04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

35. mál, forgangsréttur til embætta

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held, að þetta sé byggt á misskilningi hjá hv. þm. Barð. Brtt. u. er um það, að gr. í l. nr. 84 frá 1936 orðist svo, og 2. gr., eins og gert er ráð fyrir henni í brtt. n. í nál., víkur þannig til þessarar gr. svo orðaðrar, og það er að miklu fleira leyti en til orðanna „að öðru jöfnu“, sem orðasambandið „með hliðstæðum hætti“ í seinni gr. brtt. bendir til. Orðasambandið „með hliðstæðum hætti“ bendir til allra skilyrða, sem fram eru tekin í 1. gr., eins og n. vill orða hana með brtt. sinni. Það þýðir, að B. A.-prófsmenn frá heimspekideild háskólans skuli hljóta forgangsréttindi með sama hætti og meistarar og kandidatar, sem fyrri gr. ræðir um, þ.e.a.s. þeir hafi forgangsrétt við alla framhaldsskóla, sem kostaðir eru eða styrktir af ríkisfé eða sveitarfé, ef kennslan á unglingastiginu fer ekki fram í sambandi við barnaskóla, og þó því aðeins, að kennsla í þessum greinum nemi a.m.k. hálfu kennarastarfi eða sérstakur kennari sé ráðinn til starfsins, og þessir menn hafi réttindi framhaldsskólastigsins. Þarna er því vísað til allra skilyrðanna, sem í 1. gr. eru sett. Ég held, að þetta komi ekki í bága við eldri lög, en þetta skal verða borið saman fyrir 3. umr.