29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

132. mál, lánasjóður stúdenta

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það hefur verið þannig undanfarið, að það hefur verið veitt fé á fjárl., 250 þús. kr., til háskólans í því skyni að veita stúdentum óafturkræfan styrk. Nú hefur komið málaleitan frá stúdentum um, að þetta fé, sem ríkið hefur lagt til háskólans, verði ekki látið af hendi óafturkræft, heldur látið í sjóð, sem stúdentar geta svo fengið lán úr. Þetta fyrirkomulag er að mínu áliti mjög skynsamlegt og betra en áður tíðkaðist, og þeir stúdentar, sem við mig hafa talað, telja, að það komi að betri notum en áður. Ég hef einnig talað um þetta við rektor háskólans, og hefur hann ekkert við þetta að athuga.

Ráðuneytið hefur lagt til, að þetta framlag til stúdenta verði heldur hækkað — eða úr 250 þús. í 300 þús. Þó verð ég að viðurkenna, að þetta framlag er ekki nóg, til þess þyrfti það að vera 500 þús. Ég tel samt rétt að koma sjóðnum á stofn með þessu framlagi, en ef þingið sæi sér fært seinna meir að hækka þetta framlag, þá mundi það koma að góðum notum og vera vel þegið.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.