14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og sést af nál. meiri hl. fjhn., þá hafði ég ákveðið að gefa út sérstakt nál., en því miður var það seint undirbúið, og því verður ekki útbýtt fyrr en á morgun. En hins vegar eru þær brtt., sem ég hef borið fram á þskj. 581 ásamt hv. 5. landsk. þm., komnar til útbýtingar, og þar sem þar koma fram aðalatriðin, mun ég nú gera grein fyrir brtt. okkar, þótt nál. liggi ekki enn fyrir.

Hæstv. ríkisstj. hafði með 2. gr. frv. gert ráðstafanir til þess, að það fé, sem veitt væri af tekjum ríkisins fyrir árið 1951, mætti eins ganga til greiðslu á skuldum ríkissjóðs, en ríkissjóður fengi í staðinn heimild til þess að lána fé úr mótvirðissjóði til nokkurra þeirra liða, sem upp eru taldir í 1. gr. frv. Hæstv. ríkisstj. hefur þess vegna með því frv., sem hér liggur fyrir, farið inn á þá braut að leggja til um ráðstöfun lána úr mótvirðissjóði, og við flm. brtt. á þskj. 581 hefðum kosið að ganga nokkru lengra í þá átt og ekki sízt af því, að hér liggur nú fyrir Alþ. frv., flutt af þm. Sósfl., sem gengur í þá átt og hefur ekki enn fengið hér afgreiðslu. Við höfum þess vegna lagt hér fram viðtækar brtt. við þetta frv., sem að miklu leyti ganga út á það að taka upp till. okkar sósíalista um ráðstöfun á fé úr mótvirðissjóði. En við göngum út frá því, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, hvað af þessum upphæðum er veitt af tekjum ríkissjóðs árið 1951 og hvað úr mótvirðissjóði. Við gerum ráð fyrir, að tekið verði burt það ákvæði, sem felst í 2. gr. frv., að ríkissjóði skuli skylt að greiða núna lausaskuldir sínar jafnframt. Það er engin ástæða til þess, að ríkið minnki sínar skuldir, heldur þvert á móti ætti ríkið að auka þær, svo framarlega sem það gæti orðið til þess að skapa betri atvinnuskilyrði og meiri atvinnu í landinu. Það yrði þjóðarböl, ef ríkissjóður nú drægi úr kaupgetu almennings og möguleikum sjálfs sín með því að draga úr framkvæmdum, því að það, sem nú þjakar þjóðfélagið og almenning, er of lítil kaupgeta og tilfinnanlegt atvinnuleysi, sem ekki hefur verið jafnmikið síðan 1931.

Ég held þess vegna, að það sé mjög nauðsynlegt, að Alþ. taki alvarlegt spor í þá átt að reyna að koma atvinnulífi landsmanna í eðlilegt horf. Og þegar ég segi, að koma eigi atvinnulífinu í eðlilegt horf, þá meina ég með því fulla atvinnu hjá almenningi og næga kaupgetu hjá almenningi, sem er hið eina eðlilega ástand hjá þjóðfélagi, sem á eins mikið af atvinnutækjum og okkar þjóðfélag. Það nær engri átt, að slíkt þjóðfélag þurfi að búa við atvinnuleysi og skort. En atvinnuleysið er framkallað af því opinbera, í stað þess að hið opinbera hjálpi til þess að koma sjálfu atvinnulífinu aftur í gang með því að veita til þess fé og stuðla að eðlilegri fjárfestingu.

Í brtt. okkar er í fyrsta lagi lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að verja úr mótvirðissjóði eða af tekjuafgangi ársins 1951 50 millj. kr., og í öðru lagi er tekið fram, hvernig því fé skuli varið, en þar er gengið út frá því, að því sé fyrst og fremst varið til framkvæmda í kaupstöðum og kauptúnum til að bæta framleiðsluskilyrði þeirra, svo sem til byggingar eða endurbóta á frystihúsum og fiskimjölsverksmiðjum, bættrar aðstöðu til afgreiðslu fiskiskipa og hagnýtingar sjávarafurða og annarra framkvæmda til eflíngar atvinnulífinu. En þessi brtt. er hugsuð alveg sérstaklega með tilliti til kauptúna og kaupstaða hringinn í kringum allt land. Þó að þetta kæmi Reykjavík að gagni, þá er hér fyrst og fremst miðað við, að það kæmi smærri bæjum og kauptúnum að notum og miðað við að skapa þar betri framleiðsluskilyrði og betri skilyrði fyrir togara og vélbáta en nú eru. Þau tæki, sem nú eru til, gætu þá framleitt miklu meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið, svo framarlega sem möguleikar og aðstaða úti um land til þess að vinna úr afla þeirra væri bætt. Ýmis bæjarfélög, sem hafa togara eða vélbátaflota, geta ekki hagnýtt aflann, af því að þau hafa ekki nauðsynleg tæki til þess að taka á móti honum og vinna úr honum. Þau óska þess að geta komið upp hraðfrystihúsum og eru í óða önn að búa sig undir að koma þeim upp til þess að geta gert aflann að dýrmætari vöru. Og það er hægt að auka útflutning landsmanna stórkostlega, um 100–250 millj. kr. á ári, svo framarlega sem togurunum og mótorbátunum væri einbeitt að þessari framleiðslu, en það, sem stendur sérstaklega í vegi fyrir þessu, er skortur á lánsfé og skortur á fé til fjárfestingar, og það er annar tilgangur þessa frv. að bæta úr þeim skorti. Ég efast ekki um það, að það, sem þannig væri veitt til bæjar- og sveitarfélaga, mundi skila sér aftur með vöxtum og vaxtavöxtum. Það mundi setja líf í atvinnulífið úti um allt land og beinlínis verða til að auka erlendan gjaldeyri landsins.

Í öðru lagi legg ég til, að veittar verði 20 millj. kr. til verkamannabústaða og útrýmingar heilsuspillandi íbúða, en núna er í frv. hæstv. ríkisstj. gengið út frá, að veittar verði til þessa 4 millj. kr. auk 8 millj. kr. til byggingar sjúkrahúsa, heilsuhæla og heilsuverndarstöðva. Það væri heppilegt og nauðsynlegt að velta meira fé til þessara hluta, því að þarna er um að ræða nauðsynlega fjárfestingu og allur almenningur á við mikil húsnæðisvandræði að stríða, sem nauðsynlegt er að bæta úr, og eins og hv. 8. landsk. hefur bent á, mun þarna vera um að ræða verulega atvinnuaukningu. Allir vita, hversu alvarlegt atvinnuleysi hefur undanfarið verið hjá byggingarverkamönnum og öðrum verkamönnum, sem aftur hefur orsakað það kaupgetu- og peningaleysi, sem ógnar þjóðarbúskapnum. Þessi kaupgetuskorfur hjá verkalýðnum veldur mjög hnignandi kjörum hans og stöðnun í atvinnulífinu.

Þá er í 1. tölul. í þriðja lagi lagt til að veita 15 millj. kr. til byggingar smáibúða. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. flutt frv. um þetta mál, en í þessari till. gerum við ráð fyrir, að vextir af þessum lánum verði 4%, eins og verið hefur um slík lán. — Í fjórða lagi leggjum við svo til, að lánaðar verði til Búnaðarbanka Íslands 30 millj. kr., og býst ég við, að hv. þdm. séu sammála um, að ekki muni af veita, þegar farið verður að ráðstafa fé mótvirðissjóðs, að auka þau framlög, sem ætluð eru til uppbyggingar landbúnaðinum. — Í fimmta lagi er svo lagt til, að greiddar verði upp í vangoldin framlög ríkissjóðs 10 millj. Í frv. er gert ráð fyrir, að varið verði 7 millj. upp í ógreidd framlög til hafna og skólabygginga, en við viljum, að sjúkrahúsin séu tekin með, og leggjum þess vegna til, að þessi upphæð sé hækkuð í 10 milljónir. — Í sjötta lagi leggjum við svo til, að til að byggja sjúkrahús verði veittar 8 millj., og er það ný till., sem ekki er í 1. gr. frv. hæstv. ríkisstj., og eins og hv. þm. vita, liggur till. fyrir um slíkar framkvæmdir. — 7. till. er svo sama till. og till. hæstv. ríkisstj. um iðnaðarbankann.

Ég vil taka fram, að fyrst á annað borð er farið inn á það að vilja með þessu frv. ráðstafa fé mótvirðissjóðs, fannst okkur rétt, úr því á að fara að borga skuldir ríkissjóðs, að koma með allýtarlegar till. um ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs. Með þessu, ef reiknað er með 50 millj. kr. tekjuafgangi, þýðir þetta, að 86 millj. yrði varið úr mótvirðissjóði. Nú býst ég við, að mjög miklum hluta þess fjár, sem nú er í mótvirðissjóði, sé að vísu, eftir því sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir, ráðstafað, þó að ekki liggi enn fyrir nákvæmar upplýsingar um þetta. Nú liggur fyrir Alþ. þáltill., sem felur í sér ósk um ráðstöfun á fé, sem að áliti flm. mundi taka fram yfir það fé, sem nú er til ráðstöfunar í sjóðnum, og taka að einhverju leyti til ráðstöfunar á því fé, sem kemur inn í sjóð, sem ríkisstj. stofnar í stað mótvirðissjóðs, og þangað ganga þær greiðslur, sem borgaðar eru af lánum úr mótvirðissjóði.

Ég skal ekki segja um, hvað líður ráðstöfun á því fé, sem er í mótvirðissjóði, né hvað verður í honum endanlega, og skal ekki segja um, hvort þessar till. passa við það. Ég veit ekki heldur, hvort notuð verður sú heimild að ráðstafa 50 millj., eins og samþ. var á síðasta þingi, til að greiða skuldir ríkissjóðs við Landsbankann, og veit ekki, hvort samþykki hefur fengizt vestanhafs fyrir þeirri greiðslu. Þætti mér vænt um að fá nokkurt yfirlit hjá hæstv. fjmrh. um, hvernig þetta stendur. Ef sú heimild verður ekki notuð eða tregða er á að fá hana hagnýtta, álít ég, að Alþ. eigi nú að gera sína samþykkt um ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs og láta þessa 50 millj. kr. greiðslu falla niður. Ég álíti illa farið, ef ríkissjóður færi að greiða þessar 50 millj. af tekjuafgangi ársins 1951. Það eru sannarlega ekki þeir tímar nú, að ríkissjóði sé fært að láta fara fram skuldaskil við sínar eigin stofnanir, þó að það líti skár út á pappírnum, þegar þörf er fjárins í skynsamlegra augnamiði. Nú ganga atvinnulausir í Reykjavík úr 13 félögum um 1500 manns, þannig að ef talið er með fólk úr öðrum félögum, sem ekki er skráð og atvinnulausir meistarar í iðnaðarfélögum og verzlunar- og skrifstofufólk, er ekki efa bundið, að yfir 2000 manns eru atvinnulausir hér. Og hve mikið atvinnuleysi er úti um land, er þm. kunnugt, að undanteknum hæstv. viðskmrh., þannig að nú er brýn þörf, að hæstv. ríkisstj. beiti þeim yfirráðum, sem hún hefur yfir fé, til að reyna að bæta úr þessu atvinnuleysi, en samt er ekki í þessum till. lagt til, að farin verði nein sú leið, er orðið geti til eigna- eða framleiðsluaukningar.

Ég vil svo vona, að hv. þm. taki þessum brtt. vel, en væri kærkomið að fá frá hæstv. fjmrh. upplýsingar um þá ráðstöfun, sem þegar hefur verið gerð á mótvirðissjóði, til þess að hv. þm. geti í ljósi þess athugað þessar till. okkar raunsæjan hátt, miðað við þær upplýsingar, sem fram koma.