkisstj. er viðmælandi um að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og hins vegar að taka upp aðra tekjustofna, sem liggja ekki svona þungt á almenningi og einhver von er um að hægt yrði að innheimta. Ég held, að það, sem yrði uppskorið með því að halda áfram eins og nú er stefnt með þessum gegndarlausu skattaálögum, sé meiri og minni eyðilegging á efnahag fjölda einstaklinga og fyrirtækja í landinu, og ekki verður þá léttara fyrir fólkið að standa undir þeim byrðum, sem ríkisstj. leggur á það.

Ég vildi svo mælast til þess, að hæstv. fjmrh. gæfi, eftir því sem hann bezt gæti, svör við spurningum þeim, sem ég hef sett fram í sambandi við þetta mál, því að ég býst ekki við, að spursmálið um bátagjaldeyrinn sé öðru máli skyldara, sem fyrir þingið kemur, heldur en þessu, þannig að ég sé ekki betur en að það sé nú einmitt gott tækifæri til að bera fram slíkar fyrirspurnir og ræða það mál við hæstv. ríkisstj.