04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

19. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Frv. til l. um bruggun áfengs öls hefur oft skotið upp kollinum hér á Alþingi. Nokkrir þm. virðast hafa haft meiri áhuga á því en nokkru öðru að tryggja íslenzku þjóðinni með lögum áfengt öl. Þetta frv. hefur þó ekki náð fram að ganga, og nú er farin sú leið, að hæstv. ríkisstj. hefur sett brbl. um, að brugga megi áfengt öl handa setuliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þessi brbl. eru nú til meðferðar hér á Alþ., og er vonazt eftir, að þau verði staðfest eins og önnur brbl. Nú hefur komið í ljós við athugun n., að það virðist vera mjög vafasamt, hvort ríkissjóður fær jafnmiklar tekjur af framleiðslu þessa áfenga öls eins og af bruggun óáfengs öls. Það mun þó fyrst og fremst hafa verið ætlunin, að ríkissjóður fengi af þessu auknar, en ekki minnkaðar tekjur, geri ég ráð fyrir. Svo hefur a.m.k. verið látið í veðri vaka af þeim, sem hafa haft mikinn áhuga fyrir bruggun áfengs öls, að það mætti fá af því jafnmiklar tekjur í ríkissjóð og af hinu ölinu og mætti jafnvel gera það að útflutningsvara. Var þetta byggt á því, hve íslenzkt vatn virtist vel til þess fallið að vera meginkjarninn í slíkum drykk. Nú hefur fengizt sú reynsla, að það er erfitt að framleiða áfengt öl hér, sem er samkeppnisfært og sölufært til drykkjar hér innanlands, hvað þá heldur ef ætti að leggja á það flutningskostnað til annarra landa. N. telur sig þó hafa fengið vitneskju um, að þeir samningar hafi verið gerðir, að mögulegt verði að framleiða þetta áfenga öl þannig, að það verði ekki dýrara en erlenda ölið. Einnig, að tryggt verði, að ríkið fái jafnmiklar tekjur af framleiðslu þess og af óáfenga ölinu, þ.e.a.s. öli, sem hefur minna en 21/4% vínanda.

Mér hefur verið tjáð, en veit þó ekki á því fullar sönnur, að svo hafi farið, þegar búið var að framleiða nokkuð af þessu öli samkv. brbl., að þá hafi strandað á afsetningarmöguleikum til hermannanna á Keflavíkurflugvelli og verulegu magni af ölinu verið hellt niður. Mér er nær að halda, að þetta sé satt. — Svona fór nú um þessa fyrstu sjóferð. En nú á að vera búið að ákveða þetta þannig, að ekki á að bera í milli um verðlag og ríkissjóður á að fá af því jafnmiklar tekjur og hann hefur haft af óáfengu öli, sem hefur verið framleitt. Ég sé enga ástæðu til að staðfesta þessi brbl., því að engar upplýsingar liggja fyrir um, að ríkissjóður fái auknar tekjur við það.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál, en ég segi það strax, að ég er andvígur þessu máli og legg til, að þessi brbl. verði felld, þar sem engin frambærileg ástæða hefur verið borin fram þessu máli til stuðnings. Þó að tilgangur l. sé aðeins að heimila ölframleiðslu handa erlendum her og Íslendingar neyti þess ekki, þá er ekki alveg öruggt að treysta því, að þessi lög verði ekki brotin. Að vísu var áfengt öl framleitt á stríðsárunum, og í upplýsingum er svo til tekið, að það hafi ekki borizt til Íslendinga. En það er aðeins komið undir trúnaði þeirra manna, sem starfa að þessari framleiðslu, hvort vel tekst til eða ekki, en eitt er víst, að fast verður sóti að komast í þennan drykk, ef hann verður framleiddur hér. Ég held, að það væri meiri ástæða til að setja lög til að sporna við áfengisbölinu í landinu heldur en hjálpa til við að auka á það. (JJós: Eftir fenginni reynslu hefur ölið alls ekki gert það.) Sú reynsla nær nú ekki til framtíðarinnar og gefur því ekki fulla tryggingu fyrir því, að svo verði ekki. Ég held, að það sé ekki óeðlilegt, þó að menn segi, að hér sé farið inn á hættulega braut. Máltækið segir: „Af mjóum þvengjum læra hundarnir að stela,“ — og má heimfæra það upp á þessi lög eða segja, að með þessu frv. sé verið að bjóða skrattanum litla fingur, og hann tekur alla höndina.