07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. leggur hér fram, mun vera fram komið til þess að sýna lít á að verða við óskum ýmissa iðnfyrirtækja, sem því miður hafa:í mjög óhentugum tíma fyrir þau orðið fyrir skuldatapi eða tjóni vegna aðgerða ríkisvaldsins. Ég er þess fullviss, að skuldaskilin hafa verið á sett í þeim einlæga tilgangi að rétta við hag bátaflotans, og er það út af fyrir sig þarflegt. En fyrir atbeina þess hafa að minnsta kosti ýmsir orðið fyrir barðinu á skuldaskilunum. Þá hefur framkvæmdin orðið með nokkuð óþægilegum hætti, að því er virðist, og ekki síður fyrir það, að þetta kemur við fyrirtæki, sem fyrir fram eru aðþrengd, að mestu leyti af óviðráðanlegum orsökum. Verzlunarfyrirtæki, sem hafa í góðri trú lánað til útgerðarinnar, og iðnfyrirtæki, sem í jafngóðri trú hafa lánað til viðgerðar og endurbóta á bátaflotanum, verða þarna fyrir tjóni á sama tíma og öllum þótti aðstaðan til atvinnurekstrar þrengjast svo mjög, og hjá ýmsum má segja, að ekki sé fyrirsjáanlegt, að við það erfiða ástand verði ráðið. Ég á hér við lánsfjárkreppuna og peningaskortinn hjá öllum nema ríkissjóði, peningaskortinn og lánsfjárkreppuna, sem hljóta í báðum tilfellum að koma mjög hart niður á þessum fyrirtækjum og ekki sízt á iðnfyrirtækjunum. Nú er það svo, eins og vitað er, að fyrir ýmissa annarra hluta sakir á iðnaðurinn mjög erfitt uppdráttar hér á landi, eins og stendur. Og í mörgum greinum iðnaðarins er nú svo komið, að atvinnuleysi er skollið á. Ég veit til þess, að iðnaðarmenn sérstaklega, og þá einkum eigendur skipasmíðastöðva og vélaverkstæða, þykjast mjög illa haldnir út af sínum hlut í þessum málum. En einmitt þessar stofnanir í landinu, skipasmíðastöðvarnar og vélaverkstæðin, eru það, sem bátaútveginum er einna mest þörf á að hafa góð skipti við og eiga vísan stuðning hjá.

Ég hef við aðrar umr. hér í þessari hv. d. fyrir skömmu bent á, í hvert óefni stefnir hvað snertir starf skipasmíðastöðva hér á landi. Ég benti líka á það, sem sorgleg reynsla því miður staðfestir, að bátaflotinn verður sí og æ fyrir stórtjóni, og það er brýn þörf á endurbótum, en endurnýjunin er alveg lögð á hilluna, eins og nú standa sakir. Allar þær skipasmíðastöðvar, sem eru til hér á landi og fyrst komust á fót, voru endurbættar á dögum nýsköpunarstjórnarinnar. Síðan hefur verið hætt við alla nýsmíði. En það má segja, að auga gefi leið, að skipasmíðastöð er vart hægt að starfrækja í landinu án þess að hafa menn jöfnum höndum í bátaviðgerðunum, því að bátaviðgerðir eru oft og tíðum tilfallandi. Bátar verða fyrir tjóni og þurfa að fá viðgerð, og það þarf að gerast fljótt. og til þess þarf góða smiði. En það er erfitt að halda vel vinnandi mönnum, ef ekki er eitthvað upp á að hlaupa þá daga eða vikur, sem minni er þörf á viðgerðum á bátum. Og þess vegna er það, sem allur rekstur skipasmíðastöðva útheimtir að hafa mikla peninga með höndum. Þessir aðilar, vélsmiðjurnar og skipasmiðastöðvarnar og aðrir iðnaðarmenn, sem vinna við bátaviðgerðir, hafa borið sig upp við Alþingi á vissu sviði. Mér er kunnugt um það, að þeir hafa skrifað hv. fjvn. í síðastliðnum mánuði og rakið sínar raunir í þessum efnum og bent á, hvert tjón þeirra væri orðið vegna skuldaskilanna, og hafa þeir farið fram á það, að fjárveitingavaldið gerði þar nokkra úrbót. Þeirra uppástungur um þetta hafa verið fleiri en ein. Og þar á meðal er ein þeirra sú, sem hæstv. ráðh. var nú að lýsa og felst í þessu fram komna frv. og ég vil segja, að er lítils háttar viðleitni til þess að verða að einhverju leyti við óskum þessara iðngreina, sem ég einnig tel að væri mjög æskilegt. Það er reyndar alveg nauðsynlegt, að hér verði nokkru stærri fyrirgreiðsla gerð. Og verkefnið eða átakið er engan veginn svo stórt, að það sé óviðráðanlegt fyrir hæstv. ríkisstj. eða hið háa Alþingi að ganga svo frá þessu máli, að full skil séu fyrir hendi í þessu máli, t.d. með því að létta nokkuð þær byrðar, sem lagðar hafa verið á þessa mjög svo þörfu og þjóðhollu þegna, og á betri eða fullkomnari hátt en gert er með þessu litla frv. eða skattafyrirgreiðslu, sem hér liggur fyrir.

Mér er kunnugt um það, að n. sú, sem iðnaðarmenn kusu til að eiga viðræður við hæstv. ríkisstj. um þessi mál og skrifaði síðan hv. fjvn. og jafnvel ríkisstj., að hún fór fram á sitt hvað fleira en það, sem hér liggur fyrir. Og sérstaklega virðist mér, að þeir leggi áherzlu á það, að þeim verði á einhvern hátt opnuð leið til að ná í rekstrarfé, sem svari því tjóni, sem þessar iðngreinar hafa orðið fyrir vegna skuldaskilanna. Og í þeirri röksemdafærslu mun þetta tjón hafa verið metið á tugi hundruða. Ef ég hef ekki misskilið þá, sem við mig töluðu um þetta, þá mun vera næstum 3 millj. kr. sameiginlegt tjón þessara manna á þessu sviði. Þessum mönnum hefur verið tjáð af þeirri n., sem fór með skuldaskilin, að þeir fái 2–5kg af kröfum sínum, sem í raun og veru er sama og þeir hafi tapað hverjum eyri, sem þeir hafa útt þar inni. Þegar nú vitað er, að hagur ríkissjóðs er með slíkum blóma sem öllum er kunnugt og fjárreiður hins opinbera nægar, og svo á hinn bóginn, ef litið er á þörf þessara iðnfyrirtækja, þá finnst mér, að það ætti að geta komið til álita, hvort Alþingi sjái sér ekki fært að ganga feti framar til að bæta úr tjóni iðnaðarmanna í ríkari mæli en lagt er til í þessu frv.

Þessar athugasemdir vildi ég láta koma fram við þessa umr., með þeirri ósk til hæstv. fjmrh. og annarra forráðamanna ríkisins að taka til ýtarlegrar athugunar við meðferð málsins í þessari hv. d. möguleika á því að rétta betur við hag þessara fyrirtækja, sem ég hef hér gert að umræðuefni, en gert er í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég geri þetta vegna þess, sem að sjálfsögðu liggur í augum uppi og mér sjálfum sem útgerðarmanni um tugi ára er mjög kunnugt um, hve bátaútvegurinn víðs vegar um landið er háður góðu samstarfi við skipasmíðastöðvar og vélaverksmiðjur. Ég vil þess vegna leitast við að leysa af hendi nokkra þegnskyldu varðandi málefni þessara mjög svo þörfu manna í þjóðfélaginu.

Þegar ég bendi á og bið um, að tekið sé til athugunar það, sem ég hér hef minnt á, vona ég, að hæstv. fjmrh. muni vera sömu skoðunar eða hafa svipaðan skilning á málinu eins og ég og leggi ekki stein í götu þess.

Vænti ég svo, að við meðferð málsins verði fundin einhver sú leið til úrbóta, eftir því sem hér liggur fyrir og ég hef minnzt á, eða leið, sem komi viðkomandi fyrirtækjum að verulegu gagni. Mér hefur skilizt, að það skipti mestu máli hjá þeim, sem þarna eiga hlut að, að þá vantar rekstrarfé og þeir sætti sig frekar við orðin töp, ef þeim yrði séð fyrir lánsfé með sæmilegum kjörum, því að þeir sjá margir hverjir ekki út úr sínum vandræðum. Að vísu var nauðsynlegt að hjálpa bátaútveginum, en margra orsaka vegna var það gert á erfiðum tíma fyrir þá, sem eiga að missa sitt, þ.e. þá aðila, sem talað er um hér nú.

Ég fer ekki fram á, að hæstv. ráðh. gefi fyrirheit um ákveðna fyrirgreiðslu í þessu efni. Ég fer aðeins fram á, að hæstv. ráðh. ljái lið sitt við meðferð málsins hér á Alþ. og að athugað verði, hvað gera megi til úrbóta fyrir þessa menn, sem hafa orðið fyrir óverðskulduðu tjóni.