17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessu frv., sem er komið frá Nd. og var samþ. þar, var vísað hér í deildinni til samgmn., og varð n. sammála um að samþ. það óbreytt. Ekki er hér um stórvægilegt mál að ræða, heldur má segja, að verið sé að lögfesta það, sem hefur verið látið viðgangast óátalið, þótt heimild hafi ef til vill skort til þess, en það er, að aka megi fólki í skemmtiferðir án þess að greiða af því sérstakt gjald, ef ekki er farið út úr lögsagnarumdæminu, og þurfi þá ekki að sækja um undanþágu. Okkur finnst ekki gengið hér lengra í þessu en góðu hófi gegnir og því ekki ástæða til að spyrna við fótum gegn frv. Um 2. gr. frv. er þáð að segja, að við töldum okkur ekki geta sett okkur gegn því, að hún verði samþ., og leggjum yfirleitt til, að frv. verði samþ. óbreytt.