07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem þetta frv. fer til, en vildi, áður en það er tekið til meðferðar þar, ræða nokkur atriði við hæstv. ráðh.

Ég vildi þá fyrst spyrja hæstv. ráðh., hvort með þessu frv. liggi fyrir viðurkenning frá hæstv. ríkisstj. um siðferðislega eða lagalega skyldu til að bæta þetta tjón, sem hér hefur orðið. Mér skilst, að ekki sé hægt að bera slíkt frumvarp fram, nema ríkisstjórnin viðurkenni, að hún með lögum frá Alþingi hafi stöðvað rétt þessara manna til að ganga eftir skuldum og hafi um leið bakað sér þá skyldu að greiða úr þessu máli síðar, — og ef svo er, hvort hæstv. ráðh. er ekki til viðtals um aðrar úrlausnir þessa máls, m.a. þá, sem hv. þm. Vestm. talaði um. Í öðru lagi, hvort hæstv. ráðh. geti hugsað sér að fallast á, að farið verði með tekju- og eignarskattinn skv. 1. gr. l. eins og ætlazt er til að farið verði með stóreignaskattinn, þegar vitað er, hvaða upphæð hefur verið afskrifuð á hverju ári hjá hverju fyrirtæki, sem ekki hefur verið hægt að ganga eftir vegna l. Ég held, að það sé ekki hægt að ganga eftir þessu og ekki réttlátt. Réttast væri að umreikna að nýju fyrirtækin og að þau þá mættu afreikna tapaðar skuldir. Það væri eðlilegasta meðferðin, ef ætti að bæta skattgreiðendum að einhverju leyti þeirra tjón. En ég vil í sambandi við þetta mál spyrja, hvort nokkru sé að treysta, þótt þetta verði samþ., að dómstólarnir fái ekki þetta mál til meðferðar og ríkissjóður verði dæmdur til að endurgreiða skattinn. Ég hygg, að ef það kæmi fram við endurskoðun, að maður hefði um of afskrifað á ákveðnu ári, þegar búið væri að leggja skattinn á og úrskurða hann, hvort heldur væri af undir- eða yfirskattanefnd, og síðar kæmu fram upplýsingar um, að hann hefði verið rangt lagður á, mundi stj. krefjast þess, að viðkomandi skattur væri umreiknaður á ný til hækkunar. Það er ljóst af þessu dæmi, að ef þessi sama skattan. reiknar of háar tekjur, verður einnig að breyta því og lækka skattinn, og verður þá að fá úrskurð dómstólanna um það eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Ég hefði talið æskilegast, að farið væri með tekju- og eignarskattinn samkv. ákvæðum 1. gr. eins og með stóreignaskattinn samkv. ákvæði 2. gr. Það er sýnilegt, að þessir aðilar neita að greiða stóreignaskatt ettir framtali, sem ákvarðast af kröfum, sem hafa verið strikaðar út fyrir atbeina ráðh. og Alþ., og þeir láta sér ekki nægja annað en úrskurð dómstólanna þar um.

Ég vil svo taka undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði um nauðsyn á samkomulagi milli þessara aðila. Ef er ástæða til að taka tugmilljónir króna til að koma flotanum á veiðar nú um áramótin og gera síðan ráðstafanir til að halda honum gangandi, sem kosta þjóðina tugmilljónir, er ekki síður ástæða til að koma á samkomulagi milli þessara aðila, ef þessi atvinnuvegur á að ganga truflunarlaust í framtíðinni. Þessi atvinnuvegur á svo mikið undir þessum aðilum og er þeim viða skuldbundinn. Það þarf að tryggja fullt samkomulag í sambandi við lausn þessa máls, og vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki sé rétt, að fjhn. kalli á sinn fund fulltrúa frá þessum aðilum og síðan verði rætt við fjvn. og ríkisstj. og reynt að ná samkomulagi við þá viðvíkjandi skuldaskilunum, svo að ekki þurfi að koma til árekstra síðar.