18.12.1951
Efri deild: 48. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel mér skylt að þakka þær stórmerkilegu upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf, þar sem mér skilst, að ætlunin sé að friða þá stuðningsmenn stj., sem studdu að því, að þær breytingar voru gerðar á frv. í Nd. að taka 1/4 hluta söluskattsins til bæjanna, — það eigi að friða þá með því að úthluta 7 millj., 5 millj. vegna skulda við skólabyggingar og 2 millj. vegna hafnarframkvæmda, og svo eigi að setja 1 millj. í veðdeild Búnaðarbankans, svo að hún ein allra lánsstofnana í landinu geti keypt veðdeildarbréf fyrir nafnverð, eða kannske það sé meining ráðh., að hún verði notuð svo lengi sem hún hrekkur til að greiða mismuninn á nafnverðinu? — Það er að sjálfsögðu ekki á mínu færi né Alþfl. að hafa áhrif á það, hvort þessi verzlun innbyrðis á sér stað á stjórnarbúinu, en heldur finnst mér bæirnir og Sjálfstfl. fara halloka. En þetta breytir ekki afstöðu Alþfl. til frv. Fyrir okkur eru þetta ekki nóg gögn til að hverfa frá, að ríkissjóður eigi að láta 1/4 söluskattsins renna til sveitarfélaganna, jafnmikið og búið er að segja hér á Alþ. um nauðsyn sveitarfélaganna til að fá fé, ef þessi á að verða endirinn á þeim málum.