22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Dagana 10.–13. okt. var haldin í Reykjavik ráðstefna allra bæjarstjóra á landinu. Verkefni þessarar ráðstefnu var að ræða fjárhags- og atvinnumálefni bæjarfélaganna. Það kom í ljós, að hið alvarlegasta ástand ríkir bæði í fjárhags- og atvinnumálum bæjarfélaganna. Sums staðar stafar þetta ástand af margra ára aflaskorti, einkum í síldarbæjunum. En þessi vandamál ná til fleiri bæja. Var það álit mikils meiri hluta bæjarstjóranna, að við þetta ástand verði ekki unað og að sérstakar ráðstafanir yrði að gera í þessu efni af hálfu þings og ríkisstj. til úrbóta, ef vel ætti að fara.

Í umræðum á ráðstefnu bæjarstjóranna var það mjög athugað og rætt, hvernig mætti létta byrðum af bæjarfélögum og afla nýrra tekna. Ég skal ekki ræða þetta frekar, en vegna þess að framlenging söluskattsins er hér á dagskrá, vil ég koma þeirri tillögu á framfæri, að hluti söluskattsins renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Tekjustofn sveitarfélaganna er einn, útsvörin. Verði hallarekstur, kemur það því niður á útsvörunum. Auk þess er að því að gæta, að er ríkisstj. herti innheimtu söluskattsins, jók það mjög á erfiðleika við innheimtu útsvaranna. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að á þessum fundi samþykktu bæjarstjórarnir einum rómi, að ekki væri unnt að byggja á einum tekjustofni, útsvörunum. Það yrði að finna fleiri tekjustofna og þá óbeina. Ástandið í ýmsum bæjarfélögum er þannig, að þau verða að fá nýja tekjustofna án tafar, ef ekki á illa að fara.. Af þessum ástæðum var samþykkt á fundinum að fara þess á leit við Alþ. og ríkisstj., að á meðan innheimtu söluskattsins sé hagað svo sem nú er, skuli hann að hálfu renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og skiptast síðan milli sveitar- og bæjarfélaga eftir reglum þeirra laga, er um það gilda, en þar er einkum miðað við fólksfjölda. Enn fremur, að í lok ársins 1951 skuli renna í jöfnunarsjóð 25 millj. kr. af þessa árs söluskatti. Í lok fundarins var kosin 3 manna nefnd til að koma þessum óskum á framfæri við Alþ. og ríkisstj., og kom það í minn hlut að flytja málið hér fyrir hv. Alþ. Ég skal taka það fram, að þótt kaupstaðirnir standi að þessum samþykktum, þá eiga þær engu síður við hin smærri sveitarfélög, sem eiga mörg hver við hina sömu erfiðleika að etja og eiga að öllu leyti samflot með þeim. Ég skal bæta því hér við vegna ummæla hæstv. fjmrh., að þótt á hæstv. ríkisstj. hvíli að sjálfsögðu sú skylda að halda fjárhag ríkisins í góðu lagi, þá hvílir einnig á henni sú skylda að halda fjárhag sveitar- og bæjarfélaga í lagi.