12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mætti virðast alveg sérstaklega gleðilegt og óvanalegt, að þetta frv. skuli koma fram, þar sem hér er um að ræða lækkun á sköttum. En tilfellið er, að aldrei reyndist unnt að innheimta þessi 7%, þannig að þegar þessi 3% voru ákveðin með lögum í sumar, fannst mönnum eins og þá fyrst væri verið að leggja skattinn á. En um leið og 3% voru lögð á, var líka farið að leggja á fólksflutninga, sem ekki voru fastar rútuferðir.

Í 1. gr. laganna, 4. mgr., stendur: „Enn fremur er ráðh. heimilt að undanskilja sérleyfi fólksflutningsferðir endrum og sinnum á héraðsmót, fjölsóttar skemmtanir, hópferðir og því um líkt.“ Það mun hafa verið ætlunin í upphafi, að þetta væri undanskilið. — Nú þykist ég vita, eins og fram kom hjá frsm., að erfitt sé að aðgreina þetta og að sérleyfishafar óski eftir, að þessi 3% séu innheimt undir öllum kringumstæðum. Hins vegar er þetta ósanngjarnt gagnvart fólkinu, ekki sízt þegar efni manna til að fara í sumarleyfisferðalög fara síminnkandi. Veldur það mikilli óánægju, að þetta gjald skuli lagt á. Ég held, að það geti ekki verið erfitt að hafa eftirlit með þessu, svo að ríkissjóður tapi ekki. Það, sem um er að ræða, eru allar ferðir, sem ekki eru fastar áætlunarferðir, daglega eða svo og svo oft í viku. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt að kontrolera þetta. Það má ekki skilja þetta svo, að ég vilji útiloka sérleyfishafana frá að hafa þessar ferðir, og ríkið er nú ekki í svo miklum vandræðum með að kosta skrifstofur sínar. — Það er satt að segja dálítið óviðfelldið að gera eins mikið að því og nú er gert að innheimta álögur af almenningi með sérstökum gjöldum til sérstakra skrifstofa. Það er raunverulega verið að reyna að komast fram hjá fjárlögunum, svipað og er með skattinn til fjárhagsráðs. Það er rétt, að ríkið telji fram allar þær tekjur, sem það fær, og greini öll gjöld. Gagnvart þeim, sem það skattleggur, á það ekki að fela neitt. Það er sjálfsagt, að ríkið standi undir sinni skipulagningu. Ég held þess vegna, að vel sé fært að samþ. mína tillögu, sem er á þá leið, að undanskilda: sérleyfisgjaldi skuli vera fólksflutningsferðir endrum og sinnum á héraðsmót, fjölsóttar skemmtanir, hópferðir og því um líkt. Í staðinn fyrir heimildina, sem er í lögunum, komi ákvæði um, að þetta sé undanskilið. Hér er ekki um neitt stórmál að ræða, en ég álít samt gott, ef hv. þm. gætu samþ. þessa till. Það væri ofur lítil viðleitni til að létta af gjöldum, er lenda á fólki, sem hefur ekki of miklar tekjur til skemmtiferða. Allar skemmtiferðir, þar sem fólk á sinn eigin bíl, eru undanþegnar þessu gjaldi; aðeins þeir, sem þurfa að leggja í þann aukakostnað að kaupa með sig bíl, verða að greiða það. Þess vegna legg ég til, að þessi brtt. verði samþ.